22.1. Landsvirkjun og verktökum ber að hafa samband við yfirtrúnaðarmann eða ASÍ sé hann ekki til staðar, ef þeir fá vitneskju um aðstæður sem haft gætu í för með sér vandamál eða ágreining. Á sama hátt skal yfirtrúnaðarmaður hafa samband við Landsvirkjun eða verktaka í slíkum tilfellum. Finnist ekki lausn skal stofna til fundar með samningsaðilum. Á þeim fundi skulu allar upplýsingar sem málið varða liggja fyrir.
22.2. Fastanefnd
Við upphaf virkjunarframkvæmda skal sett á stofn fastanefnd. Nefndin skal skipuð einum fulltrúa frá hverju því landssambandi sem aðild á að samningi þessum og tveimur fulltrúum SA.
Hlutverk fastanefndar er að mæla fyrir um framkvæmd einstakra ákvæða eftir því sem nánar er kveðið á um í samningi þessum og að kveða upp úrskurði í ágreiningsmálum sem vísað hefur verið til nefndarinnar.
Fastanefnd getur kallað fulltrúa einstakra verktaka á sinn fund telji hún það nauðsynlegt.
Fastanefnd skal halda fundi þegar þurfa þykir.