Uppsagnarfrestur og endurráðning

12.1.     Ráðningar

12.1.1.           Allar ráðningar starfsmanna til virkjunarframkvæmda, sem falla undir ákvæði samnings þessa, skulu fara fram með samráði viðkomandi samningsaðila.

12.1.1.1.         Við ráðningu skulu starfsmenn og fulltrúi fyrirtækis undirrita ráðningarsamning, sem samningsaðilar hafa komið sér saman um. Í ráðningarsamningnum séu tiltekin atriði, sem varða réttindi og skyldur starfsmanna samkvæmt lögum og kjara­samningum. Yfirtrúnaðarmaður skal fá afrit af öllum ráðn­ingarsamningum.

12.2.     Uppsagnarfrestur

12.2.1.           Um uppsagnarfrest starfsmanna skal fara samkvæmt almennum kjarasamningum viðkomandi landssambanda.

12.2.2.           Uppsagnir skulu vera skriflegar og skal leitað kvittunar starfs­manna eða annarra sannindamerkja um uppsögn, þegar hún er lögð fram. Allir uppsagnarfrestir hér að framan skulu vera gagnkvæmir. Yfirtrúnaðarmanni er heimilt að fá afrit af uppsagnarbréfi starfsmanns.

12.2.3.           Gerist starfsmaður sannanlega sekur um ítrekaða óstundvísi eða brot á almennum starfsreglum, er hægt að segja honum upp störfum án uppsagnarfrests, enda hafi hann áður verið sannanlega aðvaraður tvisvar sinnum skriflega sbr. þó gr. 6.2.4. og 6.2.5.

Brot sem teljast alvarleg að mati verktaka og yfirtrúnaðarmanns réttlæta fyrirvaralausa uppsögn án áminningar. Í þeim tilvikum skal yfirtrúnaðarmanni tilkynnt um uppsögn áður en starfsmaður yfirgefur vinnusvæðið.

12.2.4.           Þegar starfsmönnum er sagt upp störfum vegna samdráttar, skulu þeir, ef um endurráðningu er að ræða innan eins árs, halda áunnum réttindum svo sem starfsaldurshækkunum, föstu kaupi og rétti til kaupgreiðslu í veikinda- og slysatil­fellum.

12.2.5.           Að öðru leyti fari um þessi efni eftir lögum nr. 19/1979.

12.3.     Starfslok

12.3.1.           Sé starfsmanni sagt upp, eftir a.m.k. 10 ára samfellt starf hjá sama fyrirtæki, er uppsagnarfrestur fjórir mánuðir ef starfs­maður er orðinn 55 ára, 5 mánuðir ef hann er orðinn 60 ára og 6 mánuðir þegar hann er orðinn 63 ára. Starfsmaður getur hins vegar sagt upp starfi sínu með þriggja mánaða fyrirvara.

12.4.     Fjarvistir vegna fæðingarorlofs

12.4.1.           Samkvæmt lögum um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 skal fæðingarorlof reiknast til starfstíma við mat á starfstengdum réttindum, svo sem rétti til orlofstöku og lengingar orlofs samkvæmt kjarasamningum, starfsaldurshækkana, veikindaréttar og uppsagnarfrests. Sama gildir ef kona þarf af öryggisástæðum að leggja niður störf á meðgöngutíma, sbr. reglugerð um ráðstafanir til þess að auka öryggi og heilbrigði á vinnustöðum fyrir konur sem eru þungaðar, hafa nýlega alið barn eða hafa barn á brjósti.

Fæðingarorlof telst til unnins tíma við útreikning orlofsréttar, þ.e. réttar til frítöku en ekki orlofslauna.