Í baráttu við holurnar átján

 Samiðnarmótið í golfi hefur fest sig í sessi. Metþátttaka var í ár

 

Glæsilegur bolti, flott högg, fínt pútt – þetta var meðal þess sem heyra mátti á Strandavelli við Hellu 16. júní síðastliðinn þegar hið árlega golfmót Samiðnar fór þar fram. Tíðindamaður Samiðnarblaðsins slóst í för með fjórum keppendum til að taka aðeins púlsinn á þessari íþrótt sem nýtur sívaxandi vinsælda hér á landi. Það sem tíðindamaður vissi ekki var að í hópi fjórmenninganna leyndust bestu menn mótsins, þeir Óskar Pálsson trésmiður frá Hvolsvelli, sem varð í fyrsta sæti þeirra sem leika án forgjafar, og Örn Gíslason járniðnaðarmaður sem varð í öðru sæti í sama flokki. Hinir tveir í hópnum voru Garðar Ólafsson, trésmiður og mótsstjóri, og Sigurjón Ólafsson rafvirki sem keppti sem gestur. Þeir fjórmenningar voru ræstir út síðastir þegar klukkan var langt gengin í tólf þennan ágæta sunnudag.

– Strandavöllurinn hér við Hellu er einn af glæsilegri golfvöllum landsins, 18 holu völlur sem hefur upp á allt það besta að bjóða, segir Garðar mótsstjóri. Hann var ánægður með þátttökuna á mótinu og segir hann fara vaxandi.

Veðrið var fínt þann tíma sem tíðindamaður gekk um gofflatirnar með keppendum, hægur vindur, sólarlaust en þurrt.

 

Þegiðu, maður

 

Það gilda ákveðnar reglur í golfi eins og tíðindamaður varð áþreifanlega var við þegar hann ætlaði að halda uppi samræðum um leið og menn voru að slá. Honum var fyrst bent góðfúslega á að tala ekki á meðan, en síðar var honum sagt að þegja þegar hann gleymdi sér.

– Menn mæta ekki í gallabuxum á golfvöllinn og ef bolti týnist taka allir þátt í að leita að honum – nema algerir fýlupúkar, segir Óskar sem er Rangæingur, býr á Hvolsvelli og var á heimavelli eins og hann orðaði það. Óskar er formaður golfklúbbsins sem rekur Strandavöll. Hann hefur stundað golf í áraraðir og segir að ef menn ætli að stunda golfið af kappi þurfi helst öll fjölskyldan að vera með golfbakteríu. Hann lætur þess getið að þannig sé því einmitt háttað á hans bæ.

Tungumál kylfinga er afar sérstakt og nokkurn tíma tekur að komast inn í það. Íslenskir kylfingar notast bæði við íslensk og ensk orð yfir hin ýmsu hugtök íþróttarinnar, þannig hafa golfarar tekið upp orð úr íslensku eins og fugl, örn og skolli sem munu þýða að menn hafa náð að koma boltanum í holu með svo og svo mörgum höggum. En eftir sitja allmargar enskuslettur sem erfitt hefur reynst að útrýma. Þannig kallast flötin þar sem holan er grín og kylfan sem notuð er við upphafshögg hverrar brautar heitir dræver. Nokkrar kylfur aðra hafa ensk heiti en flestar kylfur bera bara númer.

Það kom tíðindamanni – sem aldrei hefur hefur leikið golf – nokkuð á óvart hvað kylfingar þurfa margar ólíkar kylfur í baráttu sinni við að koma boltunum ofan í holurnar. Í heilu golfsetti eru 13 kylfur en hámarksfjöldi sem keppendur mega hafa er 14 kylfur.

 

Dýrt sport

 

– Þetta er dýrt sport. Það er ekki spurning. Klúbbaðild er nauðsynleg ætli menn að  stunda þetta af einhverju viti, segir Örn sem er félagi í golfklúbbnum Keili í Hafnarfirði, en aðild að golfklúbbi hleypur á tugþúsundum króna á ári. Auk þess þurfa menn að hafa tiltækan ýmsan búnað sem var á þeim félögum að skilja að væri ekki beinlínis gefinn.

– Golf er ákveðinn lífsstíll, sem menn velja að að eyða tíma sínum og peningum í. Þetta er sport sem sameinar góða útveru og góðan félagsskap, segir Garðar sem hefur stundar golf í fjölda ára. Hann var ekki ánægður með árangur dagsins, fór holurnar þrjár sem þeir félagar voru búnir að leika yfir pari.

Þetta gengur svona upp og ofan, dagsformið ræður, segir hann og glottir, vafalaust í von um að gera betur á næstu holum.

Hver golfvöllur hefur ákveðið „par“. Strandavöllur er par-70-völlur, en allar holur vallarins hafa sitt par, það er að segja meðaltal þeirra högga sem þarf til að koma boltanum í holuna. Menn eru annaðhvort yfir pari eða undir, allt eftir því hvernig gengur að hitta í holuna.

Fjórmenningarnir voru sæmilega sáttir þegar tíðindamaður yfirgaf þá eftir að þeir voru búnir að leika fjórar holur. Allir voru þeir yfir pari en vonuðust til að rétta úr kútnum á þeim 14 holum sem eftir voru.

 

Áttræður keppandi

 

Á leið sinn til baka að klúbbhúsinu rakst tíðindamaður á Helga Arnlaugsson, fyrrverandi starfsmann Málm- og skipasmiðasambandsins, en hann var elsti keppandi á mótinu, 80 ára. – Þetta er búið að ganga sæmilega, sérstaklega í upphafi, en það hefur heldur sigið á ógæfuhliðina, segir Helgi sem hefur stundað golf í tíu ár eða frá því hann hætti að vinna. Helgi segist vera heppinn með keppnisfélaga, þeir séu þolinmóðir og komi oft með góðar ábendingar. Hann segist aðallega spila golf í Garðabænum og einnig á golfvellinum í Öndverðarnesi.

– Þetta er yndisleg hreyfing og félagskapurinn í kringum þetta líka, segir Helgi sem hefur nokkrum sinnum áður tekið þátt í Samiðnarmótum.

Mótinu lauk um sexleytið og var veittur fjöldi viðurkenninga. Röð efstu manna var sem hér segir:

Án forgjafar í fyrsta sæti Óskar Pálsson, TR, í öðru sæti Örn Gíslason, Félagi járniðnaðarmanna, og í þriðja sæti Rafn Rafnsson, TR. Með forgjöf var í fyrsta sæti Jón Valgeir xxxson, FIT, í öðru sæti Konráð Ægisson, FIT, og þriðja sætinu náði Ingi Freyr Rafnsson, TR. Í unglingaflokki sigraði Anton Jón Loftsson, Andri Óskarsson varð í öðru sæti en Gísli Árnason í þriðja. Nándarverðlaun hlaut Ingi Freyr Rafnsson, TR, 4,69 m.