Landbúnaðarháskóli Íslands
Ég er ekki í nokkrum vafa um að þessi sameining á eftir styrkja menntun garðyrkjumanna hér á landi og að garðyrkjan nýtur góðs af, segir Guðríður Helgadóttir garðyrkjufræðingur sem hefur verið ráðin forstöðumaður starfs- og endurmenntunardeildar Landbúnaðarháskóla Íslands. Sá skóli varð til um síðustu áramót þegar Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri, Rannsóknastofnun landbúnaðarins (RALA) og Garðyrkjuskóli ríkisins voru sameinuð.
– Fyrst um sinn höldum við okkar striki því að það tekur tíma að sameina svona stofnanir. Það hafði lengi verið unnið að hugmyndum um að sameina RALA og Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri og margar skýrslur verið skrifaðar um þá sameiningu. Hugmyndin um að hafa Garðyrkjuskólann með kom fyrst fram snemma árs 2004 og þar af leiðandi tekur það hugsanlega lengri tíma fyrir okkur að aðlagast þessari nýju stöðu, segir Guðríður sem er sátt við framvindu mála fram til þessa.
– Við erum nú með nemendur í diplómanámi á háskólastigi hér við Garðyrkjuskólann, fyrstu nemendurnir hófu nám haustið 2004 og við vonum að það nám styrkist verulega nú þegar við erum orðin hluti af stærra háskólasamfélagi. Aðgangur okkar að ýmsum sérfræðingum batnar umtalsvert og nemendum opnast ýmsir nýir möguleikar á framhaldsnámi, segir Guðríður aðspurð um hvaða hag garðyrkjumenn hafi af sameiningunni. Hún óttast ekki togstreitu milli ólíkra deilda í nýja Landbúnaðarháskólanum.
– Það er mikill vilji hjá öllum, bæði yfirmönnum og starfsfólki þessara þriggja stofnana, að láta þessa sameiningu verða til góðs fyrir alla þá fjölmörgu sem hingað sækja nám og aðra þjónustu. Sameiningin á vafalaust eftir að valda ýmsum breytingum fyrir starfsfólkið hér. Ekki hafa allir fengið á hreint hvert verður þeirra hlutverk í framtíðinni við hinn nýja skóla. Engum var sagt upp vegna þessa og sárafáir hættu við sameininguna, þá aðallega starfsmenn, sem voru komnir á tíma eða höfðu biðlaunarétt sem þeir nýttu sér, segir Guðríður og vonar að fljótlega verði ráðist í að taka ákvarðanir um framtíðarþróun skólastarfsins á Reykjum í Ölfusi þar sem Garðyrkjuskólinn hefur verið til húsa frá því hann var settur á laggirnar árið 1939.
– Húsakostur hér á Reykjum er ónýtur. Menn standa frammi fyrir því að ráðast annaðhvort í umfangsmiklar viðgerðir á húsnæði skólans eða byggja nýtt hús. Fyrir nokkrum árum var gerð úttekt á húsnæðisþörf skólans og ástandi húsanna. Ég geri mér vonir um að nú verði rykið dustað af þessari skýrslu og fljótlega verði ákveðið til hvaða ráðstafana á að grípa, segir Guðríður, en auk þess að stýra starfs- og endurmenntun innan nýrrar stofnunar gegnir hún starfi staðarhaldara á Reykjum. Sjálf lauk hún námi við skólann árið 1994 og útskrifaðist sem garðyrkjufræðingur af garðplöntubraut. Guðríður hefur um árabil sinnt félagsstörfum í þágu garðyrkjumanna og sat meðal annars í stjórn Félags garðyrkjumanna. Hún hóf störf við Garðyrkjuskólann árið 1997 sem fagdeildarstjóri garðplöntubrautar.
Fjölbreytt nám í boði
Fjölbreytt nám er í boði við Garðyrkjuskólann. Þar eru reknar sex brautir, blómaskreytingabraut, garð- og skógarplöntubraut, ylræktarbraut, umhverfisbraut, skógræktarbraut og skrúðgarðyrkjubraut og tekur hver þessara brauta þrjú ár með verknámi. Bóknámið er fjórar annir. Verknámið fer fram á verknámsstöðum sem skólinn samþykkir undir stjórn leiðbeinanda. Nemendur skrúðgarðyrkjubrautar eru á samningi hjá skrúðgarðyrkjumeisturum og lýkur námi skrúðgarðyrkjunema með sveinsprófi. Skrúðgarðyrkja er lögfest iðngrein.
Nú stunda 48 nemendur nám við skólann. Þar af eru 16 í fjarnámi en skólinn hefur frá því árið 2002 boðið fjarnám og er það orðinn eftirsóttur kostur.
– Við þurfum ekki að kvarta yfir áhugaleysi. Nám við skólann er eftirsóknarvert og við höfum þurft að vísa frá nemendum á einstökum brautum. Í skólann sækir mikið af fólki sem er annaðhvort að skipta um starfsvettvang eða að bæta við sig menntun. Meðalaldur nemenda hér er um 38 ár, segir Guðríður og bætir við að flestir nemendur skólans búi á höfuðborgarsvæðinu og komi akandi í skólann. Áður fyrr bjuggu flestir nemendur á heimavist.
Við Garðyrkjuskólann fer fram öflugt endurmenntunarstarf fyrir fagfólk og áhugafólk í „græna geiranum“. Árið 2004 voru haldin um 40 námskeið á vegum skólans með um 1000 þátttakendum.
– Hluti námskeiðanna er haldinn í samvinnu við Skógrækt ríkisins og Landgræðslu ríkisins samkvæmt sérstökum samstarfssamningi. Einnig eru haldin námskeið í samvinnu við önnur fagfélög í greininni, segir Guðríður sem er bjartsýn fyrir hönd garðyrkjumenntunar í landinu og vonar að sameining skólanna eigi eftir að efla þá menntun enn meira.