Umræða um erlent vinnuafl á Íslandi

Undanfarna daga hefur mikið verið talað um stöðu erlends fólks á Íslandi. Umræða þessi hefur að mestu leyti snúist um hvort umræðan sé af rasískum toga eða ekki. Þó eru góðar undantekningar á, því einnig hefur verið rætt um vandamálin sem snúa að íslensku samfélagi vegna þess gífurlega fjölda fólks sem komið hefur til landsins á skömmum tíma, ekki síst hvernig eigi að tryggja því fólki þau réttindi sem okkur ber að tryggja samkvæmt þeim reglum sem Íslendingar hafa undirgengist.
Verkalýðshreyfingin hefur verið með aðvaranir uppi um áhrif á vinnumarkaðinn. Þar höfum við rætt um þau vandamál sem komið hafa upp, á þeim nótum að þeir bera ábyrgðina sem stofna til framkvæmda, smárra sem stórra. Það vita allir að þegar teknar eru ákvarðanir um stærstu framkvæmdir Íslandssögunnar verður röskun á vinnumarkaðnum. Það á líka að vera ljóst að með lækkun vaxta til íbúðarkaupa og jafnframt hækkun lánshlutfalls eykst eftirspurn til muna. Þegar þessar ákvarðanir eru teknar saman getur ekkert gerst nema mikil þensla. Ríkisstjórnin brást við með því að stoppa verklegar framkvæmdir á vegum ríkisins. Stóð það stopp hátt í tvo mánuði og hafði engin áhrif. Á þessum sama tíma stækkaði hinn frjálsi vinnumarkaður um tíu ný ríki innan Evrópusambandsins. Þar með bauðst íslenskum fyrirtækjum að nýta sér vinnuafl frá þessum ríkjum, ýmist með beinni ráðningu að undangenginni atvinnuleyfisheimild eða með starfsmannaleigu. Áður höfðu fyrirtæki möguleika á að fá vinnuafl frá hinum 15 ríkjum Evrópusambandsins og hafa haft frá 1993. Ástæðan fyrir ásókn fyrirtækja í vinnuafl frá hinum nýju ríkjum þrátt fyrir töluverða skriffinnsku var að þar var hægt að fá fólk sem var tilbúið að vinna fyrir lægri laun en launafólk frá hinum 15 ríkjunum.
Því hefur ástandið á vinnumarkaðinum verið eins og ég ímynda mér villta vestrið á sínum tíma. Fjöldi „gullgrafara“ í leit að skjótfengnum gróða óð hér uppi og reyndi að nýta sér fólk sem var að reyna að ná betri afkomu en það hafði í sínu heimalandi. Við skulum horfast í augu við að þannig var tekið á móti stórum hluta þess fólks sem hingað kom í þeirri góðu trú að hér byggi siðmenntað fólk og hér væri mikla vinnu að hafa og mikið kaup. Þetta fólk þekkti ekki þau launakjör sem hér eru, það þekkti ekki þær reglur sem hér ríkja, hvorki innflytjendalög, iðnaðarlög né byggingalög og hvað þau öll heita. Því er erfitt að álasa þessu fólki fyrir það ástand sem hér hefur ríkt. Það eru móttakendurnir sem eru brotalömin í þessu máli. Fólk var fengið hingað með ýmsum gylliboðum sem sum stóðust og önnur ekki. Skylt er að geta þess að mörg fyrirtæki standa vel að sínum málum, greiða eðlileg laun og koma fram við þetta „vinnuafl“ sem fólk. Það eru alltaf skúrkarnir sem koma óorði á fjöldann.
Frá 1. maí í vor eru allar gáttir opnar og hver sem er innan allra 25 ríkja Evrópusambandsins hefur rétt á að vera hér í allt að þrjá mánuði við að leita sér að atvinnu. Stjórnvöld hafa á síðasta misseri loksins tekið við sér og hafið samstarf við verkalýðshreyfinguna um að setja lög og reglur um vinnumarkaðsaðgerðir.
Verkalýðshreyfingin hefur haft skilning á því að á þenslutímum þarf aukið vinnuafl og hefur unnið með fyrirtækjunum að liðka til við að fá hingað fólk. Hreyfingin hefur einnig verið ötul við að verja réttindi þeirra erlendu starfsmanna sem hingað hafa komið og þar með verið að hugsa um hag vinnumarkaðarins, að skekkja ekki samkeppnisstöðu fyrirtækja og verkafólks. Við þurfum að snúa bökum saman og tryggja öllum þeim sem vinna á íslenskum vinnumarkaði mannsæmandi laun og aðbúnað. Við skulum líta svo á að þetta ófremdarástand sem við höfum upplifað undanfarin fimm ár sé að baki, og gera betur í framtíðinni. Íslenskur vinnumarkaður er breyttur og nýtur ekki fjarlægðarverndar lengur. Við þurfum að venja okkur á að vinnumarkaðurinn er öll Evrópa og haga okkur samkvæmt því. Þá þurfum við að tryggja að þessi „gullgrafarastemmning“ myndist ekki aftur.

Brotthvarf Félags járniðnaðarmanna úr Samiðn

Skipulagsmál Samiðnar hafa verið mjög til skoðunar og umræðu frá síðasta þingi Samiðnar sem haldið var 2004. Kosin var sérstök nefnd sem leggja átti fram tillögur fyrir sambandsstjórn Samiðnar um framtíðarskipulag. Meginhugmynd skipulagsnefndar var að leggja til að gera Samiðn að einu félagi og auk þess að biðla til annarra iðnaðarmannasambanda og félaga um samstarf eða samruna. Eins og fram kom í síðustu tveimur Samiðnarblöðum er þetta gert með hagsmuni okkar félagsmanna í huga. Einnig kom fram í síðasta blaði að Félag járniðnaðarmanna valdi sér aðra leið en önnur félög innan Samiðnar, þ.e. að fara í viðræður við Vélstjórafélag Íslands um sameiningu. Í atkvæðagreiðslu í báðum félögunum var sameining samþykkt og hefur nú verið stofnað nýtt félag, Félag vélstjóra og málmtæknimanna. Mér er engin launung á að það er mikil eftirsjá að félögum okkar í Félagi járniðnaðarmanna úr Samiðn og ég hef ekkert legið á þeirri skoðun minni að ég tel þessa leið ekki þá réttustu til að efla kjara- og réttindabaráttu iðnaðarmanna. En að sjálfsögðu virðum við ákvarðanir sem þeir taka og breytum okkar háttum í samræmi við það. Fyrrverandi forsvarsmenn Félags járniðnaðarmanna hafa lýst yfir að þeir virði félagssvæði aðildarfélaga Samiðnar og ætla að starfa áfram með okkur að sameiginlegum málum. Samiðn vinnur að sjálfsögðu áfram að öllum þeim málum sem styrkja hag félagsmanna okkar, atvinnuuppbyggingu og réttindamálum. Við þökkum fyrrverandi félögum okkar innan Félags járniðnaðarmanna samstarfið á liðnum árum og vonumst eftir því að eiga sem best samstarf við þá í nýju félagi.

Finnbjörn A. Hermannsson,
formaður