– Við leggjum áherslu á að iðnnám verði eflt, hvort sem það er gert undir merkjum ríkisrekinna iðnskóla eða einkaskóla sem fá rekstrarfé sitt frá hinu opinberra, segir Finnbjörn Hermannsson formaður Samiðnar.
Málefni Iðnskólans í Reykjavík hafa verið talsvert í umræðunni í vetur eftir að skólastjórar hans og Fjöltækniskólans viðruðu hugmyndir um sameiningu skólanna. Hugmynd skólastjóranna er að hinn nýi skóli yrði einkarekinn, með svipuðu sniði og rekstur Fjöltækniskólans er nú.
Menntamálaráðherra hefur ákveðið að skipa þriggja manna nefnd til að skoða kosti og galla þessara hugmynda, og skipa nefndina tveir fulltrúar úr ráðuneytinu og einn fulltrúi Samtaka iðnaðarins.
– Við erum vissulega hundfúlir yfir því að fá ekki að vera með í þeirri vinnu sem ráðuneytið hefur í gangi til að skoða þetta mál. Iðnsveinar hafa frá fyrstu tíð verið virkir í því að móta iðnnám hér á landi og við eigum samkvæmt hefðinni jafnan rétt á að koma að þessu máli og Samtök iðnaðarins, segir Finnbjörn Hermannsson formaður Samiðnar, og bendir á í þessu sambandi að það hafi verið Iðnaðarmannafélag Reykjavíkur sem upphaflega kom Iðnskólanum í Reykjavík á laggirnar.
– Iðnaðarmannafélag Reykjavíkur er ekki bara félaga meistara, þar voru og eru sveinar einnig innanborðs, segir Finnbjörn sem furðar sig á vinnubrögðum ráðherrans. Sem var vel kunnugt um áhuga Samiðnar á því að koma að þessu máli.
Í ályktun sem miðstjórnar Samiðnar samþykkti nýverið um málið lýsir hún yfir undrun sinni á að þegar leitað var eftir samstarfi við atvinnulífið við undirbúning stofnunar einkarekins iðnskóla og sameiningar við Fjöltækniskólann skuli ekki hafa verið rætt við samtök launamanna. Miðstjórnin krefst þess að tryggt sé að jafnræði gildi milli aðila vinnumarkaðarins þegar ákveðið verði um framhald málsins og aðild að stjórnun skólans.
Miðstjórnin telur það algjöra forsendu þess að samstaða geti orðið um málið að það ríki jafnræði milli samtaka atvinnurekenda og samtaka iðnaðarmanna um aðkomu að þessu máli.
– Það er metnaðarmál okkar iðnaðarmanna að iðnmenntun hér á landi sé eins góð og kostur er og í samþykkt miðstjórnar Samiðnar er lögð áhersla á iðnmenntun og nauðsyn þess að efla hana. Til þess þarf öfluga iðn- eða fjölbrautarskóla, segir Finnbjörn. Hann bætir við að iðnmenntun í landinu hafi búið við fjárskort þar sem greiðslulíkan menntamálaráðuneytisins hafi ekki tekið nægilegt tillit til sérþarfa iðnnámsins.
Finnbjörn leggur áherslu á að til að iðnnám sé sem best í takt við atvinnulífið hverju sinni þurfi þríhliða samstarf skóla, samtaka launamanna og samtaka atvinnurekenda í hverjum iðngreinaflokki.