Bygging tónlistarhúss er mikil áskorun

 

Nú eru um 150 starfsmenn að störfum við að reisa nýja tónlistar- og ráðstefnuhúsið við Austurhöfnina. Annars eins hópur vinnur að hönnun en alls er gert ráð fyrir að 700–800 manns starfi við byggingu hússins þegar mest verður í upphafi árs 2009.                – Verkið hefur gengið vel,segir Sigurður Ragnarsson byggingarstjóri.
 
Þeir sem eiga leið um miðbæ Reykjavíkur komast illa hjá því að verða varir við þær miklu framkvæmdir sem nú standa yfir í Austurhöfninni í Reykjavík en þar rís nú ein metnaðarfyllsta bygging sem Íslendingar hafa efnt til lengi. Landsmenn hafa lengi gengið með þá hugmynd í maganum að reisa hér veglegt tónlista- og ráðstefnu-hús og nú er sá draumur að verða að veru-leika. Sjaldan hafa íslenskir húsagerðarmenn staðið frammi fyrir annarri eins áskorun og við byggingu þessa húss. Það á eftir að setja svip á umhverfið og kröfurnar eru miklar um útlit og alla gerð þessa húss. Það á ekki bara við um hönnunina heldur einnig um vinnubrögð þeirra sem byggja það.
– Við verðum varir við mikinn áhuga hjá starfsmönnum okkar að fá að koma hingað til starfa. Nú eru það aðallega erlendir smiðir sem annast uppsláttinn og járnabindingarmenn koma einnig erlendis frá, en ég á von á því að íslenskir iðnaðarmenn verði hærra hlutfall í verkinu þegar fram líða stundir og menn fara á fulla ferð í innanhúsverkin, segir Sigurður Ragnarsson framkvæmdastjóri Austurhafnarverkefnis hjá ÍAV sem er aðalverktakinn í Austur-höfninni. Þeir bera ekki bara ábyrgð á
byggingu tónlistarhússins heldur eru með rammasamning um aðrar byggingar á svæðinu, svo sem viðskiptamiðstöð, bíla-kjallara fyrir 1600 bíla og hótel sem þarna á að rísa. Það er fyrirtækið Portus sem
byggir og ber ábyrgð á rekstri áðurnefndra bygginga, en það fyrirtæki er í eigu Landsbankans og Nýsis.
– Við erum á eftir áætlun með bygg-inu hússins en við gerum okkur vonir um að vinna þann tíma upp síðar, segir Sigurður. Ekkert óvænt hafi þó komið upp á en menn vilji hins vegar vanda til verka. – Við höfum til dæmis verið að steypa hér veggi úr sjónsteypu sem er öðruvísi á litinn en venjulega sjónsteypan til að ná rétta koksgráa litnum sem hönnuðirnir vildu hafa á þessum veggjum, og þurftum þess vegna að steypa nokkra tilraunaveggi hér í kjallaranum til að ná réttu litablöndunni. Nú býður okkar að passa þessa veggi vel því þeir eiga að setja svip sinn á húsið þegar því verður lokið, segir Sigurður sem er ánægður með þann mannskap sem hann hefur. – Við erum um 150 manns að störfum hér á byggingarstaðnum en ég gæti trúað að í allt séu það um 300 manns sem koma að þessu verki á degi hverjum, hér og erlendis. Hönnunin fer að mestu leyti fram ytra, þótt bæði íslenskir arki-tektar og verkfræðingar komi að henni, segir Sigurður. Hann bætir við að mesti spenn-ingurinn í kringum þetta hús sé listaverk Ólafs Elíassonar sem myndar hjúp utan um sjálft húsið.
 
Flókið verk
 
– Þetta er ákaflega flókið verk sem byggist á formum sem Ólafur sækir í stuðlaberg. Suðurhlið hússins líkist stuðlabergi en hinar, glerhliðarnar, eru eins og skorið stuðlaberg. Hjúpurinn verður úr járni og gleri. Stuðlabergsform nýtir Ólafur sér í ýmsum útfærslum, og meðal annars verður þak hússins klætt járnplöt-um sem taka svip sinn af stuðlabergsforminu. Ólafur er að ljúka við að hanna þetta verk og innan skamms hefja kínverskir handverksmenn framleiðslu á einingum sem síðan verða settar saman hér, segir Sigurður sem er spenntur eins og fleiri að sjá hvernig tekst til. – Ég held að þetta eigi eftir að taka sig vel út en vissulega er   smekkur manna misjafn. 
Sigurður segist gera ráð fyrir að þegar mest verður um að vera í Austurhöfninni í byrjun árs 2009 vinni um 600 til 700 manns á svæðinu. Tónlistarhúsið á að vera tilbúið 1. desember 2009 og aðrar byggingar á árunum 2010 og 2011.
Sigurður segir að byggingarsvæðið sem er undir í Austurhöfninni sé 6 hektarar og að gert sé ráð fyrir að heildarbyggingar-magnið í fermetrum talið verði um 100 þúsund ofanjarðar og 90 þúsund neðanjarðar. Heildarkostnaður við þessar framkvæmdir er áætlaður 60 milljarðar króna en inni í þeirri tölu er einnig bygging höfuðstöðva Landsbankans sem verður syðst á svæðinu. Þar af er gert ráð fyrir að kostnaður við sjálft tónlistarhúsið nemi 14 milljörðum.
Aðspurður um hvort íslensk fyrirtæki væru nægilega stór til að taka að sér alla þætti byggingarinnar segir hann að það sé líklega ekki. –Þegar raflagnavinnan verður boðin út eigum við til dæmis von á því að fyrirtæki hér á landi sameinist um að gera tilboð. Það sama á við um aðra lagnavinnu, og líka ýmsa aðra þætti í þessu mikla verki. Við bjóðum þá vinnu út á alþjóðavettvangi, en vonum að sjálfsögðu að Íslendingar hreppi verkin, segir Sigurður, og er ekki í vafa um að bygging þessa hús eigi eftir að skila aukinni færni og þekkingu í íslenskan byggingariðnað.
– Þetta er mikil áskorun og verulega gaman að takast á við þetta hér í miðbænum. Við leggjum allt kapp á að hafa umhverfið hér  sem snyrtilegast meðan á byggingarframkvæmdunum stendur og leggjum mikið upp úr öryggismálum. Jafnframt þurfum við að sýna mikla út- sjónarsemi því athafnasvæðið sem við höfum hér til umráða er takmarkað og það er mikil áskorun að láta þetta ganga upp, segir Sigurður. Honum finnst það vera forréttindi að stýra þessu verki og hefur ekki orðið var við annað en að þjóðin sé sátt við nýja tónlistar- og ráðstefnuhúsið. – Maður verður allavega ekki var við annað hjá þeim fjölmörgu sem eiga leið hér um og stoppa til að fylgjast með gangi mála.