Samiðn f.h. aðildarfélaga og Samband íslenskra sveitarfélga undirrituðu nýjan kjarasamning 14. ágúst s.l. Samningurinn gildir frá 1. maí 2014 til 30. apríl 2015 og tekur fyrst og fremst til launabreytinga.
Bil milli launaflokka
Iðnaðarmannafélögin hafa lagt þunga áherslu á að launatöflur iðnaðarmanna hjá sveitarfélögum yrðu teknar til endurskoðunar og þær tækju í auknum mæli mið af því sem er á almennum vinnumarkaði. Samkomulag náðist um að gera breytingar á launatöflunni m.a. var bil milli launaflokka breikkað og er 1,10 en það hafði farið minnkandi m.a vegna krónutöluhækkana í síðustu kjarasamningum.
Segja má að það sé verið að taka fyrstu skrefin í þá átt með þessum samningi og fyrir liggur vilji hjá sveitarfélögunum um að taka ný skref í næsta samningi til að aðlaga launatöfluna að þessu markmiði og stefnt er að því að bilið verði 1,50 milli launaflokka.
Launabreytingar
Laun hjá iðnaðarmönnum sem eru í launaflokkum 136 til 145 hækka um 7,5% og í krónum eru mánaðarlaun fyrir dagvinnu að hækka um 21.000 til 24.000 kr. Desemberuppbót hækkar um 12.000 kr. og verður 93.000 kr. á árinu 2014. Þessi hækkun er hlutfallslega hærri en í öðrum samningum sem Samiðn hefur gert.
Frítaka í stað yfirvinnu
Samningurinn heimilar starfsmönnum að safna allt að 10 frídögum á ári vegna yfirvinnu, á þann hátt að yfirvinnutímar komi til uppsöfnunar en yfirvinnuálagið greitt út. Með sama hætti er samið um að þeir sem vinna í vaktavinnu geti valið milli greiðslu eða leyfis.
Ráðningarsamningur
Ítrekuð er meginreglan að gerður sé skriflegur ráðningarsamningur en slíkt ásamt starfslýsingu er grundvöllur starfsmats sem verið er að innleiða í auknum mæli hjá sveitarfélögunum.
Endurskoðun vinnulags og vinnuferla starfsmats
Með samningum fylgir bókun um endurskoðun vinnulags og vinnuferla starfsmats en iðnaðarmenn hjá sveitarfélögum hafa haft miklar efasemdir um ágæti þess. Markmið breytinganna er að bæta verklag, auka skilvirkni og málshraða en starfsmatið hefur ekki síst legið undir mikilli gagnrýni fyrir hægvirkt vinnulag. Tillögur skulu liggja fyir lok október á þessu ári og þegar þær liggja fyrir munu iðnaðarmannafélögin endurmeta aðkomu sína að starfsmatinu en vonandi skilar þessi vinna góðu verki. Leiði endurskoðunin af sér launahækkun gildir hún frá 1. maí 2014.
Sameiginlegur vilji til breytinga
Í bókun 7 kemur fram að aðilar eru sammála um nauðsyn þess að vinna markvisst að því að laun iðnaðarmanna hjá sveitarfélögum þróist í takt við það sem almennt gerist og mikilvægt að endurskoðun starfsmatsins endurspegli þann vilja
Samningurinn gildir í eitt ár þ.e. frá 1. maí 2014 til 30. apríl 2015 og er það sameiginlegur vilji samningsaðila að nýta þann tíma til að undirbúa nýjan samning sem skili þeim markmiðum sem fram koma í bókun 7.
Takist ekki að ná umtalsverðum árangri í þeirri endurskoðun má telja fullreynt að iðnaðarmenn eiga ekkert erindi í starfsmatið og fara verði aðrar leiðir í samningsgerðinni í framtíðinni.
Samiðn mælir með samþykkt
Samninganefnd Samiðnar er sammála um að rétt séu að láta reyna á vilja Sambands íslenskra sveitarfélaga og skapa tækifæri til endurskoðunar starfsmatsins og mælir því með að samningurinn verði samþykktur.
Samiðn leggur áherslu á að allir sé virkir og taki þátt í kosningunni en niðurstaðan verður birt á heimasíðu Samiðnar 10. september kl. 14.00.
>>> SJÁ SAMNINGINN