Við gerð síðustu kjarasamninga lagði Samiðn áherslu á að kjarasamningarnir tryggðu vaxandi kaupmátt og þeir stuðluðu að efnahagsstöðuleika. Þessi sjónarmið gengu eftir að miklu leyti og nú búum við Íslendingar við minni verðbólgu en þekkst hefur um langt skeið og kaupmáttur hefur aukist meira en við þorðum að gera ráð fyrir við undirritun kjarasamninga.
En þrátt fyrir góðan árangur í síðustu kjarasamningum er langt í land að íslenskt launafólk sé búið að endurvinna kaupmáttarhrapið frá 2008. Þrátt fyrir góðan viðsnúning og vaxandi kaupmátt er langt í land að Íslendingar séu komnir á ásættanlegan stað og þá sérstaklega í samanburði við nágrannalöndin.
Viðbrögð íslenskra iðnaðarmanna við minnkandi eftirspurn og falli kaupmáttarins eftir hrunið voru að leita eftir atvinnu í öðrum löndum og hafa langflestir farið til Noregs. Ástæðurnar fyrir mikilli ásókn íslenskra iðnaðarmanna eftir störfum í Noregi eru fyrst og fremst mun betri laun og mun meira atvinnuöryggi. Til að gera sér grein fyrir mismuninum má nota sem þumalputtareglu, að íslenskir iðnaðarmenn í Noregi séu með sambærileg útborguð laun þ.e. eftir skatta, eins og iðnaðarmenn eru með í heildarlaun fyrir skatta hér á landi.
Íslenskir byggingamenn með góða starfsreynslu eru eftirsóttir m.a. vegna góðrar menntunar og ekki síst fyrir dugnað. Þrátt fyrir að starfskjör hafi farið batnandi á Íslandi síðustu misseri er mikil tregða hjá íslenskum iðnaðarmönnum að halda heim á leið. Þeir sætta sig ekki við starfskjörin og treysta ekki efnahagsástandinu.
Það er mikilvægt í komandi kjarasamningum að stigin verði áþreifanleg skerf í þá átt að tryggja iðnaðarmönnum á Ísalandi hliðstæð kjör og þeim býðst t.d í Noregi. Við þurfum á öllum að halda sem haldið hafa í víking til Noregs, til að taka þátt í þeirri uppbyggingu sem nauðsynlegt er að ráðst í eftir langt stöðnunartímabil.
Verkefnið framundan er að tvinna saman leiðir til að leiðrétta starfskjörin og viðhalda efnahagslegum stöðugleika. Þetta tvennt getur vel farið saman og hlýtur að vera það megin markmið sem stefnt er að í komandi kjarasamningum. Verði engin áþreifanlegur árangur heldur útstreymi velmenntaðra Íslendinga áfram í stað þess að þeir skapi verðmæti á Íslandi. Slíkt er óásættanlegt og engin þjóða á að sætta sig við slíka afarksoti.