Á formannafundi ASÍ sem haldinn er í dag var lögð fram hagspá hagdeildar ASÍ í ljósi stöðunnar í efnahags- og kjaramálum og mat lagt á hið nýja kjarasamningamódel sem undirritað var í gær. Varaformaður Samiðnar Jóhann Rúnar Sigurðsson formaður Félags málmiðnaðarmanna á Akureyri (sjá mynd) sat fundinn meðal annarra, en formannafundurinn er haldinn annað hvert ár og sitja hann fulltrúar allra 50 aðildarfélaga ASÍ.
Hér má sjá ályktun um kjaramál sem samþykkt var:
„Formannafundur ASÍ lýsir yfir áhyggjum af stöðu efnahags- og kjaramála. Skortur á samstöðu, órói og átök hafa einkennt íslenskan vinnumarkað, allt frá því að þeirri launastefnu sem samið var um á almennum vinnumarkaði í árslok 2013 var hafnað. Síðan þá hefur hver hópur á vinnumarkaði farið fram og reynt að rétta sinn hlut óháð því hvaða áhrif slíkt hefði á aðra hópa eða hagkerfið. Niðurstaðan er sú að horfur eru á vaxandi verðbólgu og hækkandi vöxtum.
Fundurinn telur mikilvægt að breyta um vinnubrögð við gerð kjarasamninga og horfa til þess hvernig við getum byggt upp kaupmátt til framtíðar með raunverulegum verðmætum. Þar getum við lært margt af félögum okkar á öðrum Norðurlöndum. Þar er mikið lagt upp úr ábyrgð, aga og vönduðum undirbúningi til að tryggja sem hagfelldasta útkomu fyrir launafólk. Nýtt samningalíkan byggi á Norrænu samfélagsgerðinni sem grundvallast á þeirri sýn að nota hagvöxt og aukna verðmætasköpun til þess að bæta lífskjör og tryggja jöfnuð. Meiri verðmæti eru sótt í aukinn útflutning en forsendan er sterk samkeppnisstaða, frjáls utanríkisviðskipti og aðgangur að mörkuðum. Samstaða og sameiginlegur skilningur er á því að skipta verður auknum verðmætum með sanngjörnum hætti með áherslu á bætt lífskjör, jöfnuð og traust velferðarkerfi.
Formannafundur ASÍ telur mikilvægt þróað verði íslenskt samningalíkan þar sem horft verði til þeirra vinnubragða sem tíðkast hafa á Norðurlöndunum. Fyrsta skrefið í þá átt er að tryggja sem best jafnræði milli hópa í launaþróun á komandi misserum, þar með talið að jafna lífeyrisréttindi milli almenna og opinbera vinnumarkaðarins, tryggja meira jafnræði varðandi áhrif launaskriðs og jafna kynbundinn launamun á vinnumarkaði. Þá verða allir hópar að axla ábyrgð á breyttum vinnubrögðum. Þannig getum við í sameiningu náð hámarksárangri við að byggja upp kaupmátt og efla lífskjör til lengri tíma litið.
Formannafundurinn styður það rammasamkomulag sem undirritað var af helstu viðsemjendum á almennum og opinberum vinnumarkaði 27.10.2015 um breytt og bætt vinnubrögð við gerð kjarasamninga og telur það leggja grunn að bættum lífskjörum launafólks til framtíðar.
Jafnframt áréttar formannafundurinn mikilvægi þess að stjórnvöld taki upp ábyrga hagstjórn og breytta peningastefnu sem hafi að markmiði að treysta stöðugleika. Það er á ábyrgð stjórnmálanna að tryggja félagslegan stöðugleika og víðtæka sátt um forgangsröðun í velferðarmálum, einkum heilbrigðis-, mennta- og húsnæðismálum.“