Sæmilega hefur gengið að ganga frá kjarasamningum síðustu daga og eru þeir ýmist í atkvæðagreiðslu eða þeim lokið. Það er ánægjulegt hvað kosningaþátttaka hefur verið góða og ber að þakka fyrir það en hún hefur verið á milli 80 til 90%. Samningarnir hafa verið samþykktir með góðum meirihluta atkvæða sem er félagslega mikilvægt.
Eins og staðan er núna á eftir að gera kjarasamninga við Samband íslenskra sveitarfélaga (SÍS), Strætó bs. og svo Rio Tinto vegna Álversins í Straumsvík.
Búið er að ákveða fundi n.k. þriðjudag bæði með SÍS og Strætó og vonandi skila þeir árangri.
Samningurinn við Strætó bs. er lengra kominn og ekki ólíklegt að stutt sé í að samningar takist. Meiri óvissa ríkir um SÍS samninginn enda snertir hann mörg sveitarfélög og tekur til fjölbreyttari starfa.
Samiðn hefur lagt áherslu á að launakjör starfsmanna sveitarfélaga taki í auknum mæli mið af launum iðnaðarmanna á almennum vinnumarkaði en í dag skortir verulega á að svo sé. Það er mat Samiðnar að starfsmatið sem er við líði hjá sveitarfélögunum hafi ekki skilað iðnaðarmönnum ásættanlegum árangri og það virki eins og stofufangelsi þar sem engin geti hreyft sig nema með leyfi stóru félagana.
Æskilegt væri að ná samkomulagi um að fara út úr starfsmatinu og gera samning algjörleg ótengdan því. Slíkur samningur ætti að horfa til þess sem almenni markaðurinn greiðir fyrir sambærileg störf enda er það verðið sem sveitarfélögin verða að greiða þegar þau ráða verktaka til starfa.
Hver sem niðurstaðan verður göngum við til samninga við sveitarfélögin með bjartsýni að leiðarljósi og þess fullviss að einhvern tímann mun réttlætið vera með iðnaðarmönnunum þrátt fyrir að oft finnist manni það fjarlægt.