Góðir félagar. Ég óska ykkur öllum til hamingju með baráttudaginn okkar, – 1. maí.
Við höldum upp á 1. maí nú þegar það er nokkuð góður friður á vinnumarkaði og búið er að gera kjarasamninga fyrir flest allt launafólk, hvort sem það vinnur hjá einkafyrirtækjum eða hjá stofnunum ríkis eða sveitarfélaga.
Samningarnir voru sameiginleg tilraun aðila vinnumarkaðarins til að vinna að bættum kjörum launafólks í landinu og þeir stuðla að lágri verðbólgu og stöðugu efnahagslífi og viðunandi kaupmáttaraukningu.
Þeir draga líka úr þeim mun sem verið hefur á lífeyrisréttindum fólk eftir því hvort það fær launin sín greidd frá einkafyrirtæki eða opinberri stofnun. Að því leyti mörkuðu þessir samningar ánægjuleg tímamót.
En þótt það sé friður um kaup og kjör eru óróatímar – bæði í þjóðlífinu og í atvinnulífinu. Það eru ýmsar áskoranir sem við – launþegar og verkalýðshreyfingin – þurfum að láta okkur varða. Sumar þeirra áskorana snerta mikilvæg grundvallarréttindi okkar allra.
Góðir félagar. 1. maí er ekki kallaður baráttudagur að ástæðulausu – mörg réttindi sem við teljum sjálfsögð í dag, – veikindaréttur, sjúkrasjóðir, fæðingarorlof, verkfallsréttur, samfelld átta tíma hvíld á hverjum sólarhring – allt kostaði þetta átök og oftar en ekki verkföll. Það var barátta verkalýðshreyfingarinnar foreldra okkar, afa okkar og ömmu á fyrri hluta síðustu aldar sem færði okkur þau réttindi sem við teljum sjálfsögð í dag.
En þessi réttindi eru ekki sjálfsögð og sjálfgefin. Við fáum reglulega áminningu um það. Nýleg áminning var deilan í Straumsvík. Þetta var einhver lengsta kjaradeila hér á landi í mörg ár en allan tímann stóðu öll verkalýðsfélögin þétt saman. Við fundum að samstaða fólksins í Straumsvík vakti athygli félaga okkar erlendis sem fylgdust vel með deilunni og stóðu þétt við bakið á okkur. Niðurstaða er nú fengin í Straumsvík eftir að ríkissáttasemjari steig inn í deiluna með miðlunartillögu. Niðurstaða er fengin í málið – að svo stöddu að minnsta kosti.
En því miður eru það ekki bara stórir og erlendir auðhringir sem reyna kjarasamnings bundinn réttindi á Íslandi í dag.
Við höfum fengið að sjá og heyra ótrúlegar sögur um þau vinnubrögð sem sumir eru tilbúnir að beita, einkum gagnvart erlendu starfsfólki og ungum fólki sem er að stíga sín fyrstu skref á vinnumarkaði og þekkir ekki réttindi sín.
Verkalýðshreyfingin stendur nú fyrir átaki sem kallast Einn réttur – ekkert svindl að brotlegum fyrirtækjum sem stunda undirboð og svarta atvinnustarfsemi og kennitöluflak.
Markmiðið er að tryggja öllu launafólki umsamin kjör og réttindi og standa með þeim aðilum sem standa við kjarasamninga, virða lög og reglur og greiða skatta og skyldur eins og vera ber í sínum rekstri. Slíkir aðilar eiga skilið að búa við eðlilega samkeppnisstöðu og fá vernd fyrir undirboðum, kennitöluflakki, skattsvikum og lögbrotum óheiðarlegra keppinauta.
Hvernig á fyrirtæki sem starfar til dæmis í ferðaþjónustu á Suðurlandi. Fyrirtæki sem greiðir laun samkvæmt kjarasamningum, skilar skatti, tryggingagjöldum og greiðir í lífeyrissjóð og aðrar þær greiðslur sem krafist er að fyrirtækjum í rekstri.
Að geta keppt við þau brotafyrirtæki sem reka sína starfsemi með fólki sem ekki fær greidd laun. Starfsfólki sem haldið í einhvers konar einangrun frá íslensku samfélagi og þekkir ekki rétt sinn og þær leikreglur sem hér gilda.
Nemendur eru fengnir erlendis frá til að vinna launalausa sjálfboðavinnu og ekki er hirt um að virða samninga og lögbundin réttindi.
Fólk frá fjarlægum löndum er geymt í kjallaraholum milli þess sem því er pískað út við vinnu á saumastofum.
Það keppir enginn við svoleiðis rekstur – ef rekstur skyldi kalla. Kannski er nær að tala um það sem plantekrur – en hvað sem það heitir, þá á það ekki heima í okkar samfélagi eða atvinnulífi, hvorki hér á Suðurlandi né í öðrum landshlutum.
Lögleg fyrirtæki eiga rétt á vernd fyrir samkeppni frá svona aðilum.
Starfsfólk sem oft er blekkt til starfa hjá svona aðilum á að njóta þess réttar sem lögin tryggja þeim.
Sem betur fer bendir margt til þess að íslenskt samfélag sé að vakna til vitundar um þetta böl – þetta ófremdarástand vegna svona svikamála sem bitna bæði á saklausu og fátæku fólki og heiðarlegum og grandvörum samkeppnisaðilum sem hafa allt á þurru í sínum rekstri.
Það hafa komið upp mál sem eru til rannsóknar og bíða eftir að fá endanlega afgreiðslu eins og lög gera ráð fyrir.
Þau mál verða vonandi víti til varnaðar og draga líka athygli að þessu málum um land allt. Það er ekki vanþörf á. Við skulum gera okkur grein fyrir því að brotleg fyrirtæki eru starfandi í öllum landshlutum og í flestum starfsgreinum.
Dæmin undanfarið tengjast flest byggingariðnaði á höfuðborgarsvæðinu og ferðaþjónustu, landbúnaði og blandaðri starfsemi á landsbyggðinni.
Eins og þið sjálfsagt þekkið hafa sum þessara mála komið upp hér á Suðurlandi. Ég tel líklegt að það skýrist meðal annars af því að fólk hér á svæðinu sé vel á verði og að vinnustaðaeftirlit verkalýðsfélaganna hér sé vel skipulagt og þau standi sig í stykkinu.
Aðrir landshlutar munu áreiðanlega fylgja á eftir Sunnlendingum og Reykvíkingum við að upplýsa mál sem taka þarf á í öðrum héruðum.
Það sem við í verkalýðshreyfingunni getum gert er að stuðla að og framfylgja virku vinnustaðaeftirliti og gefa engan afslátt í okkar umhverfi á því að fyrirtæki og atvinnulíf fylgi lögum og reglum.
Hins vegar er það svo að flestar úrbætur sem gera þarf, varðandi umhverfi á vinnumarkaði og starfskjör launafólks snerta stjórnvöld en ekki verkalýðshreyfinguna.
Verkalýðshreyfingin hefur margsinnis varað stjórnvöld við því að ófremdarástand hafi skapast. Ábendingum okkar og viðvörunum hefur því miður ekki verið sinnt sem skyldi.
Eitt af því sem við höfum bent stjórnvöldum á – er að það þurfi að innleiða keðjuábyrgð að norskri fyrirmynd í íslensk lög.
Það þýðir að verkkaupi og aðalverktaki eiga að vera sameiginlega ábyrgir fyrir því að allir undirverktakar og þjónustufyrirtæki sem þeir eiga í viðskiptum við fylgi þeim lögum og reglum sem gilda á íslenskum vinnumarkaði.
Þetta er forsenda þess að eftirlitskerfið geti virkað, eins og nauðsynlegt er, og er sérstaklega áríðandi á byggingamarkaði.
Stjórnvöld hafa ekki tekið mark á þessum ítrekuðu ábendingum okkur. Að mínu mati eiga þau þess vegna talsverða sök á því ástandi sem hefur skapast.
Þrátt fyrir viðvaranir okkar hafa þau hins vegar gert marga kostnaðarsama verksamninga við aðila sem byggja starfssemi sína á innflutningi ódýrs erlends vinnuafls.
Kröfum okkar um úrbætur hefur ráðherra málaflokksins svarað með þvi að það megi ekki þrengja óþarflega mikið að þessum athafnamönnum. Það geti leitt til þess að samfélagi missi af verðmætum tækifærum. Hvlíkt viðhorf !
Það er dapurleg staðreynd að mörg hálfgerð aflandsfélög á íslenskum vinnumarkaði eru nú að vinna sum af stærstu verkefnunum á okkar byggingamarkaði.
Við höfum svo síðustu daga fengið nánari vísbendingar um að þetta aflandseyjasiðferði kennitöluflakkara er því miður líka að finna hjá nokkrum aðilum sem komist hafa til áhrifa í íslenskum stjórnmálum.
Það eru vissulega dapurlegar fréttir og enn er ekki víst hvort öll kurl eru komin til grafar í þeim efnum.
En ég hvet til þess að við tökum okkur saman um það að mikla þessar fréttir ekki fyrir okkur meira en tilefni er til
Við skulum ekki gleyma því að hvað sem öðru líður og það fari mikið fyrir kennitöluflakki, aflandseyjasiðferði, undirboðum og skattsvikum í fréttunum um þessar mundir eru þetta bara fáein skemmd epli – og þau eru ekki marktækt sýnishorn af íslensku þjóðinni.
Þau koma núna óorði á þá sterku og traustu heild sem er hryggjarstykkið í okkar góða samfélagi.
Launafólk mun ekki sætta sig við annað en að allir fylgi sömu lögum í þessu landi.
Þeir sem ganga um íslenskt samfélag og íslenskt atvinnulíf eins og íbúar á aflandseyju eiga að fá það viðmót og þau viðurlög og þær refsingar sem vera ber.
Almenningur og allur þorri fyrirtækja í íslensku atvinnulífi er löghlýðið og heiðarlegt fólk sem borgar skatta og skyldur og leggur með stolti og gleði sitt af mörkum til samfélagsins.
Til hamingju með baráttudaginn 1. maí og ég óska ykkur öllum gleðilegs sumars.