Sameinaði lífeyrissjóðurinn og Stafir lífeyrissjóður hefja formlegt sameiningarferli

Stjórnir Sameinaða lífeyrissjóðsins og Stafa lífeyrissjóðs hafa samþykkt að hefja formlegt samrunaferli með það að markmiði að bera sameiningu sjóðanna undir atkvæði á aukaársfundum í haust. Stjórnir beggja sjóða staðfestu þetta í dag í ljósi niðurstöðu könnunarviðræðna sem hófust í maí sl.
Framundan er að staðfesta tryggingafræðilegar forsendur, fara yfir eignir og eignamat og framkvæma áreiðanleikakönnun hjá báðum sjóðum. Samþætta þarf samþykktir sjóðanna og fjalla um ýmsa aðra þætti og munu upplýsingar verða aðgengilegar á heimasíðum sjóðanna þegar þessari vinnu verður lokið.
Stjórnir Sameinaða lífeyrissjóðsins og Stafa lífeyrissjóðs telja að með sameiningu verði til sterkari starfseining með aukinni sérfræðiþekkingu og enn öflugri eigna- og áhættustýringu. Sameining stuðli einnig að hagræðingu í rekstri og betri þjónustu til hagsbóta fyrir sjóðfélaga.