Mikill fjöldi erlendra starfsmanna er að störfum á íslenskum vinnumarkaði við misjafnar aðstæður, bæði hvað varðar aðbúnað og starfskjör. Þrátt fyrir að stéttarfélögin haldi úti eftirliti á vinnustöðum og reyni að sporna við félagslegum undirboðum má öllum vera ljóst að víða er verið að fara illa með erlenda starfsmenn. Á síðustu árum hefur löggjöfin verið endurbætt en verulega skortir á eftirfylgni og hegningu fyrir að svíkja starfsfólk um réttindi sem tryggð eru í kjarasamningum og lögum.
Það er skrítin staðreynd að við bregðumst við með ólíkum hætti við brotum á lögum, við dæmum fólk fyrir að stela en fyrirtæki og einstaklingar komast upp með að brjóta á fólki og hlunfara á grófan hátt. En hver er munurinn á að stela t.d. vöru úr hillum verslana sem er sannarlega eign hennar eða hlunfara starfsmanna um laun sem honum ber samkvæmt kjarasamningum? Það er engin eðlismunur á þessu tvennu. IKEA setur nálgunarbann á fólk sem verður uppvíst af þjófnaði í verslunum fyrirtækisins sem er hið eðlilegasta mál. En verktaki sem verður uppvís að því að stela launum af starfsmönnum sínum færa að halda ótrauður áfram og jafnvel gerist verktaki hjá ríki og sveitarfélögum.
Hér þarf að verða breyting á. Við þurfum að taka á vanefndum á starfskjörum launamanna eins og hverjum þjófnaði. Það er verið að beita fólk ofbeldi og stela af því, fólki sem er í veikri stöðu til að verja sig. Við sem samfélag eigum að rísa upp gegn þessum ósóma og láta þá sem stunda slíka starfssemi bera ábyrgð.