Staðan í kjaraviðræðunum

Það hefur ekki margt gerst þessa vikuna í tengslum við endurnýjun kjarasamninga. Iðnaðarmannasamfélagið hefur haldið áfram að útfæra kröfurnar og eiga samtal við samherja á vettvangi ASÍ um skatta-, lífeyris- og húsnæðismál.

Haldinn hefur verið einn fundur með fulltrúum SA um nýtt kauptaxtakerfi þar sem fulltrúar iðnaðarmanna kynntu hugmynd að nýju kauptaxtakerfi sem endurspeglaði betur raunlaun á vinnumarkaði en núverandi kauptaxtakerfi gerir.
Gert er ráð fyrir sameiginlegum fundi strax á nýju ári til að halda umræðunni áfram og á þeim fundi verði einnig rætt um styttingu vinnuvikunnar enda tengjast þessi mál.

Hugmyndir iðnaðarmanna er varða lífeyrismál voru teknar til umfjöllunar í lífeyris- og velferðarnefnd ASÍ og í samninganefnd. Ákveðið var að vinna áfram með tillögurnar og óska eftir að sérfræðingar á vegum Landsamtaka lífeyrissjóða rýni þær.

Fundur í skattanefnd ASÍ sem átti að halda 18. desember s.l. var frestað til 3. janúar.

Stóru tíðindin eru ákvörðun Eflingar og Verkalýðsfélags Akraness um að stíga út úr samfloti Starfsgreinasambandsins. Hvaða árhrif það hefur á viðræður við t.d stjórnvöld á eftir að koma í ljós en væntanlega munu aðilar vinna að því að koma sameiginlega fram gagnvart stjórnvöldum.

Ríkisstjórnin boðaði til samráðsfundar með aðilum vinnumarkaðarins s.l. miðvikudag til að fara yfir vinnulagið næstu vikurnar. Fyrir hönd iðnaðarmannasamfélagsins sat Hilmar Harðarson, formaður Samiðnar fundinn. Á fundinum gerðu fulltrúar ríkisstjórnarinnar grein fyrir hvernig vinnan gengur í starfshópi um húsnæðismál sem ríkisstjórnin skipaði og á að skila tillögum um aðgerðir í húsnæðismálum. Gert er ráð fyrir að starfshópurinn skili tillögum sínum eigi síðar en 20. janúar n.k. Fram kom á fundinum að húsnæðisnefndin geri ráð fyrir að það vanti 5000 til 8000 íbúðir til að fullnægja eftirspurninni.

Í Morgunblaðinu fimmtudaginn 20. desember s.l. gerir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra grein fyrir fundinum og segist vera fylgjandi því að hefja með vorinu uppbyggingu húsnæðis fyrir tekjulága einstaklinga. Hún segist einnig hafa gert grein fyrir því á fundinum með aðilum vinnumarkaðarins, að á næsta fundi verði rætt um fyrirhugaðar breytingar á tekjuskattskerfinu, en eins og fram hefur komið hefur ríkisstjórnin boðað skattalækkanir til handa þeim tekjulægstu og lægri millitekjuhópum.

Ekki er líklegt að fundað verði milli jóla og nýárs en viðræður verða teknar upp í fyrstu viku nýs árs. Það er skýr ásetningur iðnaðarmannasamfélagsins að ganga rösklega til verks og láta reyna á hvort hægt sé að landa nýjum kjarasamningi.

Samninganefnd Samiðnar sendir öllum sínar bestu kveðjur og vonar að sem flestir geti notið jóla og áramóta í faðmi fjölskyldna og vina.