Vikan sem er að kveðja hefur verið viðburðarrík, slitnað hefur upp úr viðræðum iðnaðarmannasamfélagsins og SA og sama gerðist hjá SGS. Formaður LÍV sagði af sér og Ragnar Þór formaður VR tók við formennsku í sambandinu. Í gær settust svo Efling, VR og önnur félög sem eru í samfloti að samningaborðinu.
Um miðnætti hófust svo sólarhringsverkföll VR og Eflingar sem beinast að hótelum og fyrirtækjum sem hafa með rekstur langferðabifreiða að gera. Einnig bar það til tíðinda að Framsýn sagði skilið við samflot SGS.
Af þessu má ljóst vera að aukin harka er að færast í yfirstandandi kjaradeilu enda viðræður búnar að standa í þrjá mánuði og þolinmæðin á þrotum.
Á mánudaginn verður fundur í samninganefnd Samiðnar þar sem ákveðin verða viðbrögð við viðræðuslitunum í samstarfi við iðnaðarmannasamfélagið. Á fundinum verður lagt mat á til hvaða aðgerða verður gripið og hvenær ef ekki verður breyting á afstöðu SA. Eitt er víst að ekki er hægt að búa við óbreytt ástand, við viljum nýjan kjarasamning fyrir okkar félagsmenn.
Mikilvægt er að SA átti sig á þeirri ábyrgð sem á þeim hvílir, undir þeim er komið hvort og hvenær kjarasamningar takast. Iðnaðarsamfélagið lagði upp með að tryggja þann góða ávinning sem við höfum náð á síðustu árum og skapa forsendur til að kaupmáttur geti aukist á næstu misserum. Einnig hefur iðnaðarmannasamfélagið lagt mikla áherslu á að það verði raunstytting vinnuvikunnar.
Um þessi markmið iðnaðarmannasamfélagsins er ekki ágreiningur við SA heldur um leiðir að þessum markmiðum. Ekki verður samið nema raunverulegur vilji sé til þess hjá SA. Ef hann er ekki til staðar stefnir SA stéttarfélögunum í verkfallsaðgerðir. Sé vilji til staðar hjá SA er hægt að ljúka samningum á stuttum tíma.