Eitt af grunnstefum íslenskrar verkalýðshreyfingar er öruggur og góður aðgangur að heilbrigðisþjónustu án tillits til efnahags fólks.
Á síðari árum hefur heilbrigðisþjónustan verið að breytast með þeim hætti að stærri og stærri hlutur þjónustunnar er á höndum einkaaðila. Í sjálfu sér skiptir ekki öllu máli hver annast þjónustuna ef aðgangurinn er tryggður og tryggt sé að allir hafi jafnan aðgang án tillits til efnahags.
Landspítalinn háskólasjúkrahús hefur mikla sérstöðu í íslensku heilbrigðiskerfi. Honum ber að veita öllum landsmönnum nauðsynlega heilbrigðisþjónustu hvernig sem ástatt er. Hann er algjörlega háður fjárveitingavaldinu á hverjum tíma, sem oft á tíðum virðist horfa framhjá þeim skyldum sem stjórnmálamenn setja spítalanum. Á hverju hausti koma skilaboð um að nú verði spítalinn að spara þrátt fyrir að síðustu fjárveitingar hafi ekki dugað til að standa undir þeirri starfsemi sem LHS er skylt að veita.
Mikil mannekla er á LSH sem hefur leitt til þess að erfiðlega hefur gengið að tryggja nauðsynlegt öryggi og þá þjónustu sem skylt er að veita. Spítalinn er ekki samkeppnishæfur um starfsfólk og þá eru viðbrögðin að skerða enn frekar starfskjör til að mæta kröfum fjárveitingavaldsins.
Allt bendir til þess að ráðstafanir af þessum toga muni leiða til þess að vandi spítalans fari vaxandi, færri vilji koma til starfa og kjarasamningar við fagfólk endi upp á skeri.
Það er ljóst að verði ekki tekið af fagmennsku á vandamálum LSH og honum gert kleift að standa undir sínu hlutverki, mun vandinn fara vaxandi með minni og lakari þjónustu og þeir efnameiri munu í auknu mæli kaupa sér heilbrigðisþjónustu af einkaaðilum.
Þjóðin þarf að rísa upp og gera þeim sem fara með fjárveitingavaldið ljóst að sú aðför að íslensku heilbrigðiskerfi sem felst í kröfunni um niðurskurð á LSH er ekki í þágu hennar. Við viljum hafa þjóðarsjúkrahús í fyrsta gæðaflokki sem tryggir öllum góða og skilvirka heilbrigðisþjónustu án tillits til efnahags.