Ályktun frá miðstjórn Samiðnar
Fundur miðstjórnar Samiðnar sem haldinn var 9. maí sl. fordæmir og lýsir yfir miklum áhyggjum á þeirri stöðu sem upp er komin hjá Garðyrkjuskólanum á Reykjum en mikilvægt er að óvissu málsins sé eytt til að tryggja framtíð garðyrkjunáms á Íslandi.
Einhliða ákvörðun eins ráðherra að flytja Garðyrkjuskólann frá Landbúnaðarháskóla Íslands (LBHÍ) yfir til Fjölbrautaskóla Suðurlands (FSU) er með öllu óskiljanleg. Heppilegra hefði verið að sú ákvörðun hefði verið tekin á Alþingi eftir umræður og samtal.
Það vekur einnig furðu að rektor LBHÍ segi upp starfsfólki og leggi niður störf fimm starfsmanna við skólann að því er virðist án samráðs við ráðuneytin tvö, MRN og HVIN. Eðlilegra væri að starfsmenn flyttust á milli þessarra tveggja ríkisreknu skóla án uppsagna og endurráðninga.
Miðstjórn Samiðnar skorar á háskólaráðherra Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur og menntamálaráðherra, Ásmund Einar Daðason sem og Alþingi, stjórnvöld og hlutaðeigandi aðila að tryggja að lögum sé fylgt og réttindi starfsmanna og nemenda tryggð. Eyðum óvissunni og tryggjum framtíð náms við Garðyrkjuskólann. Tryggjum fjármagn og aðstöðu til þess að takast á við framtíðarverkefni græna geirans.
F.h. miðstjórnar Samiðnar
Guðfinnur Þór Newman Hilmar Harðarson
Framkvæmdarstjóri Samiðnar Formaður Samiðnar