Ingólfur V. Gíslason
starfsmaður Jafnréttisráðs
skrifar
Fyrir síðustu alþingiskosningar skrifaði ég grein í þetta blað og rakti nokkuð hverju flokkar og framboð lofuðu varðandi fæðingarorlof og möguleika feðra til að taka slíkt. Flestir lofuðu lengingu orlofsins og styrkingu á möguleikum feðra. Nú hafa þrír ráðherrar kynnt væntanlegt frumvarp um málið sem að flestu leyti uppfyllir þau loforð sem gefin voru fyrir kosningar. Þar á meðal er gengið út frá þrískiptingu á orlofinu, þrír mánuðir bundnir föður, þrír móður og þrem geta foreldrar skipt að vild. En hvers vegna þessi mikla áhersla á fæðingarorlof og hvers vegna þessi áhersla á skiptingu?
Orlof foreldra eftir fæðingu barns er mikilvægt af mörgum ástæðum. Móðirin hefur þörf fyrir tíma til að ná sér líkamlega eftir meðgöngu og fæðingu og flestar konur hafa barn sitt í brjósti einhverja mánuði eftir fæðingu. Möguleikar kvenna til fæðingarorlofs eiga verulegan þátt í mjög lágri tíðni ungbarnadauða á Norðurlöndum.
Fæðingarorlof hefur einnig mikil áhrif á samfélagslega möguleika kynjanna og getur hvort heldur er aukið misréttið eða dregið úr því, opnað möguleika eða lokað þeim. Þróunin á Norðurlöndum hefur verið í átt til þrískiptingar fæðingarorlofs. Ákveðinn hluti er bundinn móður, ákveðnum hluta geta foreldrar skipt milli sín og hin síðari ár hefur ákveðinn hluti verið bundinn föður. Reynslan af orlofi sem foreldrar geta skipt milli sín er alls staðar sú hin sama. Móðirin tekur það allt eða langmest. Afleiðingar þessa fyrir jafnrétti kynja eru fyrst og fremst tvenns konar og nátengdar.
Annars vegar hefur þetta í för með sér að konur hverfa af vinnumarkaði nokkra mánuði við fæðingu barns. Það gerir þær að óöruggari vinnukrafti. Hins vegar ýtir fæðingarorlofið feðrum út á hliðarlínuna gagnvart heimili og barni. Það gerir karla að öruggari vinnukrafti. Hvort tveggja leiðir til þess að konan tengist barninu frekar en karlinn sem aftur hefur í för með sér að hún er frekar frá vinnu ef barnið er veikt, fer á foreldrafundi í leikskóla og skóla og tekur almennt séð barnið og fjölskylduna fram yfir vinnuna. Þetta er vafalaust ein meginskýring viðvarandi kynbundins launamunar. Atvinnurekendur og stjórnendur vita sem er að konur eru ótraustara vinnuafl en karlar.
Í lífskjarakönnun 1988 kom til dæmis fram að ríflega 50% kvenna sem eiga barn yngra en 12 ára taka sér frí þegar barnið veikist en vel innan við 10% karla, um 26% skiptast á. Líklegt er að þessar tölur hafi breyst síðastliðinn áratug en vafalítið eru það þó enn konur sem í mun meiri mæli eru heima hjá veikum börnum.
Og úr sömu könnun má nefna að þeir sem sögðust vilja vinna lengur en þeir þá gerðu voru spurðir um ástæðu þess að þeir gerðu það ekki. 22% kvenna sögðu það vera vegna barna, 2,4% karla nefndu þá ástæðu.
Flestum körlum mun þannig farið að þeir vilja mjög gjarnan leggja fram sinn skerf til uppbyggingar og vellíðunar fjölskyldunnar. Sé sá skerfur ekki falinn í umönnun þá getur hann þó falist í að skaffa vel. Það er hluti skýringar þess að nýbakaðir feður auka við vinnu sína og tengjast vinnunni enn traustari böndum en áður. Þetta sjáum við til dæmis á því að þegar íslenskt par eignast barn þá minnka konurnar vinnu sína utan heimilis (eftir fæðingarorlof) um sex tíma á viku en feðurnir auka hana um átta tíma.
Afleiðingar þessa eru mun lakari staða kvenna en karla á almennum vinnumarkaði, firring karla gagnvart heimili og börnum (sem á efri árum birtist í litlum tengslum við börnin og miklum söknuði) og börnin eru svipt þeirri jákvæðu reynslu að tveir ólíkir einstaklingar annist þau í svipuðum mæli. Erlendar rannsóknir hafa sýnt að reynsla barna af því að hafa virkan föður á heimilinu eykur sjálfstraust þeirra, eykur samkennd þeirra með öðrum og kemur í veg fyrir að þau hafni í gryfju staðlaðra kynímynda.
Vilji menn í alvöru taka á þessum vanda þá er eina sjáanlega lausnin sú að feður taki álíka langt fæðingarorlof og mæður. Með því móti yrðu þeir álíka óöruggt vinnuafl og konur en það myndi að verulegu leyti kippa grundvellinum undan hinum kynbundna launamun og opna raunverulega möguleika til að breyta viðhorfum. Samtímis hefði þetta í för með sér gjörbreytingu á reynslu kynjanna og þekkingu þeirra á hefðbundnum reynsluheimi hvors annars.
Árið 1993 ákváðu Norðmenn að binda einn mánuð fæðingarorlofsins við feður. Tveim árum síðar var reynsla þeirra að:
1. 78% þeirra sem höfðu rétt til töku orlofsins nýttu sér það. Tveim árum fyrir setningu laga um feðramánuð nýttu 2% norskra feðra sér einhvern hluta sameiginlegs orlofs.
2. Svo til allir feður eru ánægðir með þessa reynslu og sama gildir um maka þeirra og vini.
3. Svo til enginn karl lítur á þetta sem þvingun, 97% þeirra sem nýttu sér möguleikann sögðu mikilvæga ástæðu fyrir því vera þá að vildu sjálfir vera heima.
4. Fleiri og fleiri feður nýta sér einhvern hluta þess orlofs sem má skipta milli foreldra. Árið 1987 nýttu 3,6% feðra sér einhvern hluta sameiginlegs orlofs. Árið 1997 var hlutfall þeirra komið í 12,7%.
5. Helmingur þeirra sem nýtt hafa sér feðramánuðinn segist stefna að því að taka jafn langan tíma næst en 47% stefna að því að taka lengri tíma.
6. Þeir sem hafa nýtt sér pabbamánuðinn eru virkari við heimilisstörfin en þeir sem ekki hafa gert það.
Beri íslensk stjórnvöld gæfu til að framfylgja þeim boðskap sem þau nýlega birtu um fæðingarorlof þá getum við horft fram til þess að á næstu árum verði stigin stór skref alls staðar í samfélaginu til jöfnunar möguleika, aukins svigrúms beggja kynja og endaloka hinnar heimskulegu mismununar kynjanna.