Gerjun á Skaganum

Hermann Guðmundsson
formaður Sveinafélags málmiðnaðarmanna á Akranesi, segir ýmsar hugmyndir uppi um skipulagsmál verkalýðsfélaganna á svæðinu

Við hér á Akranesi getum verið vel sáttir við okkar hlut. Hér er næg atvinna og gott mannlíf, segir Hermann Guðmundsson formaður Sveinafélags málmiðnaðarmanna á Akranesi. Hermann segir að rúmlega 250 málmiðnaðarmenn séu í félaginu og hafi þeim fjölgað nokkuð undanfarin ár en mest fjölgunin hafi orðið við tilkomu Norðuráls á Grundartanga.
– Þótt atvinnuástandið sé gott er ljóst að dregið hefur úr vinnu hér. Samdrátturinn hefur orðið mestur hjá minni smiðjunum en ekki hefur þó enn komið til neinna uppsagna, segir Hermann en bætir við að þónokkrir erlendir málmiðnaðarmenn séu að störfum á félagssvæðinu sem er Akranes og Borgarfjarðasýsla. – Starf svona félags eins og okkar er ekki frábrugðið öðrum ámóta félögum. Virkni félagsmanna mætti vera meiri. Auk aðalfunda eru haldnir einn til tveir félagsfundir á ári og stjórnarfundir eru 12 til 14 árlega. Síðan er alltaf samfagnað hjá félaginu þegar nýsveinum eru afhent sveinsbréf.
– Félagið á orlofshús í Húsafelli og íbúð á Akureyri, og einnig höfum við í gegnum árin leigt orlofshús af bændum og framleigt til okkar félagsmanna. Í ár tókum við upp þá nýbreytni að greiða út orlofsstyrk. Þannig hafa félagsmenn getað sótt um styrk til að greiða fyrir gistingu eða leigu á sumarhúsi eða tjaldvagni, segir Hermann. Ekki hafi þó margir félagsmenn sótt um þennan valkost. – Þetta er það nýtt hjá okkur að menn þurfa tíma til að átta sig á þessum möguleika.

Skipulagsmálin

Hermann segir skipulagsmál verkalýðsfélaganna á Akranesi vera í skoðun.
– Okkur hefur borist formlegt erindi frá Verkalýðsfélaginu um að ganga til samstarfs við þá og gerast aðilar að iðnaðarmannadeildinni hjá þeim, en trésmiðirnir eru þar. Jafnframt hefur Verslunarmannafélagið hér fengið sams konar erindi. Við erum að skoða þennan möguleika og ég geri ráð fyrir að niðurstaða stjórnar liggi fyrir nú í haust. En það verða að sjálfsögðu félagsmenn sem taka endanlega ákvörðun. Hermann segist vera þeirrar skoðunar að betra sé fyrir launafólk að bindast sterkum félögum í heimabyggð en að mynda stór landsfélög.
– Ég tel landsbyggðina ekki hafa efni á því að missa félagsgjöldin og starfsemina til Reykjavíkur, það er svo mikill fólksflótti utan af landi að byggðirnar verða að halda því sem eftir er, annars lognast þetta bara útaf. Svo verður fjarlægðin í þjónustuna svo mikil að menn bara hætta að nota hana. Það eru ólíkar áherslur hjá mönnum og hætta á ferðum ef umræðan og ákvarðanir yrðu allar teknar á einum stað. Ég er þeirrar skoðunar að landsbyggðarfólk gæti borið skarðan hlut frá borði ef málum væri þannig háttað, segir Hermann. Hann leggur þó áherslu á nauðsyn þess að vinna saman á landsvísu og treysta innviði sambanda eins og Samiðnar.
Hermann er ekki ánægður með stöðu verkalýðshreyfingarinnar í landinu.
– Mér sýnist hún því miður vera að éta sig upp innan frá. Ég er satt að segja hryggur yfir ástandinu. Menn verða ef þeir ætla að láta taka sig alvarlega að ná saman og setja niður þær deilur sem sett hafa svip á starf hreyfingarinnar. Það er margt mjög gott sem kemur frá ASÍ en menn hafa ekki haft burði til að fylgja þeim málum eftir, segir Hermann og líst vel á ýmsar hugmyndir ASÍ í efnahagsmálum.
– Ég vona að verkalýðshreyfingin beri gæfu til að koma sínum skipulagsmálum þannig fyrir að allir geti verið sáttir og hafist geti ný sókn við að bæta hlut launafólks hér á landi. Brýnt er til dæmis að mínu mati að stytta vinnutímann sem er óhóflega langur. Hvenær getum við farið að lifa af dagvinnulaununum? spyr Hermann Guðmundsson formaður Sveinafélags málmiðnaðarmanna á Akranesi og miðstjórnarmaður í Samiðn.

Jón Pétur með mörg járn í eldinum

Það fer nú senn að koma tími á mig. Ég hef starfað hér frá því árið 1958. Á þessum tíma hafa til að mynda þrjár kynslóðir stjórnenda unnið við þessa smiðju, segir Jón Pétur Pétursson vélvirki og starfsmaður hjá Þorgeiri og Ellert á Akranesi.
– Maður er í ýmsum verkum. Nú er ég að smíða lúkarlúgu á Geirfugl sem er verið að taka í gegn hér. Annars hef ég lengstum unnið við að beygja bönd og byrðinga.
– Þetta er eins og svart og hvítt, segir Jón Pétur þegar hann er spurður um hvort ekki hafi orðið miklar breytingar á starfi járnsmiða á þessum árum. – Tæknin hefur hjálpað til við að draga úr hinu líkamlega erfiði þessa starfs. Hinar öflugu sagir og klippur leysa eldinn af hólmi. Nú þarf heldur ekki að hita járnið til að beygja það í eins ríkum mæli og áður, segir Jón Pétur sem ekki vill þó gera lítið úr því líkamlega erfiði sem enn viðgengst meðal málmiðnaðarmanna.

– Ég skil satt að segja vel að ungir menn vilji ekki láta hafa sig í þetta. Auk þess sem launin eru til skammar – sem sést best á því að hér verður að manna fjöldann allan af stöðum með útlendingum. Það fæst enginn Íslendingur í vinnu upp á þessi býti. Þau fyrirtæki sem þurfa að treysta á erlent vinnuafl eru illa rekin fyrirtæki, segir Jón en tekur fram að honum sé ekki illa við þá útlendinga sem starfa hjá fyrirtækinu.
– Þetta eru prýðismenn og ekkert út á þeirra vinnubrögð að setja. Auðvitað verður mórallinn annar þegar menn geta ekki talað saman vegna tungumálsins. Vinnustaðamórallinn skiptir miklu og því er nauðsynlegt að stjórnendur hugi að því þegar þeir ákveða að borga illa.
Eins og öðrum gömlum skipasmiðum svíður Jóni að ekki skuli lengur vera stundaðar alvöru-skipasmíðar á Íslandi.
– Þessi viðhaldsvinna er ekki eins gefandi, það eru meira en tíu ár síðan hér var smíðað alvöru skip.
Þau eru mörg skipin sem Jón Pétur hefur tekið þátt í að smíða. Þegar hann hóf störf voru eingöngu smíðuð tréskip á Skaganum en síðan eru þau einnig ófá stálskipin sem þar hefur verið hleypt af stokkunum.

Kvíði því ekki að hætta

– Maður veit ekkert hvernig líf það er að vinna ekki. Ég kvíði því ekkert að hætta störfum. Ég á mér mörg áhugamál. Mér á örugglega ekki eftir að leiðast, segir Jón Pétur.
– Í sumar hef ég gengið 34 sinnum Háhnjúk. Það er einn af hnjúkum Akrafjallsins, 555 metra yfir sjávarmáli. Auk þess hef ég gengið á Geirmundartind nokkrum sinnum. Á báðum þessum stöðum hef ég komið fyrir málmhólki sem hefur að geyma gestabók, segir hinn stolti vélvirki sem einnig reynist vera fjallgöngumaður í fínu formi.
– Ég hef í gegnum árin haft gaman af að fást við myndlist, bæði skúlptúrgerð og að mála. Þetta er svo sem ekki stórt en ég hef gaman af þessu.
Glöggir ferðamenn geta barið augum listaverk eftir hann á tveimur stöðum á Skaganum. Annað heitir Grásleppukarlarnir og er skúlptúr reistur til minningar um grásleppukarla sem reru frá Akranesi. Hitt er hluti af myndskreytingu á vegg Sementsverksmiðjunnar.

Á hlut í trillu

– Nú, svo á ég hlut í trillu. Ég fer nú ekki mikið en við bræðurnir höfum krókaleyfi. Mér eins svo mörgum fleiri finnst nú þetta kvótakerfi meira en lítið skrýtið. Einu orðin yfir þetta er hróplegt óréttlæti. Kvótann á auðvitað að binda við byggðarlög og þaðan má hann ekki fara. Ég er alfarið á móti því að hann sé framseljanlegur.
– Það er sorglegt að horfa á eftir kvóta sem til hefur orðið til dæmis hér á Skaganum. Þetta kippir stoðunum undan atvinnu á þeim stöðum sem verða fyrir slíku, segir Jón Pétur og er orðið heitt í hamsi út af þessu kvótatali.
Jón ann Akranesi og því mannlífi sem þar þrífst.
– Ég er fæddur Skagamaður og hef alla tíð verið sáttur hér. Hér er margt um góðan manninn og þótt margir sem ég starfað með séu gengnir kemur maður í manns stað. Ég er mikill knattspyrnuáhugamaður, fylgist ekki bara með meistaraflokknum heldur einnig með leikjum yngri flokkanna og hef gert lengi þótt það sé auðvitað skemmtilegast að horfa á stóru strákana spila, segir hann og kvartar ekki yfir gengi þeirra pilta þetta sumarið.
Jón Pétur lætur ekki staðar numið þar í íþróttum heldur syndir 500 metra oft í viku.
– Ef maður ætlar að lifa lífinu lifandi þá er um að gera að hugsa um kroppinn. Þar að auki er bara gaman að fara í laugina og hitta fólk, segir þessi fjallhressi Skagamaður sem vill sjá hærra kaup og styttri vinnutíma til handa sér og sínum samstarfsmönnum.

Rauðir og bláir teknir tali

Við Bakkatún á Skaganum hafa menn stundað smíðar í áratugi, ýmist úr tré eða málmum – og nú eru þar tvö öflug málmiðnaðarfyrirtæki

Svo lengi sem flestir Skagamenn muna hefur verið stunduð skipasmíði úti á Bakkatúni. Þar hafa lengst af ráðið ríkjum Þorgeir og Ellert sem flestir þekkja sem gamalt og gróið fyrirtæki á Akranesi. Nú hefur Skaginn – stálsmiðja haslað sér völl þarna líka en það fyrirtæki er í stórum hluta í eigu Þorgeirs og Ellerts.
Eins og aðrir staðir þar sem stundaðar hafa verið skipasmíðar má Bakkatúnið muna sinn fífil fegri.
Vafalaust hefur verið meira umleikis við Bakkatún fyrir 20–30 árum, hvað þá þegar hér voru smíðuð tréskip fyrstu árin. Þá hefur verið margt um manninn við Bakkatún, en enn eru verkfærin þó á lofti.
– Ég er búinn að vera hér í tvö ár. Hér er brjálað að gera núna. Við erum að smíða línu til að vinna uppsjávarfisk fyrir Skinney-Þinganes sem er sjávarútvegsfyrirtæki á Höfn í Hornafirði, segir Guðmundur Rúnar hjá Skaganum þegar tíðindamaður blaðsins hitti hann við verk sín í smíðasalnum. –Við erum að leggja lokahönd á þetta núna. Vinnutíminn er frá hálf-átta til korter í sjö, nokkuð langur vinnudagur það, en svona er þetta. Einnig er unnið á laugardögum.
– Það er gott að vera hér á Akranesi. Maður hjólar til að mynda létt í vinnuna, segir Guðmundur Rúnar.
Smíðasalurinn er stór og bjartur en ekki margir menn að störfum. Einn stendur úti í horni og er að logsjóða. Aðrir tveir við sömu iðju ekki langt frá. Þrír starfsmenn standa í öðru horni og bera saman bækur sínar.
Guðmundur, Ágúst og Sigurður eru allir gamalreyndir starfsmenn Skagans. Þeir eru sáttir við verkefnastöðuna og eru greinilega búnir að taka vinnutímann í sátt. – Maður verður að vinna svona til að hafa í sig og á, segir Sigurður og hinir taka undir.
Þeir segja að það sé skortur á mannskap og bæta við að þó nokkrir útlendingar starfi hjá Skaganum, meðal annars menn frá Englandi, Póllandi og Hondúras.
– Ætli við séum ekki svona fjörutíu sem störfum hér. Launin þarf að bæta – það eru þau skilaboð sem mig langar að senda forystunni. Segir Ágúst þegar þeir eru spurðir um starfsmannafjöldann og hvernig þeim finnist verkalýðsforystan standa sig.
Að sjálfsögðu voru þessir rauðklæddu menn allir sáttir við piltana sem leika knattspyrnu fyrir hönd bæjarins.
– Við erum stoltir af þeim og höfum alltaf verið, segir Guðmundur.
Skaginn hf. er fyrirtæki sem varð til með sameiningu stáldeildar Þorgeirs & Ellerts og IÁ-smiðju. Bæði þessi fyrirtæki smíðuðu áður ryðfrían vinnslubúnað fyrir sjávarútveginn.

Keyra frá Þorlákshöfn

Fyrirtækið er til húsa þar sem áður var vélsmiðja Þorgeirs og Ellerts. Steinsnar frá því húsi er stórt smiðjuhús þar sem greinilegt er að skip voru smíðuð inni hér áður fyrr.
Þarna var ekki margt um manninn en þó mátti sjá tvo við að hreinsa hör. Greinilega ekki járnkarlar þar á ferð.
Nokkuð dimm húsakynni, og kraftmiklar vélar stóðu þar víðs vegar. Sæmileg umgengni greinilega, en smiðjur eru smiðjur og og skulu umgangast þannig. Innarlega í húsinu eru þrír bláklæddir.
Sá sem bar merki fyrirtækisins vildi ekki spjalla en hinir tveir komu frá Þorlákshöfn og voru til í segja frá ferðum sínum.
– Við keyrum þetta á hverjum degi. Það má segja að við eltum okkar báta hvert sem þeir fara í slipp, segir Þráinn Jónsson sem ásamt félaga sínum Markúsi Haraldssyni eru starfsmenn Þormóðs ramma í Þorlákshöfn og voru að vinna við Fróða ÁR sem er í slipp hjá Þorgeiri og Ellert.
– Við erum fimmtíu mínútur á leiðinni. Hér vinnum við átta tíma, förum svo heim aftur og erum komnir um hálf-sjö, segir Markús.
Þeir voru greinilega ekkert ósáttir við þessa tilhögun. Andrúmsloftið í smiðjunni var heldur rólegt enda flestir annars staðar að vinna. Fyrirtækið Þorgeir og Ellert er með þjónustusamninga við nokkur fyrirtæki og má þar nefna Norðurál, Íslenska járnblendifélagið og Sementsverksmiðjuna. Auk þess býður fyrirtækið í tilfallandi verk og voru nokkur slík í gangi um þessar mundir, svo sem viðgerðin á Fróða og einnig var verið að breyta Geirfugli GK úr hefðbundu loðnuskipi í línuveiðara.
Alls starfa um þessar mundir 55 manns hjá fyrirtækinu og ekki annað að skilja á forvígismönnum þess en að bjart sé framundan á hinu gamalgróna athafnasvæði á Bakkatúni.