Marel vex og dafnar

Hátæknifyrirtækið sem varð til í Háskóla Íslands er nú orðið eitt af öflugustu fyrirtækjum landsins með 280 starfsmenn hér á landi en alls starfa um 800 hjá samsteypunni

– Hér er afskaplega gott að starfa. Það má segja að starfsmenn hér séu eins og ein stór fjölskylda. Hér vinna menn í sellum og ekki hægt að segja annað en að við kunnum því vel, segir Guðmundur Smári Guðmundsson aðaltrúnaðarmaður hjá Marel þegar tíðindamaður blaðsins heimsótti nýlega þetta framsækna fyrirtæki.

Eitt af þeim fyrirtækjum sem hafa vaxið og dafnað hvað best á Íslandi undanfarin ár er Marel. Fyrirtækið á ekki langa sögu að baki, varð upphaflega til fyrir tilstuðlan starfsmanna Háskóla Íslands sem búið höfðu til rafeindavog sem nýta mátti í frystihúsum. Það voru svo Sambandsfrystihúsin sem riðu á vaðið og nýttu sér þjónustu fyrirtækisins og hófst þá framleiðsla á þessum vogum fyrir almennan markað. Þannig leiddi þetta hvað af öðru. Nú hefur fyrirtækið skipað sér í fremstu röð í heiminum í þróun og framleiðslu hátæknivinnslubúnaðar fyrir matvælaiðnað. Marel-samsteypan samanstendur af tíu fyrirtækjum með starfsstöð víðsvegar um heiminn. Í allt starfa hjá samsteypunni um 800 manns, þar af 280 hér á landi. Nú framleiðir fyrirtækið hugbúnað, eftirlitsbúnað, tölvustýrar skurðarvélar og flokkunareiningar sem henta í öllum helstu greinum matvælaiðnaðarins.

„Ég er búinn að vinna hér í tvö ár og hef frá upphafi tilheyrt sellu þrjú – en sú sella hefur mest unnið við smíðar á stórum kerfum fyrir fyrirtæki í kjúklingaiðnaði og laxeldi,“ segir Guðmundur Smári Guðmundsson sem er aðaltrúnaðarmaður starfsmanna Marels.

Hann segist kunna vel við sellu-fyrirkomulagið. Í hverri sellu eru 12 til 15 starfsmenn sem hafa afmarkað svæði og er ábyrgð hverrar sellu mikil.

„Við fáum pöntun og síðan er það á okkar ábyrgð að útvega efni til smíðarinnar og afgreiða hverja pöntun á réttum tíma,“ segir Guðmundur. Aðspurður segir hann að vinnutíminn sé frá hálf-átta til fimm og stefnt sé að því að láta það duga, og hann bætir við að lítið sé um yfirvinnu þótt það komi fyrir.

„Fyrirtækið hefur mótað sér ákveðna starfsmannastefnu í samvinnu við starfsfólkið og er óhætt að segja að sú stefna virki vel. Megininntak hennar er að starfsmönnum líði vel á vinnustaðnum og að samgangur milli deilda sé tryggður, og einnig að starfsmenn hafi gott aðgengi að stjórnendum fyrirtækisins. Hér í þessu nýja húsi hefur verið lögð áhersla á að skapa starfsmönnum góða vinnuaðstöðu og einnig er hér íþróttasalur og gott mötuneyti. Auk þess hefur hver sella sitt afdrep til að laga kaffi og hittast þegar þess gerist þörf,“ segir Guðmundur sem vonar að hið nýja húsnæði eigi eftir að auka enn á samheldni starfsmanna.

Öryggistrúnaðarmaður

„Við erum að vinna í því að koma öryggismálunum hér í húsinu í lag. Eins og gengur þegar flutt er í nýtt húsnæði tekur það tíma að koma upp öllum þeim öryggisbúnaði sem þarf,“ segir Ágúst Björgvinsson, annar tveggja öryggistrúnaðarmanna hjá Marel.

„Við byggingu þessa húss hefur verið kappkostað að hafa öll öryggismálin í sem bestum farvegi. Einnig hefur verið reynt að hafa vinnuumhverfið allt sem mest aðlaðandi. Þannig hefur verið lagt mikið upp úr að draga hér úr hávaða og einnig allri rafmengun af völdum tækja og lýsingar,“ segir Ágúst og bætir við að almennt séu starfsmenn ánægðir með vinnuaðstöðuna.

Hann segir að helstu vinnuslysin hjá Marel séu að menn skeri sig eða klemmist.

Rennismiðurinn

„Hér á þessari deild er unnið á tveimur vöktum í níu tíma í senn. Hér erum við að renna ýmsa hluti, aðallega úr plastefnum. Rennibekkir okkar eru allir tölvustýrir og má kannski segja að þetta líkist meira skrifstofustarfi en rennismíði eins og maður lærði hana hér um árið,“ segir Hafsteinn Baldursson rennismiður sem hefur starfað í tæp fjögur ár hjá Marel. Hann segist kunna vel við sig hjá fyrirtækinu og telur alla starfsaðstöðu til fyrirmyndar.

„Hér er einstaklega góður starfsandi og samstaða meðal starfsmanna mikil,“ segir hann

Hafsteinn segir að mikið sé lagt upp úr að starfsmenn njóti stöðugrar endurmenntunar og að fyrirtækið gefi mönnum kost á að ná tökum á nýrri tækni.

„Það er hins vegar áhyggju-efni hvað fátt ungt fólk leitar í þessi störf,“ segir Hafsteinn sem hefur stundað rennismíði í rúmlega þrjátíu ár.

Nýjar höfuðstöðvar Marels

Marel tók nýjar höfuðstöðvar sínar á Austurhrauni 9 í Garðabæ í notkun í byrjun júlí, en formleg opnun verður í byrjun september. Nýja byggingin er rúmir 15 þúsund fermetrar að stærð og gerbreytir allri aðstöðu fyrirtækisins. Áður var Marel með starfsemi í tveimur húsum; að Höfðabakka og Tunguhálsi, og setti það starfseminni talsverðar skorður. Rými Marels eykst um helming við flutninginn; skrifstofurými verður um 4 þúsund fermetrar og framleiðslurými um 10 þúsund fermetrar auk rýmis fyrir kerfi hússins, starfsmannaaðstöðu og mötuneyti , sem er um 1.600 fermetrar. Auk þess eru stækkunarmöguleikar fyrir hendi, hjá framleiðslu um ríflega 2.000 fermetra og skrifstofu um 1.500 fermetra.

Nýbygging Marels er hönnuð með það í huga að allt flæði efnis og upplýsinga verði sem best. Framleiðslu- og skrifstofubygging er samþætt þannig að vegalengdir milli eininga verði sem minnstar. Efni til framleiðslu kemur í megindráttum inn á annarri hlið hússins og er síðan skipað út sem fullunninni vöru á hinni hliðinni beint í útflutningsgáma.