Portúgalskir blikksmiðir á smánarlaunum

Stjörnublikk skekkir alla samkeppni, segja forsvarsmenn annarra blikksmiðja

Frá því í haust hefur hópur portúgalskra blikksmiða starfað hér á landi á vegum fyrirtækisins Stjörnublikks hf. Þeir hafa verið hér með hléum en voru á annan tug þegar flest var. Launataxtar þeirra eru langt undir markaðslaunum á Íslandi og vera þeirra hefur ekki verið tilkynnt viðeigandi stjórnvöldum eins og skylt er.
– Þetta skekkir verulega samkeppnisstöðuna og forsvarsmenn annarra blikksmiðja telja að þeir hafi misst verk til Stjörnublikks vegna niðurboða. Meðal þeirra ríkir megn óánægja, segir Hilmar Harðarson, formaður Bíliðnafélagsins/Félags blikksmiða.
Portúgalarnir hafa unnið við nokkur verk á vegum Stjörnublikks, meðal annars hjá Orkuveitu Reykjavíkur, Flugstöð Leifs Eiríkssonar og Íslenskri erfðagreiningu.
Stjörnublikk og portúgalska útleigufyrirtækið Epalmo Monmor hafa gert með sér launasamning til fjögurra mánaða. Samkvæmt honum eru flugfargjöld mannanna greidd og þeir fá tæplega 42 þúsund krónur á mánuði fyrir 40 daga vinnuviku. Greiðsla fyrir yfirvinnu er mun lægri en tíðkast á Íslandi eða 774 krónur á tímann frá mánudegi til laugardags en 963 krónur á sunnudögum og almennum frídögum. Þessu til viðbótar virðast þeir fá tæplega 97 þúsund krónur í dapeninga á mánuði. Það er þó óljóst því eina heimildin um það er ljósrit af launaseðli.
– Dagpeningar eru ekki laun heldur greiðsla fyrir uppihald. Og jafnvel að þeim viðbættum er þetta langt undir meðallaunum. Ennfremur hefur ekki verið skilað inn staðfestingu á að þessir menn hafi iðnréttindi en það er skylt samkvæmt iðnlögum, segir Hilmar Harðarson.

Sömu reglur

– Það er að sjálfsögðu heimilt að fá erlenda starfsmenn til landsins en um þá gilda í einu og öllu sömu reglur og um aðra launamenn og það er mikilvægt að koma reglu á þessi mál því búast má við að starfsmönnum erlendra fyrirtækja fjölgi mjög hér á landi í framtíðinni, segir Hilmar.
Portúgalarnir hafa ekki verið skráðir inn í landið og af launum þeirra hafa hvorki verið greidd lífeyrissjóðsiðgjöld né önnur iðgjöld samkvæmt kjarasamningum, og skattur hefur ekki verið dreginn af launum þeirra, eins og skylt er lögum samkvæmt. Einnig eiga útlendingar sem vinna hér á landi lengur en þrjá mánuði að fá kennitölu en það hefur ekki verið uppfyllt. Raunar er ekki ljóst hve lengi mennirnir eru í landinu í einu. Íslenska fyrirtækið sendir launagreiðslurnar til Portúgals og óljóst er með hvaða hætti iðnaðarmennirnir fá laun sín.
Vinnumálastofnun var látin vita af veru Portúgalanna hér á landi í desember á síðasta ári og að portúgalska útleigufyrirtækið hefði látið undir höfuð leggjast að sinna skráningar- og tilkynningaskyldu til Tryggingastofnunar ríkisins, útlendingaeftirlitsins vegna útgáfu dvalarleyfis þeirra sem hér dvöldust lengur en þrjá mánuði og til skattstofa vegna skatts af launum sem iðnaðarmennirnir vinna sér inn. Að mati Samiðnar fer það ekki milli mála að að starfsmenn erlendra fyrirtækja sem vinna tímabundið hér á landi eiga að fá greidd laun í samræmi við íslensk markaðslaun og njóta annarra umsaminna starfsskilyrða launafólks.
Tveir fulltrúar frá portúgalska útleigufyrirtækinu komu hingað til lands í vetur og áttu fund með fulltrúum Vinnumálastofnunar.
– En þeir virðast hafa kosið að misskilja allt sem þar fór fram. Þeir áttu einnig fund með lögfræðingi hjá ríkisskattstjóra og hið sama gerðist eftir hann, þeir töldu að engan skatt þyrfti að greiða af launum þessara manna. En það er þveröfugt við það sem þeim var sagt á fundinum, segir Ingvar Sverrisson, lögfræðingur hjá Vinnumálastofnun.

Hunsa skráningu

Forsvarsmönnum Stjörnublikks hefur ítrekað verið bent á að láta skrá þessa starfsmenn en ekkert hefur gerst og þegar þetta er skrifað höfðu Vinnumálastofnun ekki borist svör frá Tryggingastofnun, Útlendingaeftirliti né skattinum. Eftirlitsnefnd um framkvæmd laga um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks á EES-svæðinu, sem er skipuð lögfræðingum Alþýðusambandsins, félagsmálaráðuneytisins og Samtaka atvinnulífsins, hefur fjallað um þetta mál en henni hafa ekki borist önnur gögn frá fyrirtækjunum en launasamningur og ljósrit af launaseðli.