Misjafnt hafast mennirnir að
Um nokkurra ára skeið hefur atvinnuástand verið þannig að við höfum þurft að sækja vinnuafl út fyrir landsteinana. Þessir starfsmenn hafa komið bæði frá löndum innan evrópska efnahagssvæðisins og utan. Leikreglur eru með þeim hætti að þegar um er að tefla starfsmenn utan evrópska efnahagssvæðisins og þeir eru „fluttir“ löglega inn í landið þarf að leita umsagnar stéttarfélags, annars vegar um atvinnuástand í viðkomandi grein og atvinnusvæði og hins vegar um að þeir séu með tilskilin réttindi í iðngreininni, sé um iðnaðarmenn að ræða. Félögin leitast einnig við að tryggja að þessir starfsmenn fái greidd markaðslaun sem í gangi eru á vinnumarkaðnum hverju sinni. Mörg dæmi eru til um svindl á þessum starfsmönnum. Leita hefur þurft liðsinnis dómstóla í mörgum tilfellum eins og greint hefur verið frá í Samiðnarblaðinu. Því miður er ekkert eftirlit af hálfu hins opinbera með því hvernig farið er með þennan mannskap, en sérstaklega þarf að gæta að þeim vegna tungumálaörðugleika og hins að aðstæður heima fyrir virðast ekki vera beysnari en svo að þeir láta bjóða sér nánast hvað sem er.
Starfsmenn teknir „á leigu“
Ný birtingarmynd hefur komið fram í máli erlendra starfsmanna, og á við starfsmenn innan evrópska efnahagssvæðisins. Íslensk fyrirtæki taka „á leigu“ starfsmenn frá útleigufyrirtæki vinnuafls. Þetta hefur verið tíðkað nú í nokkurn tíma. Hafa starfsmenn þessir ekki sinnt neinni tilkynningaskyldu um að gefa upp dvalarstað, ekki sýnt fram á að þeir hafi tilskilin réttindi til að vinna iðnaðarmannastörf sem þeir hafa sinnt og almennt ekki staðið skil á sköttum og skyldum á Íslandi. Reglum frá 1982 um starfsmannabústaði og starfsmannabúðir er ekki framfylgt gagnvart þessum mönnum. Stjórnvöld hafa verið algerlega sofandi í þessu máli. Það eru um tvö ár síðan Samiðn vakti fyrst athygli á þessu. Nú fyrst er embættismannakerfið að taka við sér og þá með þeim hætti að þeir eru að uppgötva að engar reglur eru til um það hvernig á að skattleggja þessa menn eða hvar á að tryggja þá. Ekki er ljóst hvort þeir eiga að greiða í íslenska lífeyrissjóði, í sjúkrasjóð, hvar þeir borga stéttarfélagsgjöld og svo framvegis. Þetta eru aðstæður sem flestir töldu að við þyrftum ekki að taka á vegna fjarlægðar okkar við Evrópumarkaðinn.
Það verður fróðlegt að fylgjast með hvernig þeir starfsmenn sem hafa verið að vinna hér á vegum fyrirtækis í blikksmíði verða skattlagðir. Þar er um ríflega 40 ársstörf að ræða.
Á sama tíma eru íslenskir iðnaðarmenn í vinnu í Noregi að óska eftir liðsinni stéttarfélaganna hér heima því þeir þurfa að koma með námsskrár þær sem kennt var eftir þegar þeir voru í skóla þýddar á norsku. Norskir embættismenn samþykkja ekkert annað en alla skólapappíra á norsku til að bera saman við sínar námsskrár og finna út hvort námið er sambærilegt. Þá fyrst geta þeir lagt mat á hvort íslenskir iðnaðarmenn geta starfað sem slíkir í Noregi.
Til eru dæmi um að gefin hafi verið út íslensk sveinsbréf til handa erlendum starfsmönnum sem ekki hafa haft nema smábrot af því námi sem krafist er af Íslendingum við sveinspróf.
Hér er augljóst að stjórnvöld þurfa að fara að vanda sig.
Öryggiskröfur þarf að uppfylla
Það er ekki verið að leggja stein í götu þessara gesta okkar með því að gera sömu kröfur til þeirra og íslenskra starfsmanna. Lágmarkskrafan er að þeir sem starfa hér á landi sitji við sama borð hvað varðar að leggja til þjóðfélagsins í formi skatta og skyldna. Einnig er sjálfsagt að sömu kunnáttu sé krafist þegar um iðnaðarmannastörf er að ræða. Það verður að fara eftir byggingarreglugerðum, fylgja ýmsum stöðlum og ekki síst uppfylla allar öryggiskröfur hver sem vinnur verkið. Það er of seint að athuga þetta þegar skaðinn er skeður. Gera verður kröfur til þeirra fyrirtækja sem ráða til sín erlent vinnuafl að tilkynna það til stjórnvalda. Stjórnvöld verða einnig að átta sig á sínum skyldum gagnvart vinnumarkaðnum. Það er ekki nóg að skrifa undir hvern bindandi sáttmálann í Brussel eftir annan og ætla sér svo ekki að fara eftir honum, eða láta það koma sér alveg á óvart þegar málin eru komin í óefni og aðhafast ekkert. Það liggur fyrir að það má ekki mismuna erlendum starfsmönnum gagnvart íslenskum. Við gröfum undan tiltrú íslensks launafólks á evrópska samvinnu með því að mismuna íslenskum starfsmönnum gagnvart erlendum. Nema við hættum að láta alla greiða skatta og skyldur til þjóðfélagsins, fellum úr gildi alla lágmarkstaxta og sleppum öllum gæða- og öryggiskröfum hver sem í hlut á. Þá rætist loks hin fornkveðna ósk, að Ísland verði Singapúr norðursins.
Finnbjörn