Vankunnátta um skaðlegt efni

Isocyanat

Vandamálin sem fylgja efnum af svokölluðum ísósýanat-flokki aukast samtímis því að nýjar tegundir koma í ljós. Sérfræðingar og stéttarfélög eru sammála um að alltof margir viti alltof lítið um ísósýanat og áhrif þess á heilsu fólks.

Ísósýanat er samheiti efna sem notuð eru við framleiðslu svokallaðs pólýúretanplasts og er þau að finna í efnum eins og málningu, svampi, lakki og lími. Efnin eru því algeng í mörgum atvinnugreinum, þar á meðal á bílaverkstæðum og bílaverksmiðjum, við lökkun ýmiss konar og í plast- og byggingariðnaði. Þessi tegund plasts er til að mynda notuð í húsgögn, bílainnréttingar og rafmagnsvörur. Við framleiðsluna er plastið hitað upp og þá framkallast ísósýanat. Starfsmenn eru í beinni snertingu við efnin og geta andað þeim að sér með þeim afleiðingum að húð og öndunarfæri skaðast.

Fá tilfelli tilkynnt

Þótt sífellt fleiri veki athygli á hættunni í sambandi við ísósýanat-efnin er fjöldi tilkynntra atvinnusjúkdóma af völdum þess enn lítill. Á árunum 1992–98 var aðeins tilkynnt um 213 slík tilfelli í Svíþjóð. Sérfræðingar telja trúlega ástæðu þá að fólk þekki ekki til efnanna og þeirrar hættu sem þeim fylgir. Sænska vinnuverndarstofnunin (Arbetsmiljöverket) er á sömu skoðun. „Það hvað fá tilfelli eru tilkynnt um atvinnusjúkdóma af völdum ísósýanat-efna stafar af ófullkomnum aðferðum við að mæla efnin og af skorti á þekkingu á áhrifum þeirra,“ segir í upplýsingablaði stofnunarinnar. „Einmitt af þessum ástæðum eru efnin ekki nefnd sem hugsanleg ástæða óþæginda,” stendur í upplýsingablaðinu. Vitnað er meðal annars í yfirlækni háskólasjúkrahússins í Uppsölum, sem segir að starfsmenn viti lítið um þessi efni og um hætturnar samfara þeim. „Án þekkingar er erfitt að sjá sambandið á milli veikinda og starfsins,“ segir læknirinn. Þekkingarskorturinn leiðir sömuleiðis til þess að fáar eða engar kröfur eru gerðar um úrbætur. Starfsmenn og atvinnurekendur vita einfaldlega ekki um vandamálið þótt það sé til staðar á vinnustað þeirra. Reglugerðir og upplýsingarit frá vinnuverndarstofnunum og stéttarfélögum virðast ekki hafa haft tilætluð áhrif.

Verra en asbest

Árið 2000 létu samtök sænskra málmiðnaðarmanna, Metall, gera rannsókn meðal félagsmanna sinna í borginni Hässleholm. Rannsóknin náði til 1017 einstaklinga. Helmingur þeirra hafði óþægindi í öndunarfærum. Astmi og öndunarerfiðleikar voru verstu vandamálin. Af þeim 508 sem höfðu öndunarerfiðleika höfðu aðeins 89 rætt málið við atvinnurekendann. Af 1017 vissu 650 alls ekki að ísósýanat fyndist í þeim efnum sem þeir unnu með. Ennfremur kom fram að 60% af bílasmiðunum áttu við öndunarerfiðleika að stríða og höfðu húðsjúkdóma sem mátti rekja til ísósýanat-efna. Metall í Stokkhólmi telur að vandamálin í sambandi við ísósýanat séu verri en asbestvandamálin fyrir tveimur áratugum. Í iðnfyrirtæki í Suður-Svíþjóð þurftu 30 starfsmenn nýlega að hætta að vinna þegar í ljós kom að þeir höfðu fengið ofnæmi. Starfsmennirnir unnu við að hita upp svokallað pólýúretan-lím og vissu ekki að við upphitunina fylltist andrúmsloftið af hættulegum efnum sem þeir önduðu að sér. Greint hefur verið frá svipuðum vandamálum á bílaverkstæðum þar sem menn vinna við rafsuðu á stáli sem þakið er pólýúretani.

Astmi og lungnakvef

Ísósýanat-efnin eru einkum hættuleg heilsu manna þegar þeir anda þeim að sér í formi gufu eða ryks, sem getur leitt til sárinda á slímhimnu með einkennum sem líkjast mest astma eða lungnakvefi. Efnin geta einnig leitt til sárinda í augum, húð og öndunarfærum. Komist menn oft í snertingu við efnin getur það leitt til bæði exems og ofnæmis á hörundi.

Þekking í stað vankunnáttu

Þrátt fyrir vankunnáttu meðal starfsmanna og atvinnurekenda benda rannsóknir fram á við. Nýjar aðferðir við að meta ísósýanat koma í dagsljósið og fundist hafa nýjar tegundir. Samtímis er sannreynt að efnin myndast við lægra hitastig en menn héldu áður. Í umræðum um þetta er einnig bent á að samhliða aukinni þekkingu fræði manna gefist tækifæri til að veita bæði atvinnurekendum og starfsmönnum haldgóða fræðslu.

Tryggvi Þór Aðalsteinsson

Heimild: Arbetsmiljöverket