Klúður við Kárahnjúka

Stóriðjuframkvæmdir eru hafnar á Austurlandi. Það fer ekki á milli mála þegar ekið er upp á Vesturöræfi, sem eitt sinn voru friðsæl heimkynni sauðkindarinnar, hreindýranna og stöku ferðamanna sem vildu upplifa hálendi Íslands í kyrrð og ró. Rykmökkur liggur nú yfir svæðinu. Ryk frá tugum ef ekki hundruðum bíla sem eru á stöðugri ferð um svæðið. Ryk frá sprengjum. Hundruð manna hafa tekið sér búsettu á á melunum við Dimmugljúfur nærri Kárahnjúk fremri og Jökla hefur tekið að sér hlutverk færibandsins. Þúsundum rúmmetra af jarðvegi er mokað ofan í þetta vatnsmikla jökulfljót sem í framtíðinni á að knýja hverfla stærsta raforkuvers landsins inni í Teigabjargi í Fljótsdal.

Þeim sem áttu þess kost að koma á þessar slóðir áður en framkvæmdir hófust bregður óþyrmilega í brún að sjá hvernig svæðið er umleikið nú þegar þessar mestu framkvæmdir Íslandssögunar eru hafnar. Sumir gleðjast yfir athafnaseminni, öðrum líst ekkert á blikuna.
Nýlega sóttu virkjanasvæðið heim nokkrir forystumenn verkalýðshreyfingarinnar sem hafa haft með virkjanasamningana að gera, og komu þeir að ósk yfirtrúnaðarmannsins á svæðinu. Hópurinn fór vítt og breitt um og kynnti sér ástandið. Samiðnarblaðið slóst í för.

„Heimamenn“ hafa orðið

„Hvernig haldið þið að það sé að fá 200 gangagerðarmenn, byggingarmenn og steypukarla að ótöldum öllum verkamönnunum á skítugum skónum í mat þar sem eru sæti fyrir 47 og allir þurfa að fá að borða á tæpum tveim tímum? Ekki nóg með að flestir eru á skítugum skóm heldur eru þeir af ólíku þjóðerni. Tala ólík tungumál og er jafnvel í nöp hverjum við aðra.“ Þannig spyr kvenkyns mötuneytisstarfsmaður í einum starfsmannabúðunum.

„Það hefur oftar en einu sinni legið við slagsmálum hér við mötuneytið. Ítalska herraþjóðin á Kárahnjúkasvæðinu sýnir oft á tíðum vafasama framkomu við starfsfólk af öðru þjóðerni. Þannig þurfa Tyrkirnir og Portúgalarnir oft að beita tölverðum þrýstingi til að komast að matborðinu. Ítalskur yfirmaður fór hér hamförum og leyfði sér að sparka upp hurðum og velta um stólum og láta öllum illum látum yfir einhverju sem honum mislíkaði.“

„Það er ekki nóg með að við eigum eftir að sjá hér rísa stærstu stíflu landsins. Við eigum væntanlega líka eftir að sjá alveg nýja tegund af kjara- og réttindabaráttu. Mér sýnist að verktakinn, Impregilo, ætli sér að koma öllum Íslendingum hér úr vinnu. Íslenskt vinnuafl þekkir sinn rétt og við látum ekki bjóða okkur annað en lágmarksréttindi og laun. Það er bersýnilegt að portúgalskir starfsmenn til dæmis sætta sig almennt við mun lakari kjör en við. Maður hefur það á tilfinningunni að Ítalirnir ætli að komast af með lágmarkstilkostnað vegna starfsmannahalds. Hér er verið að níðast á starfsmönnunum.“
Skálarnir sem starfsmönnum er ætlað að búa í eru fluttir inn frá Rúmeníu og Tyrklandi. Um er að ræða stálgrindarhús sem svipar mjög til gáma, með þunnri einangrun og þunnum veggplötum að innan. Í lofti eru kerfisgrindur hengdar með vírum neðan í stálgrindurnar. Ofan á grindurnar eru settar þunnar plötur og ofan á þeim eru einnar tommu einangrunardýnur í plastpokum. Um er að ræða leiðni málms frá ysta lagi til hins innsta þannig að verulegar líkur hljóta að vera á rakamyndun í þessum bröggum. Auk þess er frágangur á tengingu þaks og veggja þannig að næsta víst er að það skafi inn á loftin þegar snjóar. Sama gildir um veggi og gólf.

„Allar góðar vættir forði þessum húsum og íbúum þeirra frá norðaustanbáli með tilheyrandi snjókomu. Þá verður vistin ekki góð. Hugsaðu þér mann með suðrænt hjarta og alls óvanan því að kljást við brjálað veður uppi á hálendi Íslands. Ég sé fyrir mér mikla angist og vonleysi. Við verðum að vona að slík óveður láti á sér standa. Þessir braggar eiga eftir að virka eins og trommusett í slíku veðri. Íbúarnir búa væntanlega í bassatrommunni miðri. Það þarf ekki mikinn vind til að hleypa settinu af stað.“

Mötuneytið. Tveir samfestir gámar. Eldhúsið öðrum megin, nokkur borð og stólar hinum megin. Sæti fyrir 47. Þegar rignir við Kárahnjúka verður svæðið eitt forarsvað. Fyrir dyrum mötuneytisgámanna liggur vörubretti á leirugum sandinum sem þekur allt umhverfið. Allt er blautt og allt sem kemst í snertingu við jarðveginn skitnar um leið. „Maður fer inn á forugum stígvélunum og í vinnugallanum því ekki er ráðlegt að skilja hann eftir úti í rigningunni. Plássin undir vinnufatnaðinn og stígvélin verður að taka af matsalnum. Anddyrið vantar. „Það er á leiðinni, það er í gámi!“ segja Ítalirnir. Gámurinn er búinn að vera ótrúlega lengi á leiðinni. Ef einhver hugsun væri hjá þessum mönnum þá væri búið að slá upp svokölluðum eplakassa hér fyrir framan gáminn. Það hefði tekið tvo trésmiði einn formiddag að smíða þannig anddyri til að geyma vinnufatnaðinn. Þessi í stað efna Ítalirnir til illinda milli starfsmanna vegna plássleysisins.“

Það eru tyrkneskir verkamenn – „sérfræðingar“ – sem vinna við að reisa vinnubúðir á staðnum. „Þessi vinnubrögð Tyrkja minna mig á þegar trúfélag var að byggja kirkju á Selfossi. Þeir gerðu það tugum saman eina helgi. Stór hópur Tyrkjanna gegndi sama hlutverki og kranar gera hjá okkur, í þokkalega tæknivæddu samfélagi.“

Það kemur berlega í ljós þegar litið er yfir samfélagið í stóriðjuþorpinu við Dimmugljúfur að vinnuaflið er ekki alstaðar jafn-verðmætt. „Svo er að sjá að hingað til lands séu komnir blásnauðir menn frá Suður- og Austur-Evrópu til að vinna fyrir nánast þrælalaunum, búandi í búðum sem kannski þóttu boðlegar í Síberíu á sínum tíma – en það þýðir ekki að þær séu nothæfar á öræfum Íslands á okkar dögum.

„Ég er ekki viss um að Ítalirnir geri sér fyllilega grein fyrir að þeir hafa tekið að sér verk í landi þar sem fólk gerir sér grein fyrir réttindum sínum og skyldum. Hér eru gerðar kröfur um að aðbúnaður starfsfólks sé í lagi. Þeir eru – eða svo er mér sagt – vanastir því að vinna verk þar sem vinnuaflið hangir utan á girðingunum kringum vinnusvæði þeirra í von um vinnu. Því miður fyrir þá er það svo ekki hér á landi.“
Vissulega verðum við að gefa Ítölunum tíma. Hugmyndir þeirra um tímann eru því miður aðrar hjá þeim en okkur. Við viljum sjá árangur og það fljótlega. Dæmið um anddyrin við mötuneytið ætti ekki að sjást við svona umfangsmikla framkvæmd. Íslenskir verktakar hefðu brugðist við þessum vanda og komið upp slíku anddyri fyrir löngu, því þeir vita að það er mikilvægt að koma í veg fyrir árekstra starfsfólks í matmálstímum. Þeir vita líka hvað það er mikilvægt að hafa starfsmenn ánægða. Impregilo-menn verða að átta sig á því að óánægja starfsfólks á svæðinu bitnar á framkvæmdunum, og þessi óánægja á eftir að kosta sitt. Starfsmaður sem finnst hann vera notaður nánast sem vinnnudýr skilar ekki góðu verki. Honum er líka skítsama um hvernig verkið gengur. Og meira en alveg sama um hag ítalska verktakafyrirtækisins.

„Hvernig heldurðu að það sé að búa í 6-8 fermetra herbergi með öðrum? Þar sem aðeins rúmin komast fyrir? Það eru 15–20 sentimetrar á milli rúma. Maður verður að liggja í rúminu þangað til herbergisfélaginn er farinn frammúr. Eins og ástandið er nú býr yfirgnæfandi meirihluti starfsmanna á svæðinu við þessar aðstæður. Þeir hafa ekki í neitt annað hús að venda. Mötuneytin eru notuð sem setustofur. Aðrar slíkar eru ekki á svæðinu fyrir almenna starfsmenn.“
„Ég sef ekki mikið hér. Herbergisfélagi minn hrýtur rosalega. Ég er líka skíthræddur við að fartölvunni minni verði stolið. Ég á eftir að vera hér í fimm mánuði. Ég er þegar farinn að sjá eftir þessu. Ég hefði aldrei átt að yfirgefa Portúgal.“