Úr skilaboðaskjóðu formannsins

Kjarakröfurnar litast af ástandinu
Eina ferðina enn stöndum við frammi fyrir því verkefni að endurnýja kjarasamninga. Mikil vinna hefur farið fram innan einstakra aðildarfélaga Samiðnar við að móta kröfur og lauk henni á sambandsstjórnarfundi Samiðnar þar sem kröfurnar voru samræmdar. Ekki þurfti að hafa mikla vinnu við það því annars vegar voru kröfurnar mjög vel skilgreindar frá félögunum og hins vegar var mikill samhljómur milli félaga. Sambandsstjórn fól síðan samninganefnd Samiðnar að ganga endanlega frá kröfugerðinni og leggja hana fram við viðsemjendur okkar. Það er samstilltur hópur sem fer fram í baráttuna því að eins og í undanförnum kjaraviðræðum verður Samiðn með samningsumboð fyrir öll aðildarfélög sín í viðræðunum. Mitt mat er að við höfum stillt kröfum okkar mjög í hóf, en kröfurnar litast eðlilega af því ástandi sem uppi er í samfélaginu hverju sinni.

Kauptaxtar og lífeyrir

Meginkrafa okkar er að hækka lægstu taxta verulega þar sem ógn stafar af því að kauptaxtar hafa ekki fylgt raunlaunum.
Önnur mikilvæg krafa er að lífeyrir okkar verði í takt við það sem gerist hjá opinberum starfsmönnum. Við settum þessa kröfu fram þannig að þetta yrði gert í áföngum svo að atvinnulífið og/eða ríkissjóður gæti tekið á sig auknar byrðar vegna aukins mótframlags. Það hefur lengi verið ljóst að á meðan ríkissjóður er að greiða 11,5% mótframlag en okkar atvinnurekendur 6% verður með tímanum verulegur munur á lífeyrisréttindum almenna markaðarins í samanburði við opinbera starfsmenn. Þessi munur er nú þegar kominn fram en mun verða enn skýrari þegar fram líða stundir. Þegar forsendur núgildandi kjarasamninga voru endurskoðaðar í desember 2001 var ein af forsendum þess að ekki yrði um að ræða rof á kjarasamningum að fjármálaráðherra gaf yfirlýsingu um að lífeyrisréttur þeirra sem eru í ASÍ-félögum og vinna hjá ríkinu yrði leiðréttur til jafns við opinbera starfsmenn. Þetta hefur enn ekki verið efnt vegna mismunandi skilnings á því hverju var lofað. Því var þetta ansi köld vatnsgusa sem alþingi skvetti framan í almenning þegar þeir sem þar ráða ríkjum voru að lagfæra sín eigin lífeyrisréttindi nú fyrir jólin. Og ekki síðri voru viðbrögð einstakra þingmanna þegar ekki tókst að læða frumvarpinu í gegn án athugasemda almennings. Hagdeild ASÍ setti fram útreikninga sem sýndu hvað þessar breytingar kosta. Ráðherrar og einstakir þingmenn réðust með offorsi á hagdeildina en gátu samt ekki hnekkt útreikningum ASÍ og enn stendur hver einasti útreikningur hagdeildar óhrakinn. En frumvarpið fór í gegn og það litar umræðuna um lífeyriskröfur ASÍ-félaganna.
Þessi umræða skilur meira eftir sig en bara viðbrögð við þessu einstaka frumvarpi. Umræðan var endurspeglun á þeirri umræðu og skoðunum sem verið hafa allsráðandi að undanförnu. Rök alþingismanna um að þeir eigi að hafa betri lífeyrisrétt en aðrir voru að þá þyrftu þeir ekki eftir langan starfsaldur á alþingi að sækja um störf á almennum vinnumarkaði, og einnig að þá þyrftu þeir ekki að leita inn í utanríkisþjónustuna eða í embættismannakerfið. Þá var þess einnig getið að þetta kerfi væri sambærilegt við það sem gerist í Þýskalandi. Það voru einnig rök félagsmálaráðherra þegar hann kom fram með þá brilljant hugmynd að hætta að greiða fyrstu þrjá dagana í atvinnuleysi. Þetta væri eins og í sumum norrænu löndunum. Það voru einnig rök þeirra Búnaðarbankastjóra með kaupaukann sinn að það væri sambærilegt við það sem gerðist í öðrum löndum. Firring þessara manna er slík að þeir geta verið að klippa einn hlut úr samhengi og nota sem rök fyrir aðgerðum sínum. Til dæmis láðist félagsmálaráðherra að geta þess að þegar þessum þrem atvinnuleysisdögum lýkur á Norðurlöndum fara menn á að minnsta kosti 80% af þeim launum sem þeir höfðu fyrir atvinnuleysið. Hér lenda menn á launum sem enginn getur dregið fram lífið af. Þeim láðist að geta þess, bankastjórunum, að kaupaukarnir sem þeir voru með eru víðast að líða undir lok þar sem skammtímasjónarmið þeirra sem taka laun eftir slíku kerfi voru að setja fyirtækin á hausinn.

Þetta minnir á 19. öldina

Það er fleira sem er að breytast í okkar samfélagi og hefur áhrif á kjarasamning okkar og lífsafkomu. Hjá ákveðnum aðilum er allt leyfilegt sem ekki er bannað, þótt það brjóti gegn siðferðiskennd almennings. Og það er leyfilegt þar til viðkomandi verður dreginn fyrir dóm. Barátta okkar við ákveðin fyrirtæki sem eru að fá erlenda starfsmenn í gegnum starfsmannaleigur er með ólíkindum. Þar er hugsunin sú að ef hægt er að svína launamann niður í launum er það gert. Þetta minnir á 19. öldina þegar menn voru vart matvinnungar þótt unnið væri myrkranna á milli. Þetta minnnir einnig á þegar bændur voru að senda vinnumenn sína í ver landshluta á milli og hirtu þeirra hlut þar sem þeir voru í vistarböndum við þá. Hvað er annað verið að gera með leigufyrirtækjum? Hvaða laun fá menn í raun? Og þetta nýja vistarband er látið viðgangast í skjóli frelsis! Þetta er eitt af því sem við þurfum að girða fyrir í komandi kjarasamningum.
Hugmyndir okkar um samningstíma eru tvö ár. Við teljum að á meðan atvinnuleysi er að aukast – þótt við séum komin inn í stærstu framkvæmd Íslandssögunnar – sé ekki rétt að hafa samningstíma lengri. Við teljum líka óeðlilegt að Seðlabankinn sé farinn að sporna gegn meintri þenslu með auknum stýrivöxtum á sama tíma og allt er í slaka í efnahagslífinu. Landsmenn eru ein skuldugasta þjóð sem um getur og því hafa vextir veruleg áhrif á lífsafkomu heimilanna. Fleiri hættumerki eru í loftinu og því teljum við ekki vænlegt að binda okkur til lengri tíma nema það komi til góður samningur með tryggingarákvæðum sem hægt er að treysta á að færi okkur þann kaupmátt sem við viljum ná í samningunum.
Janúarmánuður sker úr um hvort við náum ásættanlegum samningum áður en sá gamli rennur út. Ef ekki tel ég líklegt að við förum fljótlega að blása til aðgerða til að knýja á um gerð nýs kjarasamnings. Það er félagsmaðurinn sem á síðasta orðið um það hvað við göngum hart fram. Því þurfum við sem erum að puða dags daglega í viðræðum að hafa gott upplýsingastreymi við félagsmanninn. Upplýsingar eru settar inn á heimasíðu Samiðnar þegar eitthvað fréttnæmt gerist. Við hvetjum félagsmenn að halda sér vel upplýstum því ef til vill kemur að því að við verðum að svara því hvort við neyðumst til að fara í aðgerðir.
Ég vil þakka hinum fjölmörgu félagsmönnum Samiðnarfélaganna sem leggja hönd á plóg í þágu stéttarfélags síns og heildarsamtakanna fyrir samstarfið á liðnu ári.
Ég óska öllum félagsmönnum, svo og fjölskyldum þeirra, gleðilegs árs og friðar.

Finnbjörn