Alþjóðavæðingin og vinnumarkaðurinn voru eitt af stóru málunum á síðasta þingi Samiðnarmanna. Til að ræða þessi mál voru fengnir þrír frummælendur, þau Sam Hägglund formaður Sambands norrænna byggingarmanna, Gissur Pétursson forstjóri Vinnumálastofnunar og Kristrún Heimisdóttir lögfræðingur hjá Samtökum iðnaðarins. Í máli þeirra allra kom fram að miklar breytingar eiga sér nú stað á þessum vettvangi og sumar þannig að rétt er að staldra við og skoða þær nánar.
Sam Hägglund fjallaði um stöðu iðnaðarmanna á Norðurlöndum og bar hana saman við stöðu iðnaðarmanna annars staðar í Evrópu. Niðurstaða hans var að byggingarmenn á Norðurlöndum gætu vel við unað. Verulegur munur væri á launakjörum þeirra og starfsbræðra þeirra annars staðar í Evrópu og að auki væri starfsumhverfi þeirra mun öruggara.
Þá fjallaði Sam um þær tilraunir sem gerðar voru fyrir tuttugu árum á vegum Evrópusambandsins til að samræma iðnmenntun í aðildarríkjunum. Hann sagði að þær tilraunir hefðu farið út um þúfur en þess í stað hefði verði komið á legg stofnun með það hlutverk að kortleggja menntun iðnaðarmanna í Evrópu og bera hana saman. Þetta starf væri langt komið á Norðurlöndum en tilgangur þessarar kortlagningar væri – eins og við samræmingartilraunirnar áður – að skapa betri tækifæri fyrir flutning vinnuafls milli aðildarríkjanna.
Sam benti því næst á að iðnmenntunin væri jafnframt mjög mikilvægt mál innan ESB nú þegar ríkjum hefur stórfjölgað í sambandinu og frjálsi vinnumarkaðurinn stækkað til muna. „Það sem við verðum að passa upp á er að þetta skapi ekki félagsleg undirboð, þ.e. þrýsti kjörum manna niður með því að fólk flytji til okkar landa og vinni langt undir þeim kjörum sem kveðið er á um í kjarasamningum okkar. Norrænu ríkin hafa valið mismunandi leiðir til að taka á þessum vanda. Finnar hafa nýlega staðfest aðlögunarreglur og búa jafnframt við fyrirkomulag sem kveður á um að kjarasamningar gilda sem lög um lágmarkslaun á vinnumarkaði. Þessu til viðbótar var nýlega hert á löggjöf þar sem menn verða brotlegir fyrir lögum ef þeir brjóta gegn almennum reglum kjarasamninga og greiða mönnum lægri laun eða láta þá búa við lakari kjör en kveðið er á um í samningum. Þetta verður bannað og brot gegn þessu leiða til refsinga, svo sem að gera hagnað viðkomandi fyrirtækis upptækan. Í Danmörku hafa menn samið þvert á allar flokkalínur um aðlögunarfyrirkomulag þar sem þess er krafist að eigi menn að fá atvinnuleyfi verði að ráða þá í fullt starf og fara að kjarasamningum. Í Noregi hafa menn undanfarin ár getað gert kjarasamningana að lágmarksviðmiðun, en hafa ekki nýtt þau lög enn sem komið er. Nú er hinsvegar í ráði að nýta sér lögin vegna stækkunar ESB, meðal annars í byggingariðnaði. Í Svíþjóð hafa ýmsar aðlögunarleiðir verið ræddar og nýlega útbjó ríkisstjórnin tillögur, en því miður voru þær felldar á sænska þinginu,“ sagði Sam.
„Okkar skoðun innan Norræna byggingarmannasambandsins er að frjálst flæði vinnuafls sé gott og nauðsynlegt fyrirkomulag sem hefur í sér fólgin miklu meiri tækifæri en hættur. Starfsmenn í byggingariðnaði hafa alltaf verið hreyfanlegir, milli sveitar og borgar, milli landshluta í sama ríki og yfir landamæri. Það hefur legið í eðli starfsins að vera hreyfanlegur,“ sagði Sam Hägglund.
Þjónustutilskipun ESB
Því næst fjallaði hann um drög að þjónustutilskipun sem eru í vinnslu hjá Evrópusambandinu um þessar mundir.
„Við óttumst að ef af þessu verður geti skapast ákveðin hætta sem gæti gert að engu þann árangur sem við höfum náð á mörgum öðrum sviðum innan ESB. Okkur þykir það miður að þið hér á Íslandi getið ekki orðið okkur að liði í þessu efni og hjálpað okkur að beita pólitískum þrýstingi til að breyta inntaki þessarar tilskipunar,“ sagði Sam og bætti við að Íslendingar þurfi að hlíta þessum reglum þegar þær á endanum verða gefnar út.
„Eins og málið lítur út núna eru þessar reglur alveg óásættanlegar. Í stað þeirra ákvæða sem er að finna í staðsetningartilskipuninni um að reglur viðkomandi lands eigi að gilda sem viðmiðun um kaup og kjör er í þjónustutilskipuninni gengið út frá þeim kjörum sem gilda í heimalandinu. Þetta getur orðið til þess að fyrirtæki kjósi að fara eftir hagstæðustu reglum út frá þeirra sjónarmiði, skrái fyrirtækið í slíku landi en verði síðan með starfsemi í öðrum aðildarríkjum ESB, án annarrar skyldu við starfsmenn en kveðið er á um að skuli gilda um launafólk í skrásetningarlandi fyrirtækisins, þ.e. þar sem póstkassa fyrirtækisins hefur verið komið fyrir. Vissulega er gerð undanþága vegna ákvæða staðsetningartilskipunarinnar, en um leið gerir þjónustutilskipunin viðtökulandinu í raun ókleift að hafa eftirlit með því hvort fyrirtækið fer að viðkomandi reglum um kjör starfsmanna. Viðtökulandið getur ekki haft eftirlit með því hver starfsmannakjörin eru í reynd, heldur aðeins með því hver þau eiga að vera. Tilskipunin bannar einnig viðtökulandinu að hafa eftirlit með því hvort fólk frá þriðja landi er löglega í landinu. Þetta fyrirkomulag mundi innleiða kerfi þar sem starfsmannaleigum yrði gert kleift að stunda útleigu á vinnuafli frá þriðja landi án vinnu eða landvistarleyfis í upprunalandinu. Í tilskipunardrögunum er viðtökulandinu auk þess meinað að hafa eftirlit með þeim búnaði sem notaður er, þ.e. með vinnuumhverfinu. Menn mega ekki heldur krefja fyrirtækið um að taka tryggingar fyrir starfsmennina eða koma í veg fyrir að verktakar starfi,“ segir Sam Hägglund.
„Ef þessar tillögur ná fram að ganga verða í framtíðinni leiddar í lög margvíslegar aðferðir til félagslegra undirboða og til að koma á fót verslun með réttindi launafólks. Öll viðleitni til að bæta kjör launafólks innan ESB væri í uppnámi. Við hjá Norræna byggingarmannasambandinu beitum ýmsum ráðum um þessar mundir til að hafa áhrif á þessar tillögur og við gerum okkur vonir um stuðning stjórnvalda alstaðar á Norðurlöndum í þessu efni,“ sagði Sam Hägglund að lokum.