Þegar Samiðn lagði fram kröfugerð vegna síðustu samninga höfðu forustumenn sambandsins reynt að rýna í framtíðina eins og þeim ber að gera. Við töldum að ekki væri ráðlegt að gera lengri samninga en til tveggja ára í jafn-óvissu ástandi og virtist framundan. Stundum er gott að berja sér á brjóst og segja „ég hafði rétt fyrir mér“ en nú verð ég að segja: „Því miður höfðum við rétt fyrir okkur.“ Það sem við vorum hrædd við virðist vera að koma fram. Verðbólgan er komin yfir þau mörk sem við höfðum sem viðmið í fosendum kjarasamninga og kjararýrnun blasir við, nema verulegt launaskrið fari af stað. Og launaskriðið þarf að vera verulegt þar sem verðbólgan bítur í hælana á okkur með auknum álögum vegna skuldastöðu heimilanna. Þegar meðalfjölskyldan skuldar tæplega tvöfaldar árstekjur sínar kostar hvert verðbólguprósentustig mikið. Verðlag er einnig farið að stíga uppávið, því allir ætla að tryggja sig fyrir áhrifum verðbólgu. Þetta er gamalkunn ráðstöfun. Frá 1990 hafa aðildarsambönd ASÍ gert samninga sem haldið hafa við stöðugleika og stígandi kaupmætti. Nú horfum við uppá rof úr öllum áttum. Ríkisstjórnin gerir lítið með fjárlagafrumvarpinu til að sporna við þeirri þenslu sem er í efnahagslífinu. Hún gerir lítið á vinnumarkaðnum þar sem atvinnuleysi virðist ætla að festa sig í sessi yfir þremur prósentum.
Aðrir vilja hrifsa til sín sem mest af kökunni og ætla að njóta ávinnings sem þeir eiga engan þátt í að skapa. Taki hver til sín sem á.
Launafólk er orðið þreytt á að vera eilíflega „hinn ábyrgi“ og sitja síðan eftir með skarðan hlut. Ef til vill þarf samfélagið að fara eina kollsteypu í verðbólgu til að rifja upp tímana fyrir 1990. Það er alveg rétt að launafólk tapar á því.
Ég er farinn að efast stórlega um hagkvæmni lögvarinnar verðtryggingar lána og alls fjármagns. Ég er farinn að efast um svokallaða samkeppni sem á að halda niðri verðlagi hér á landi og ég er farinn að efast um úrræði Seðlabankans til að sporna við verðbólgu. Hvaða hvata eiga þessir aðilar að hafa til að beita sér fyrir því að halda verðbólgu innan 2,5%-markanna? Er samkeppni á íslenskum matvörumarkaði, á fötum o.fl.? Seðlabankinn er í vonlausri stöðu með sitt eina úrræði, að hækka stýrivexti, sem hafa nánast eingöngu áhrif á yfirdrátt launafólks og neysluskuldir. Það er ekki það fólk sem er aðalgerandinn í að þenja út hagkerfið. Þeir sem þenja hagkerfið eru í erlendum bönkum og telja sig græða aldrei meira en þegar vaxtamunurinn er sem mestur milli erlendu bankanna og stýrivaxta þannig að aðgerðir Seðlabankans hvetja menn jafnvel til að taka lán erlendis.
Maður verður svartsýnn á að hugsa þetta mál öllu lengra. Tökum upp léttara hjal. Til dæmis um olíufélögin eða samkeppnina í sölu byggingarvöru eða trygginga.
Á einhver vasaljós?
Kveðja Finnbjörn A. Hermannsson