Hvers vegna er frelsi okkar takmarkað?

Spyr Katarzyna Sobon hjá Samstöðu í Póllandi í tilefni af takmörkunum á innflutningi vinnuafls frá nýjum aðildarríkjum Evrópusambandsins
Pólska verkalýðsfélagið Samstaða varð heimsfrægt fyrir að vera félagið sem steypti kommúnismanum í Austur-Evrópu. Síðan hefur ýmislegt drifið á daga þessara samtaka, og urðu þau um tíma að pólitískum flokki en hafa nú dregið sig út úr pólitík. Nú sinnir Samstaða hefðbundnum störfum stéttarfélags en félagsmönnum hefur fækkað. Þeir eru um 800 þúsund en voru fyrir örfáum árum um tvær milljónir og á tímum andófsins gegn kommúnismanum töldust þeir um tíu milljónir. Ég hitti að máli Katarzynu Sobon sem starfar að Evrópumálum á skrifstofu Samstöðu í Gdansk, skammt frá skipasmíðastöðinni þar sem andófið hófst fyrir tæpum aldarfjórðungi. Hvernig skýrir hún fækkun félagsmanna? – Eftir fall kommúnismans urðu margir fyrir vonbrigðum með félögin og hættu. Nú eru mörg verkalýðsfélög starfandi en þrjú stærstu landssamböndin eiga aðild að svonefndri þríhliða nefnd þar sem samið er um laun og félagsleg réttindi starfsfólks ríkisfyrirtækja. Staðan er nokkuð ruglingsleg því víða starfa mörg stéttarfélög innan sama fyrirtækis, til dæmis veit ég um námufyrirtæki þar sem starfsmennirnir skiptast upp í fimmtán félög, segir hún. Hún vitnar í nýútkomna bók eftir pólskan félagsfræðing þar sem fram kemur að fólki fækkar í stéttarfélögum. Nú eru einungis 10–15% verkafólks virk í félögunum og er fjöldinn nokkuð breytilegur eftir árstíðum. Þrjú helstu félögin eru Samstaða, OPZS og Forum sem var stofnað 2001.

Er von á fjöldaflótta?

Þegar stækkun Evrópusambandsins var til umræðu í Póllandi lýsti Samstaða yfir stuðningi við aðild en mótmælti því að gömlu aðildarríkin tækju sér aðlögunartíma vegna gildistöku ákvæðisins um frjálsa för verkafólks. Hvers vegna? – Í okkar augum er fjórfrelsið mikilvægt, segir Katarzyna. Ef reglurnar leyfa óhefta för fjármagns, þjónustu og vöru, hvers vegna eru þá lagðar hömlur á för verkafólks? Það merkir í okkar augum að verið sé að mismuna okkar fólki. Það kom líka fram í skoðanakönnunum að fólki þótti þetta ferðafrelsi afar mikilvægt. Það spurði til hvers þetta ESB væri ef það tryggði Pólverjum ekki rétt til að ferðast hvert á land sem þeir vildu og starfa þar sem þeir óska. Hvers vegna mega aðrir fara hvert sem þeir vilja en við ekki? En leiðir slíkt frelsi ekki til fjöldaflótta fyrst fimmtungur Pólverja er atvinnulaus? – Það þýðir ekki endilega að fólk taki að streyma vestur á bóginn til að taka vinnuna frá þeim sem þar búa. Þótt frelsið sé til staðar er ekki þar með sagt að allir notfæri sér það. Ótti fólks í ESB-ríkjunum hefur stundum gengið fram af okkur. Til dæmis benti einn félagi okkar frá Slóveníu á að þar í landi byggju aðeins tvær milljónir manna en ef marka mætti suma útreikninga sem hann hefði séð ættu aðildarríki ESB vona á meira en tveimur milljónum Slóvena í atvinnuleit. – Það er hefð fyrir því að Pólverjar flytjist úr landi, fyrst og fremst til Þýskalands og Bandaríkjanna. En tímarnir hafa breyst. Stóru bylgjurnar áttu sér stað á erfiðum tímum í sögu Póllands, til dæmis þegar herlög og ritskoðun voru í gildi á níunda áratug síðustu aldar. Nú lítur fólk á það sem tækifæri að fara úr landi í leit að menntun eða atvinnu en þeir sem fólk í Vestur-Evrópu óttast mest hafa ekki aðstöðu til að flytja úr landi. Ófaglært verkafólk hefur ekki efni á að flytja, það kann ekki nein erlend tungumál og hefur engin tengsl við önnur lönd. – Við viljum að fólk fari að lögum þegar það hyggst flytja úr landi en reyni ekki að ná sér í svarta vinnu. Ef reistir eru háir varnarmúrar gæti það haft öfug áhrif því þeir ýta undir ólöglegt athæfi. Ef allt er opið tekur fólk hlutunum með jafnaðargeði. Það er rétt að alltaf er til fólk sem vill leggja mikið í sölurnar til að finna betra líf. Þess vegna teljum við mikilvægt að koma á samstarfi milli stéttarfélaga aðildarríkja ESB í því skyni að hjálpa þeim sem fara milli landa í atvinnuleit. Þeir sem eru komnir í annað land en finna þar enga vinnu gætu þá leitað sér ráðgjafar um það hvað þeir þurfa til að fá vinnu og koma sér fyrir í nýju landi, hvaða kunnáttu þeir þurfa að búa yfir, hvaða pappíra þeir þurfa, hvernig kemst ég heim aftur? og svo framvegis. Þetta er nauðsynlegt svo fólk verði ekki strandaglópar í nýju landi, peningalaust, atvinnulaust, heimilislaust og svipt öllum möguleikum á að bjarga sér. Að sjálfsögðu flyst fólk úr landi en ótti við mikinn straum fólks er ástæðulaus. Nú hafa óprúttnir menn gripið til þeirra úrræða að stofna alls kyns vafasöm fyrirtæki og ráðningarstofur í þeim tilgangi að losna undan því að greiða verkafólki umsamin laun og tryggja þeim félagsleg réttindi. – Já, ég skil óttann við slíka starfsemi. Þess vegna er svo mikilvægt að koma á reglum sem ekki mismuna fólki eftir þjóðerni. Pólverji sem kemur til Íslands til að vinna á að njóta allra sömu kjara og réttinda og íslenskt verkafólk. Það ætti því að vera hlutverk íslenskra stéttarfélaga að koma á samstarfi við stjórnvöld og atvinnurekendur um eftirlit með því að ekki sé verið að mismuna fólki. Sennilega komumst við aldrei endanlega fyrir ólöglega starfsemi og svartamarkaðsvinnubrögð en við verðum að leggja okkur fram um að tryggja fólki sem best lífsgæði, meðal annars með því að veita erlendu verkafólki aðild að stéttarfélögum og þeirri vernd sem þau geta. Sérðu fram á að Pólland nái svipuðu þróunarstigi og löndin í vestanverðri Evrópu? – Nú er atvinnuleysi mikið í Póllandi en stjórnmálamenn eru bjartsýnir og segja að það séu þegar ýmis teikn um fleiri störf. Við bindum vonir við styrki úr byggðasjóðum ESB og ríkisstjórnin er með áætlanir um að fjölga störfum og bæta stöðuna á vinnumarkaði. Þetta gerist ekki á einni nóttu heldur tekur þetta nokkur ár. En aðildin að ESB gefur erlendum fyrirtækjum líka góð tækifæri til að fjárfesta hér og opnar pólskum fyrirtækjum ný tækifæri til að eflast. Hagvöxtur er töluverður og aðildin að ESB ýtir undir hann. Með tímanum á ég því von á að það dragi úr atvinnuleysinu sem er allt of mikið. – Tölfræðin sýnir okkur að munurinn á nýju aðildarríkjunum og hinum gömlu er töluverður en hann minnkar ef þróunarsjóðir ESB fá að starfa óáreittir. Því miður hefur borið á því að gömlu aðildarríkin reyni að skera niður framlögin til okkar hér fyrir austan. Ef við fáum þá aðstoð sem um hefur verið samið sé ég ekki annað en að við gætum náð svipuðu stigi og löndin í vestanverðri álfunni, kannski ekki á tíu árum en áreiðanlega á tuttugu árum, sagði Katarzyna Sobon.

Pólskir smiðir byggja fyrir Dani

Í málgagni danskra byggingarmanna, Fagbladet TIB, hafa að undanförnu birst margar frásagnir af tilraunum óprúttinna braskara til að fara á svig við kjarasamninga félagsins og greiða innfluttu vinnuafli lægri laun en þeir kveða á um. Þeir beita ýmsum aðferðum en ein sú vinsælasta er að stofna fyrirtæki í einu af nýju Evrópusambandsríkjunum og láta það síðan senda iðnaðarmenn til tímabundinna starfa í Danmörku. Um þetta gilda lög sem á dönsku nefnast „Loven om udstationering“ og kveða á um að erlend fyrirtæki þurfi ekki að sækja um vinnu- og dvalarleyfi fyrir starfsfók sem sent er til tímabundinna starfa. Þau þurfa að gangast undir reglur stéttarfélaga um vinnuvernd og fleira en ekki að greiða starfsfólki sínu samningsbundin dönsk lágmarkslaun, og félagsleg réttindi innfluttu starfsmannanna eru í samræmi við reglur í heimalandi fyrirtækisins. Þessi lög ganga í berhögg við almennar reglur sem kveða á um að fyrirtæki skuli afla tímabundinna vinnu- og dvalarleyfa fyrir starfsfólk sitt og beygja sig undir öll ákvæði danskra kjarasamninga. Nú hefur Daninn Ole Thuesen stofnað í Póllandi fyrirtæki sem tekur að sér byggingarframkvæmdir í Danmörku, jafnt nýbyggingar sem stór viðhaldsverkefni. Fyrirtækið setti auglýsingu í blað í vor. Síðan hefur síminn ekki stoppað og fyrirtækið getur ekki annað eftirspurninni. Ole er þegar búinn að senda 50 pólska byggingarmenn til starfa í Danmörku og hann reiknar með því að þeir verði orðnir 200 áður en langt um líður. Hann segist greiða sínum mönnum jafnvirði um 1.400 íslenskra króna á tímann sem er nokkuð yfir lágmarkslaunum samkvæmt samningum TIB. Á hinn bóginn veit enginn hvort þeir njóta nokkurra félagslegra réttinda því þær greiðslur á hann ekki við neinn nema pólsk yfirvöld. Jafnframt flytur hann inn ódýrt byggingarefni frá Póllandi og er því í góðri stöðu að undirbjóða dönsk fyrirtæki. Barátta TIB gegn fyrirtæki Ole Thuesens snýst um að knýja það til að sækja um atvinnuleyfi fyrir starfsmenn sína og tryggja þeim sömu kjör og danskir kollegar þeirra njóta samkvæmt kjarasamningum. Fyrirtækið hefur passað sig á því að bjóða ekki í mjög stór verkefni því þá þarf Ole Thuesen að taka slaginn við dönsk stéttarfélög. Hjá því verður þó ekki komist ef hann ætlar að láta drauma sína rætast. Pólsku smiðirnir þykjast hafa himin höndum tekið því launin sem þeim bjóðast í Póllandi – ef einhverja vinnu er þá að hafa – eru á bilinu 100–200 íslenskar krónur á tímann. Þótt engar takmarkanir séu í lögunum á því hversu lengi þeir mega dveljast í Danmörku er reglan hjá Ole Thuesen sú að menn séu þar í þrjá mánuði og svo þrjá mánuði heima. Því kunna Pólverjarnir ágætlega því þá þurfa þeir ekki að vera of lengi fjarri fjölskyldunni. Ole Thuesen segir í viðtali við Fagbladet TIB að hann stefni að því að gera innrás á sænska og norska markaðinn þegar fram líða stundir. Hann bætir því við að hann hafi ekkert samviskubit yfir því að taka störf frá dönskum byggingarmönnum. – Við lifum í frjálsum heimi og margir Danir starfa í Noregi og Þýskalandi. Með tímanum förum við að ráða Dani í vinnu og ef við færum út kvíarnar til annarra norrænna landa endar þetta með því að við sköpum fleiri dönsk atvinnutækifæri en við tökum, segir hann.