Kristrún Heimisdóttir, lögfræðingur Samtaka iðnaðarins sagði meðal annars í sínu erindi að það kerfi iðnréttinda sem við byggjum á hér á landi væri orðið næsta einstætt í okkar heimshluta. „Saga þess er merkileg og lærdómsrík en ekki samfelld sigurganga því heimildir allt frá fyrstu tíð lýsa erfiðleikum við að knýja fram að lögregla taki á fúski og starfsemi réttindalausra. Núgildandi iðnaðarlög eru að stofni til frá árinu 1978 og endurskoðun þeirra er viðkvæmnismál. Svo mjög að frá árinu 1985, þegar málið var tekið upp á Iðnþingi Landssambands iðnaðarmanna og mætti miklum mótmælum, hefur nauðsyn endurskoðunar legið í þagnargildi. Það er sameiginlegt hagsmunamál allra iðnmenntaðra í landinu að stöðumatið sé rétt á þessu sviði og þakkarvert að fá tækifæri til að viðra nokkur óleyst álitamál hér á þessum mikilvæga vettvangi Samiðnar sagði Kristrún.
„Þekktasti þáttur iðnréttindanna er það sem nefna mætti einkarétt til vinnu. Hann er almennt þekktur en ef til vill ekki jafn-almennt virtur. Menn tala um einkarétt til vinnu á grundvelli þess að í bókstaf iðnaðarlaganna er lögreglu falið að hindra starfsemi réttindalausra. Á síðari árum gerist það hins vegar æ sjaldnar að lögreglan aðhafist nokkuð og af þeim ástæðum er einkarétturinn talsvert veikari en margir álíta. Þetta skýrist að verulegu leyti af því að önnur löggjöf hér á landi hefur breyst meðan iðnaðarlögin hafa staðið í stað og refsiákvæði iðnaðarlaganna duga illa sem heimild fyrir lögregluaðgerðum. Í ljósi þessarar þróunar er mikilvægt að minna á að í iðnaðarlögunum felst líka lögverndun starfsheita, þ.e. að aðrir en iðnmenntaðir geti ekki með réttu kennt sig við greinina.“
Kristrún segir að oft heyrist þær raddir innan iðnaðarins að iðnmenntunin njóti ekki nægrar virðingar hér á landi, að ímyndin sé ekki nægilega sterk. Margar iðngreinar eigi við það að etja að fólk með mun skemmra nám að baki sæki að þeirra fólki á markaðnum, til dæmis með auglýsingum þar sem látið er í það skína að um jafngilda þjónustu sé að ræða. „Þegar lögregluúrræðin gerast torsóttari er brýn ástæða til þess að þeir sem láta sig menntunar- og atvinnumál iðnaðarmanna varða hafi forystu um að finna þau tæki sem virka. Allir þekkja söguna af drengnum sem alltaf kallaði úlfur-úlfur! þangað til hann hafði gert það einu sinni of oft. Af henni má draga þann sígilda lærdóm að enginn græðir á innihaldslausum viðvörunum. Iðnaðarlögin verða því miður sífellt innistöðuminni og áherslan í vitund fagmanna og almennings hefur verið of mikil á einkaréttinn en of lítil á verndun starfsheitisins. Þetta hefur ekki bara áhrif á einkarekstur meistara eða sveina, heldur grefur undan stöðu starfsréttindanna almennt. Það er á stundum næsta einkennilegt hversu léttúðugt viðhorf menntamálaráðuneytisins virðist vera til iðnréttinda. Undanþágur eru afgreiddar hratt og frjálslega, eftirlit er lítið sem ekkert með einkaskólum á sviðinu eins og dæmið af Snyrtiskóla Íslands sýnir og almennt virðist stjórnkerfi iðnmenntunarinnar einfaldlega of laust í reipunum. Ef til vill er stöðnun iðnaðarlaganna þar að einhverju leyti um að kenna. Frjáls för fólks innan EES hefur sett íslenska réttindakerfið í nýtt ljós. Má þar segja að sannist hið fornkveðna að glöggt sé gests augað. Ríkisborgarar EES-ríkja eiga rétt á að flytjast milli EES-landanna og nýta þar starfsréttindi sín. Í þessu felst að hvert aðildarríki á að skoða málefnalega hvaða hæfni viðkomandi starfskraftur býr yfir og flokka það inn í hið innlenda kerfi. Hér á landi ber að færa sönnur um menntun og/eða starfsþjálfun fyrir lögreglustjóra. Framkvæmdin er hins vegar fjarri því að vera skýr. Sem dæmi um það má nefna að í umburðarbréfum ráðuneytisins til lögreglustjóra á landinu – sem eru eins konar verklagsreglur fyrir lögreglustjóra – er algjörlega óljóst hvað felst í rétti aðkomuiðnaðarmanna til að kalla sig meistara, meðal annars hvort þeir hafa rétt til að taka nema og fara með forstöðu fyrir rekstri. Þegar opinber stjórnsýsla er svo óskýr er þess þá að vænta að ímynd í hugum almennings sé skýr?“ sagði Kristrún.
„Það er athyglisvert að fjöldi löggiltra iðngreina hefur staðið í stað frá 1952. Þrátt fyrir að síðustu 50 ár séu tímabil umbyltingar í íslensku atvinnulífi sér þeirra breytinga ekki stað í fjölda hinna löggiltu iðngreina. Kannski er einnig þetta til marks um að lögverndun iðnmenntunarinnar þurfi að hugsa upp á nýtt. Markmið slíkrar endurhugsunar hljóta að vera tvíþætt: Að iðnmenntun njóti sterkari stöðu á markaðnum og að iðnmenntunin skili samfélaginu öryggi og gæðum. Það er ekki seinna vænna að huga fyrir alvöru að iðnréttindum framtíðarinnar,“ sagði Kristrún Heimisdóttir á Akureyrarþingi Samiðnar.