Starfsmenn Þorgeirs og Ellerts á Akranesi og verktakar þeirra eru þessa dagana að leggja síðustu hönd á smíði togara fyrir færeyska útgerð. Systurskip í smíðum hjá Óseyri í Hafnarfirði.
„Við fengum þetta verk eftir útboð. Það sýnir að við erum samkeppnisfærir í skipasmíðum þrátt fyrir harða samkeppni á markaðinum, allavega valdi færeyska útgerðin okkur til að smíða þessa togara hér,“ segir Sigurður Ívar Leifsson hjá Þorgeir & Ellert hf. Undanfarna sex mánuði hafa tugir starfsmanna fyrirtækisins unnið við að fullklára togara fyrir færeyskt útgerðarfyrirtæki.
Þessi togari er annar tvíburatogarinn sem fyrirtækið er að láta smíða fyrir sig en hinn eru þeir Óseyrarmenn í Hafnarfirði að smíða. Ætlun útgerðarinnar er að láta þessi tvö skip stunda svokallaðar tvíburaveiðar – tvö skip, eitt troll,“ segir Sigurður.
Togararnir sem nú eru í smíðum á Akranesi og í Hafnarfirði eru 8,5 metrar á breidd og 36,5 metra langir. Sex mánuðir eru liðnir síðan skipsskrokkarnir komu í togi frá Póllandi þar sem þeir voru smíðaðir.
„Við buðum í þetta verk í samkeppni við erlendar skipasmíðastöðvar og höfðum betur,“ segir Sigurður sem er afar sáttur við að endurnýja kynni sín af nýsmíði, en nýtt skip hefur ekki verið smíðað á Akranesi síðan 1994.
„Skipsskrokkarnir eru bara beinagrind þegar þeir koma frá Póllandi. Við setjum niður allan vélbúnað, skrúfubúnað, sjáum um allar raf- og vatnslagnir, smíðum innréttingar og setjum niður allan stjórnbúnað í brú skipsins ásamt töluvert mikilli stálvinnu sem var ólokið þegar skrokkurinn kom til landsins. Þetta verkefni hefur gengið vel. Við erum með undirverktaka sem hafa tekið að sér ýmsa verkþætti, svo sem Stálsmiðjuna í Reykjavík sem sér um alla innréttingavinnu, Straumnes, rafvirkjafyrirtæki hér á Akranesi, sem sér um raflagnir og Kælivélar sem setja upp kælikerfi í lest og móttöku. Skipaþjónusta Íslands sér svo um alla málningarvinnu,“ segir Sigurður. Hann er ánægður með samstarfið við undirverktakana sem hann segir hafa staðið sig vel, og eins allir starfsmenn Þorgeirs og Ellerts sem eru upp til hópa ánægðir með að fá nýsmíði.
Sigurður segir ekki alveg ákveðið hvenær togarinn verður sjósettur en vonast til að það verði innan skamms.
Verkefnastaðan hjá Þorgeiri og Ellert er góð, segir Sigurður. Nóg sé að gera í viðhaldsvinnu og ekki útlit fyrir annað en að svo verði áfram. Um hvort fleiri nýsmíðaverkefni séu í pípunum segir hann að ekkert sé fast í hendi.
„Við fylgjumst með útboðsmarkaðnum og að fenginni þessari reynslu ætlum við svo sannarlega að reyna að krækja okkur í fleiri nýsmíðaverkefni.“