Það svarar yfirleitt ekki kostnaði að velta sér uppúr hvað hefði gerst ef og hefði þetta eða hitt verið gert en ekki það sem gert var. Þess vegna hefur maður ekki lagt það í vana sinn að gera slíkt. En ég get ekki varist þessari hugsun nú að loknum kjarasamningum. Við vorum á ársfundi ASÍ í haust þar sem við stilltum saman strengi okkar, öll landssambönd innan ASÍ, og ætluðum að fylgja eftir mjög vel unnum velferðartillögum. Þær voru í stórum dráttum þessar:
l Dregið verði úr hlut almennings í lyfjakostnaði.
l Biðlistum eftir félagslegu leiguhúsnæði verði eytt og niðurgreiðslur á húsaleigu í félagslegu leiguhúsnæði verði auknar.
l Endurskoða atvinnuleysisbótakerfið bæði hvað varðar upphæð bóta og virkar vinnumarkaðsaðgerðir.
l Staða barnafólks verði bætt með því að efla barnabótakerfið, bæta stöðu foreldra langveikra barna sem þurfa að hverfa af vinnumarkaði og þróa frekari rétt foreldra til launa meðan þau sinna veikum börnum.
Allt eru þetta þjóðþrifatillögur sem nauðsynlegt er að koma til framkvæmda. Þetta átti að gerast í tengslum við komandi kjarasamninga. Það var mjög góð samstaða um tillögurnar á þinginu og eftir þing. Haldnir voru fundir formanna landssambanda og stærstu félaga um málið og hvernig við ætluðum að vinna í því þegar að kjarasamningum kæmi. Síðan kom að kjarasamningum. Samstaðan brást. Starfsgreinasambandið óskaði eftir fundi með ríkisstjórn og fékk hann. Þeir tóku á móti lítilræði og sættu sig við það. Tillögur sem við ætluðum að vinna brautargengi í kjarasamningum gleymdust að mestu. Önnur landssambönd sátu hjá og gátu lítið að gert.
Maður kallar félaga sína ekki svikara og það ætla ég ekki gera. Það hljóta að vera mjög haldbærar skýringar fyrir þessum gjörningi. Ég hef bara ekki fengið að heyra þær. En það koma kjarasamningar að þessum gengnum, – eftir fjögur ár. Á meðan verðum við að reyna að koma þessum velferðartillögum okkar í framkvæmd með öðrum hætti og þrýsta svo eftir fjögur ár á það sem ekki hefur tekist að koma til framkvæmda. Við hljótum að meina það sem við erum að samþykkja á ASÍ- ársfundum.