Framkvæmdastjórn Samiðnar beinir því til allra aðildarfélaga sambandsins að þau styðji afgreiðslu- og þjónustubann á Sólbak EA-7. Jafnframt hvetur framkvæmdastjórn Samiðnar aðildarfélögin til að koma í veg fyrir að einstaka félagsmenn þjónusti Sólbak EA-7.
Deila Sjómannasambands Íslands og Útgerðarfélags Sólbaks snýst um hvort einstaka fyrirtæki geti gert kjarasamninga sem eru lakari en gildandi kjarasamningar segja til um. Deilan snýst því um grundvallaratriði sem snúa að okkur öllum og niðurstaða hennar mun því hafa áhrif á alla kjarasamninga í framtíðinni. Ef Útgerðarfélag Sólbaks kemst upp með að brjóta kjarasamninga með þessum hætti er spurningin hvenær kemur að okkur.
Það er von og vissa framkvæmdastjórnar Samiðnar að öll aðildarfélög sambandsins bregðist fljótt og vel við og það myndist órofa samstaða í verkalýðshreyfingunni til að knýja fram sigur í þessu mikilvæga máli.