Janus endurhæfing – valkostur við örorku

Nýtt líf eftir heilsuleysi

Velferðarsamfélag nútímans hleypur undir bagga með þeim sem geta ekki séð fyrir sér vegna veikinda, slysa eða annarra óviðráðanlegra áfalla: almannatryggingar, sjúkrasjóðir, lífeyrissjóðir – og örorkubætur. Undanfarna áratugi hefur kostnaður vegna örorkubóta hins vegar vaxið hröðum skrefum, svo sumum hefur þótt nóg um. Öðrum sýnist að öryrkjar fái ekki næga aðstoð. Eitt ráð við þessu er að hamla gegn fjölgun öryrkja, eða fækka í hópi þeirra, til dæmis með því að hjálpa fólki til sjálfshjálpar, aðstoða það við að finna lífi sínu nýjan farveg og geta unnið fyrir sér á ný. Um miðjan síðasta áratug setti Kristín Siggeirsdóttir iðjuþjálfi, sem hafði þá starfað lengi erlendis, fram slíkar hugmyndir. Í fyrstunni snerust þær eingöngu um að endurhæfa þá sem þjáðust af verkjum vegna stoðkerfissjúkdóma en síðar varð ljóst að endurhæfingin gæti náð til fleiri hópa fólks sem hafði orðið að hætta vinnu vegna veikinda. Kristín hafði samstarf við Sameinaða lífeyrissjóðinn um að stofna endurhæfingarstöð þar sem tengd yrðu saman menntir og heilbrigðisþjónusta og árið 1999 náðist samkomulag um að heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið legði fram fé til þess sem tilraunaverkefnis. Stofnað var fyrirtækið Janus endurhæfing, sem var í eigu Sameinaða lífeyrissjóðsins, og húsnæði fékkst í Vörðuskóla í Reykjavík, sem nú tilheyrir Iðnskólanum. Starfsemin hófst í ársbyrjun 2000 og þremur árum síðar var stofnað um hana eignarhaldsfélag tíu samtaka og félaga sem lögðu fram hlutafé til hins nýja félags. Þetta eru Efling – stéttarfélag, Félag bókagerðarmanna, Félag iðn- og tæknigreina, Félag járniðnaðarmanna, Trésmiðafélag Reykjavíkur, Verslunarmannafélag Reykjavíkur, Sameinaði lífeyrissjóðurinn og lífeyrissjóðir Norðurlands, Vestfirðinga og Vestmannaeyja.

Starfsmennta- verðlaun

Starfsemi Janusar endurhæfingar var vel tekið og í lok 2003 höfðu 80 manns hafið endurhæfingu. Tilrauninni er nú lokið og Janus endurhæfing þykir hafa sannað tilverurétt sinn. Segja má að það hafi verið innsiglað nú í september með því að Starfsmenntaráð og Mennt veittu Janusi endurhæfingu starfsmenntaverðlaun fyrir að aðstoða fólk við að komast aftur út í atvinnulífið. Og hróðurinn hefur borist út fyrir landsteinana því ýmsir erlendir aðilar hafa sýnt starfseminni áhuga. – Janus endurhæfing er fyrir fólk sem hefur átt við veikindi að stríða, hefur orðið að hætta að vinna vegna annarra áfalla eða ræður einfaldlega ekki við vinnuna og hefur orðið að gefast upp, segir Kristín Siggeirsdóttir, frumkvöðull Janusar endurhæfingar, og framkvæmdastjóri í hlutastarfi, við Samiðnarblaðið. Og nafnið segir hún sé dregið af rómverska guðinum sem hafði tvö andlit, stóð í dyragætt hvers heimilis og verndaði það, horfði inn á heimilin með öðru andlitinu en út til umheimsins og framtíðarinnar með hinu. Janus endurhæfing fékk til afnota gömlu húsvarðaríbúðina í Vörðuskóla. Kristín og Guðrún Áslaug Einarsdóttir, iðjuþjálfi og guðfræðingur, sviðsstjóri Janusar, segja að aðaláherslan sé lögð á sjálfa starfsemina, húsnæðið sé aukaatriði. Þær eru stoltar af því að lítið fé hefur farið í húsnæðið og húsbúnaður allur fengist að gjöf hjá stofnunum sem styðja starfsemina. Og húsnæðið er ekki stórt. Þeir starfsmenn sem þar starfa verða nánast að ná samkomulagi um hverja hreyfingu sína, og svo bætist við tólf manna hópur þátttakenda sem kemur saman í gömlu stofunni húsvarðarins á hverjum morgni á meðan á endurhæfingunni stendur. – Þröngt mega sáttir sitja. Við köllum þetta „hreiðrið“ og aðalatriðið er að fólki líði vel hérna. Það er líka reyndin, við fáum mikil viðbrögð og þakkir frá fólki sem hefur verið hérna og sumir líta inn í kaffi eftir að þeir eru farnir út í atvinnulífið aftur, segja þær. Til að komast að hjá Janusi þurfa þátttakendur að hafa lokið allri læknismeðferð og vera ákveðnir í að vilja fara aftur út í atvinnulífið. Flestir hafa þjáðst af sjúkdómum sem tengdir eru stoðkerfi líkamans, sumir eru með hjarta- eða lungnasjúkdóma eða húðsjúkdóma, aðrir eiga við félagsleg vandamál að stríða, allmargir þjást af geðrænum vandamálum. Meðalaldur fólksins er 40 ár, hinir yngstu 23 ára, þeir elstu 57 ára. Það er einstaklingsbundið hve langan tíma endurhæfingin tekur, hún getur tekið allt að einu ári. Stundaskráin er fjölbreytt, hver dagur hefst á fræðslu með heilbrigðisstarfsmönnum þar sem fram fer heilsuefling og sjálfsefling. Það sem eftir lifir dags stunda þátttakendur meðal annars líkamsþjálfun í íþróttasal skólans hjá sjúkraþjálfurum og sækja tíma í félagsfræði, tölvufræðslu, íslensku og hönnun hjá sex kennurum Iðnskólans, sem leggja Janusi lið. Þeir þátttakendur sem treysta sér til þess geta sótt tíma með öðrum nemendum Iðnskólans. Í allri kennslu er hverjum og einum sinnt sérstaklega og iðjuþjálfar eða aðrir heilbrigðisstarfsmenn Janusar eru ætíð nærri. Þetta nám hefur hjálpað mörgum til að fóta sig í lífinu, handleiðsla kennaranna er dýrmæt og sumir hafa fundið sér nýja möguleika. Í byrjun þessa árs viðurkenndi menntamálaráðuneytið námið í endurhæfingu Janusar til sex valeininga á framhaldsskólastigi, sem gerir fólki kleift að halda áfram námi og finna lífi sínu nýjan farveg. – Aðalatriðið er að hér tekur hver um sig til í eigin lífi. Margir þátttakendanna eru útskrifaðir frá læknum en ekki nógu frískir til að stökkva út í atvinnulífið. Við erum ekki í hvítum sloppi, þetta er ekki venjuleg stofnun. Við einblínum ekki á vandamálin heldur lausnirnar, hið fríska í einstaklingunum. Hver og einn er sérfræðingur í sjálfum sér, skipstjóri í sinni brú, en við erum til aðstoðar og reynum að horfa á alla myndina. Við reynum að hjálpa okkar fólki við að skapa sér nýtt líf, efla sjálfsímyndina og sjálfstraustið, segir Kristín. Einn liður í endurhæfingunni er að Janus hefur náð samkomulagi við Íslandsbanka um ráðgjöf og hjálp við að leysa fjármálin því fólk getur misst heilsuna af því einu að missa stjórn á fjármálunum, sjá ekki út úr reikningasúpunni. Félagsráðgjafi stýrir ferlinu og fylgir eftir ráðum bankamannanna, sem eru vitanlega hin sömu og til annarra, en alúðin er ef til vill meiri – og ráðunum er fylgt eftir. Það er einmitt eitt af lykilorðunum, eftirfylgni, í þessu sem öðru, þar til fólk getur fótað sig eitt og óstutt í flóknu og oft hörðu samfélagi nútímans.

Athyglisverður árangur

Þetta er fjórða starfsár Janusar og nokkur reynsla komin á starfið. Af þeim 80 sem höfðu um síðustu áramót nýtt sér endurhæfingu Janusar eru 17 í vinnu á almennum vinnumarkaði, tveir á vernduðum vinnustað, níu eru í framhaldsnámi, tveir eru að leita sér að atvinnu, 17 enn í endurhæfingu en 25 eru áfram á örorkubótum og átta þurftu á öðrum úrræðum að halda. Rúmlega helmingur þátttakenda í endurhæfingunni hefur komið til Janusar fyrir tilstilli lífeyrissjóðanna en aðrir frá Tryggingastofnun ríkisins og félagsþjónustunni í Reykjavík. Einnig hefur verið gerður þjónustusamningur við Eflingu – stéttarfélag og Verslunarmannafélag Reykjavíkur um að tíu einstaklingar frá hvoru félagi taki þátt í þriggja mánaða námskeiði þar sem fólk sem hefur verið stuttan tíma frá vinnu eða er að flosna upp er endurhæft svo það geti snúið aftur til vinnu. – Nokkrir hafa komið utan af landi og orðið að flytja suður til að geta stundað endurhæfinguna. Draumurinn er að færa starfsemina út á land og nýta þar þekkinguna og reynsluna sem hefur skapast hér í Reykjavík. Við getum starfað hvar sem er á landinu þar sem er framhaldsskóli, heilbrigðisstofnun og bankastarfsemi, segja þær Kristín og Guðrún. Starfsfólk Janusar, fastráðið og verktakar, sem eru sálfræðingur og læknar, vinnur stöðugt að innri þróun og gæðaeftirliti. Í fyrrasumar fékk fastráðna starfsfólkið styrk frá BHM til að fara í fræðsluferð til Svíþjóðar og Danmerkur og á árinu birtist grein eftir starfsfólkið í bandaríska tímaritinu Work um árangurinn til þessa. Kennarar í framhaldsnámi í námsráðgjöf við Háskóla Íslands rannsökuðu starfsemi Janusar og skrifuðu lokaritgerð um rannsóknina. Í niðurstöðum þeirra kemur meðal annars fram almenn ánægja með starfsfólk Janusar endurhæfingar og hvernig starfsemin er tengd við Iðnskólann, þar sem námið opni nýja sýn á framtíðarmöguleika þátttakendanna.