Þröstur Haraldsson ræðir við Arne Johansen forseta Evrópusambands byggingar- og trjáiðnaðarmanna um áhrifin af stækkun ESB á norrænan vinnumarkað
Snemma í september var tíðindamaður Samiðnarblaðsins á ferð um Pólland og Danmörku. Tilgangur ferðarinnar var að kynna sér hvaða áhrif stækkun Evrópusambandsins getur haft á vinnumarkað á Norðurlöndum. Í umræðum um Evrópumálin hefur oft komið fram að margir óttast mikinn straum af innfluttu verkafólki, faglærðu jafnt sem ófaglærðu, frá nýju aðildarlöndunum þegar landamærin verða opnuð á næstu árum. Menn spyrja hvort fólk sem hingað til hefur mátt sætta sig við laun og kjör sem eru langt undir því sem viðgengst á Norðurlöndum geti ekki orðið til þess að grafa undan félagslegum réttindum, launakjörum og velferðarþjónustu sem eru afrakstur verkalýðsbaráttunnar.
Meðal viðmælenda minna í ferðinni voru tveir forystumenn í verkalýðshreyfingu Póllands og Danmerkur. Í Gdansk hitti ég að máli unga konu, Katarzynu Sobon, sem starfar að Evrópumálum á skrifstofu Samstöðu í borginni. Viðtalið við Katarzynu birtist hér fyrir aftan, en í Kaupmannahöfn átti ég viðtal við Arne Johansen sem er formaður Sambands byggingar- og trjáiðnaðarmanna í Danmörku. Hann var reyndar kjörinn forseti Evrópusambands byggingar- og trjáiðnaðarmanna (e. European Federation of Building and Wood Workers, EFBW) um síðustu áramót og hann hefur verið varaformaður Sambands norrænna byggingarmanna um árabil.
Ekki vandamál heldur tækifæri
Ég spurði Arne Johansen fyrst hvaða vandamál hefðu helst fylgt stækkun ESB? – Ég vil ekki líta á það sem vandamál heldur sem ný verkefni og tækifæri. Með því að stækka ESB og taka inn næstu nágrannalönd opnast okkur nýir markaðir. Við vitum að efnahagslíf þessara landa einkennist af lítilli framleiðslu, lágum tekjum og miklu atvinnuleysi. En þar er mikið af hráefnum, til dæmis trjám svo við höldum okkur við fagið, og líka af vinnuafli. Möguleikarnir eru fólgnir í því að láta draum okkar rætast um stóran og öflugan markað þar sem við getum þróað Evrópu á lýðræðislegan hátt, öllum heiminum til góða, Evrópu sem getur verið verðugt mótvægi við Bandaríkin, og samstarfsaðili þeirra um leið. Við stækkunina fjarlægjum við ýmsar hindranir sem hingað til hafa verið á samstarfi okkar við þessi nýju ríki. Við verðum hins vegar að hafa hugfast að danskir og norrænir iðnaðarmenn hafa um langan aldur ferðast til annarra landa og sótt þangað menntun og atvinnu. Norræn fyrirtæki hafa líka sótt til útlanda, bæði í Evrópu og öðrum álfum. Þess vegna er fullkomlega eðlilegt að iðnaðarmenn nýju aðildarlandanna sæki þangað sem störfin eru núna. Við verðum að taka vel á móti þeim og þeir verða að starfa samkvæmt dönskum reglum og ganga í dönsk stéttarfélög. Þeir eiga líka að fá að njóta sömu félagslegu réttinda og við. Það má fullyrða að vandamálin voru meiri áður en Evrópusambandið stækkaði. Þá komu starfsmenn að austan á ólöglegan hátt til Vestur-Evrópu. Við stóran hluta þeirrar miklu uppbyggingar sem varð í Berlín eftir sameiningu Austur- og Vestur-Þýskalands unnu til dæmis verkamenn sem þannig var ástatt um. Þeir voru ekki í stéttarfélögum og nutu verri kjara en kollegar þeirra í Þýskalandi, launin voru lægri, félagsleg réttindi lítil og öryggið ekkert. Um tíma voru allt að 600 þúsund manns að störfum í Berlín sem ekki komu til landsins með löglegum hætti. Flestir voru frá Austur-Evrópu en einnig voru þar margir frá Kína og Norður-Afríku. Nú gefst tækifæri til að koma lögum yfir þessa starfsemi. Það sem við þurfum að gera er að taka vel á móti aðfluttu vinnuafli, sjá til þess að allar reglur séu haldnar hjá okkur og samtímis aðstoða stéttarfélög í nýju aðildarríkjunum svo þau geti bætt lífskjörin í sínum löndum. Við vitum að nýju aðildarríkin eru menningarlönd þar sem fólk er almennt læst og skrifandi og menntun á nokkuð háu stigi. Hins vegar búa þau við landbúnað og iðnað sem ekki stenst samanburð við það sem við þekkjum. Með því að hjálpa þessum löndum getum við stuðlað að því að eftir 5–10 ár verði þar vel rekin hagkerfi þar sem markaðurinn kallar á vörur sem við getum framleitt og selt þeim.
Styðjum stéttar- félögin eystra
Arne Johansen sagði í viðtali við Fagbladet TIB þegar hann tók við embætti forseta EFBW að mikilvægasta verkefnið væri að fá Evrópusambandið til að taka vandamálið félagslegan afslátt alvarlega. Hvernig hefur það gengið? – Ég verð að viðurkenna að það hefur gengið hægar en ég vonaðist til á þeim samstarfsvettvangi sem við höfum aðgang að, bæði hvað varðar stéttarfélög í nýju aðildarlöndunum og einnig við atvinnurekendur, Evrópuþingið og framkvæmdastjórn ESB. Mér hefur fundist að hinir nýju félagar okkar séu ekki nógu virkir og hafi ekki nægan skilning á þeim nýja veruleika sem þeir eru orðnir hluti af. Ég veit að þetta stafar meðal annars af því að stéttarfélögin eru veik og hafa ekki fjárhagslega burði til að gera mikið. Þess vegna þurfum við að leggja okkur fram um að styrkja þau og efla svo þau nái sömu stöðu og félög okkar hafa. Hér í Danmörku heyrðust þær raddir á sínum tíma að stækkun ESB mundi leiða til þess að hingað streymdi vinnuafl frá nýju aðildarríkjunum. Í flestum samtökum byggingarmanna eru mörg mál í gangi þar sem við sögu koma klókir milliliðir og vafasöm fyrirtæki sem reyna að auka samkeppnishæfni sína með því að greiða innfluttu verkafólki lægri laun en félögin hafa samið um. Ég lít hins vegar á þessi mál eins og hvert annað viðfangsefni stéttarfélaga þótt í hlut eigi fólk sem talar annað tungumál. Vissulega bætir þetta á annir okkar en þessi mál eru alls ekki óleysanleg. Þátttaka í stéttarfélögum er ekki sérlega mikil í nýju aðildarríkjunum. Hafa menn raunverulegan áhuga á því á vettvangi ESB að auka hana? – Já, og þar höfum við þegar náð nokkrum árangri. Sú vinna hófst hins vegar löngu fyrir 1. maí. Norrænu félögin hafa verið virk í Eystrasaltslöndunum árum saman. Danska verkalýðshreyfingin hefur einnig verið virk í Póllandi og við í TIB höfum starfað í Rúmeníu. Evrópsk verkalýðshreyfing hefur skipt með sér verkum hvað þetta varðar. Starfsemi stéttarfélaga er mjög misjöfn í þessum löndum. Í Tékklandi og Slóvakíu eru þau mjög öflug og vel starfandi, í Ungverjalandi eru þau heldur verr á vegi stödd, í Póllandi kunna menn til verka við skipulag stéttarfélaga en það háir þeim að félögin eru klofin og í sumum greinum er samkeppni á milli félaga. Það vantar ekki viljann til að koma á góðu skipulagi en þá vantar stuðning til að koma hlutunum í framkvæmd.
Tvö sjónarmið
Í ljósi þess hve erfiðlega hefur reynst að koma böndum yfir óprúttna milliliði og ráðningarfyrirtæki er þá von til þess að hægt verði að halda uppi einhverjum vörnum þegar landamærin opnast eftir tvö ár eða svo? – Þegar stækkunin var til umræðu komu fram mismunandi sjónarmið. Sum ríkjanna, Finnland en þó sérstaklega Austurríki og Þýskaland, vildu helst loka landamærunum í þau sjö ár sem leyfilegt var að gera undanþágur. Hugsunin var sú að við yrðum að reisa múra og verja okkur fyrir þessu hættulega fólki að austan. Gegn þessu sjónarmiði stóðu Danir og Svíar sem sögðu: Við erum alveg nógu öflug til að mæta þessum vanda. Þeir eru velkomnir og engin þörf á sérstökum reglum um fólk og fyrirtæki að austan. Því miður fór umræðan hér í Danmörku inn á villigötur, ekki síst vegna hræðsluáróðurs hægriflokksins Dansk Folkeparti. Viðbrögð verkalýðshreyfingarinnar voru þau að fallast á tilteknar hömlur. Við sögðum sem svo að best væri að setja sveigjanlega löggjöf sem dygði til að verja danskt velferðar- og vinnuréttarkerfi án þess að við þyrftum að loka landamærunum. Við gerðum því samkomuleg við atvinnurekendur og ríkisstjórnina um nýjar reglur. Nú hafa þær verið í gildi í hálft ár og við skipuðum nefnd til að fylgjast með því hvort þær skiluðu tilætluðum árangri. Þær virðast í öllum aðalatriðum hafa gert það en þó hafa komið í ljós nokkrir hnökrar á samstarfi útlendingaeftirlitsins, lögreglu og dómstóla sem þarf að lagfæra. En þessir hnökrar eru ekki það alvarlegir að það þurfi að endurskoða reglurnar, þær hafa virkað eins og til var ætlast. Svo má velta því fyrir sér hvort löndunum sem gripu til harðari aðgerða hefur gengið eitthvað betur. Ef við lítum til Þýskalands þá virðast vandamálin hjá þeim vera alveg þau sömu og áður. Þetta rennir stoðum undir helstu röksemd okkar sem var sú að við leysum engan vanda með því að múra hann inni, það þarf að takast á við hann. Markmiðið þarf að vera að styrkja stéttarfélögin í öllum aðildarríkjunum og gera þeim kleift að takast á við vandann og sýna atvinnurekendum fram á að almenningur stendur þétt að baki verkalýðshreyfingunni. Við leysum þó sennilega aldrei þann vanda að í öllum samfélögum á öllum tímum eru til duglegir og vel menntaðir einstaklingar sem hafa bara eitt markmið: að finna glufur á löggjöfinni sem þeir geta hagnýtt sér til að maka krókinn. Við verðum bara að sætta okkur við það.
Kaupum vörurnar þeirra!
Hvernig sérðu fyrir þér að kjarajöfnunin verði á milli austurs og vesturs? Hækka þeir í launum eða lækkum við? – Þar getum við litið til reynslunnar sem Evrópusambandið hafði af því að taka við löndum á borð við Spán, Portúgal, Grikkland og Írland sem voru töluvert fátækari en þáverandi aðildarlönd. Við Danir höfum verið með frá 1972 svo við þekkjum þetta. Þegar Portúgal og Spánn gengu í ESB var því spáð að verkafólk þaðan streymdi til Danmerkur. Ég held að það hafi komið 800 Portúgalar með löglegum hætti. Hugsanlega komu einhverjir ólöglega en fjöldinn var óverulegur. Ég held að það sama gildi um Pólland og önnur ríki Austur-Evrópu. Ef við lítum á málin af raunsæi þá sjáum við að flestir íbúar þessara landa eru fjölskyldufólk sem hefur engan sérstakan áhuga á því að rífa sig upp með rótum og flytja fjölskylduna í annað land. Ekki ef það hefur möguleika á að búa við þolanlegar aðstæður í heimalandi sínu. Ég held að Pólverjar sætti sig við það að fyrst um sinn verði nokkur munur á lífskjörum þeirra og okkar. En markmið okkar hér í vestrinu hlýtur að vera að lífskjör þeirra batni og það nálgumst við best með því að gera það sem hefur einkennt Evrópusambandið frá upphafi: við kaupum vörurnar sem þeir framleiða fyrir austan. Það sem gæti þó komið í veg fyrir þetta er stuðningur ESB við landbúnaðinn hér í vestrinu. Um þessar mundir fá bændur sem nemur 180 íslenskum krónum á dag í styrk fyrir hverja kú sem þeir eiga. Þetta fer langt í að framfleyta heilli fjölskyldu í nýju aðildarríkjunum en við veitum þetta fé í styrki til dansks landbúnaðar sem stendur vel og gæti alveg bjargað sér án styrkja. Það væri nær að verja þessu fé til að byggja upp mjólkurframleiðsluna í nýju aðildarríkjunum þar sem er víða gott undir bú. Skýrslur sýna hins vegar að tæknilega er pólskur landbúnaður á sama stigi og danskur landbúnaður var á fjórða áratug síðustu aldar, vélvæðing er lítil, hestar eru víða notaðir til dráttar og mannaflsþörfin er mikil. Ef pólskir bændur fá í hendur nýtísku vélar og tæki geta þeir hafið sama ferlið og danskur landbúnaður hefur gengið í gegnum, það er að losa um vinnuafl sem iðnaðurinn getur hagnýtt sér. Þetta er mikilvægt verkefni því að besta leiðin til að verja velferðarkerfi okkar er að styrkja íbúa nýju aðildarríkjanna til þess að gera sömu kröfur og við til samfélagsins. Þetta er leið jöfnuðar og samstöðu sem verkalýðshreyfingin aðhyllist og eina leiðin sem fær er til að tryggja þann félagslega árangur sem við höfum náð.
Heldur hann rétt á hamrinum?
Starfsréttindamálin hafa verið mikið til umræðu í tengslum við stækkunina þar sem verið er að reyna að koma á samræmdu evrópsku sveinsbréfi í hverri grein. – Já, við reynum að átta okkur á því hvert innihald starfsréttindanna er í mismunandi löndum og það getur verið afar ólíkt. Best væri að hægt væri að gefa út sveinsbréf sem segði nákvæmlega hver menntun okkar væri og mætti líkja við vegabréfin okkar. Á Norðurlöndum og víðar í vestanverðri Evrópu erum við komin vel á veg með þetta þar sem við höfum bundið réttindin í kjarasamninga þar sem laun manna fara eftir menntunarstigi þeirra. Einnig eru í gildi reglur um löggildingu iðnaðarmanna, sem verður að vera til staðar ef menn vilja vinna tiltekin störf. Þetta kerfi má styrkja með ýmsu móti, svo sem að gera þá kröfu þegar verk eru boðin út að viðurkenndir iðnmeistarar taki ábyrgð á þeim. Ef verktakar kjósa að láta ófaglærða menn annast verkið þá bera meistararnir ábyrgð á að þau séu unnin í samræmi við gæðastaðla. En hvað ef útlendir menn sýna pappíra upp á að þeir eru iðnmenntaðir en engin leið er að fá réttmæti pappíranna staðfest? – Auðveldast er náttúrlega að láta menn gangast undir próf og athuga hvort þeir kunna til verka. Ef viðkomandi heldur í öfugan enda á hamrinum er rétt að senda hann heim aftur. En án gríns þá hlýtur það að vera á ábyrgð atvinnurekenda að ráða ekki til starfa menn sem ekki geta unnið verkin. Ef málið snýst um að fólki séu ekki greidd samningsbundin laun eða það hlunnfarið á annan hátt þá heyrir það til daglegra verkefna hvers stéttarfélags að vinna gegn slíku. Það verkefni einskorðast ekki við útlendinga heldur líka okkar eigið fólk og ef við stöndum okkur ekki í því þá hljótum við að spyrja okkur hvort ekki sé eitthvað bogið við starfshætti félagsins. Komist félögin að þeirri niðurstöðu að verið sé að fara vísvitandi á svig við lögin þá heyrir málið ekki undir stéttarfélögin heldur lögregluna. Félögin geta ekki staðið í því að stunda rannsóknir á sakamálum, til þess höfum við lögreglu og dómstóla, sagði Arne Johansen.