Launakerfi, undirbúningur og upptaka hvetjandi launakerfa

14.1      Launakerfi

14.1.1.          
Launakerfi skulu byggjast á fastlaunakerfi og/eða hvetjandi launakerfum.

14.1.2.          
Stefnt skal að því að hvetjandi launakerfi spanni sem mest af starfssviði starfsmanna, að meðtöldum þeim þáttum, sem unnir eru af starfsmönnum utan Samiðnar.

14.1.3.          
Í byggingariðnaði skulu gerðir skriflegir samningar milli aðila um öll hvetjandi launakerfi, sem notuð eru í iðngreinum, einnig skal stefnt að því að önnur stéttarfélög, sem hlut eiga að máli, verði aðilar að slíkum samningum.

14.1.4.          
Stefnt skal að sem víðtækastri samræmingu hvetjandi launa­kerfa milli starfsgreina í byggingariðnaði, eftir því sem við verður komið, einkum þar sem verksvið greinanna skarast.

14.2.     Undirbúningur og upptaka hvetjandi launakerfa

14.2.1.          
Við undirbúning og upptöku hvetjandi launakerfa, skal hafa hlið­sjón af samningi VSÍ, VMS og ASÍ „Leiðbeiningar um undir­búning og framkvæmd vinnurannsókna“ frá 29. janúar 1972.

14.2.2.          
Áður en framkvæmd er hafin á viðkomandi vinnustöðum, skal hafa samráð við samningsaðila (viðkomandi sveinafélög og félög atvinnurekenda) og þarf samþykki þeirra áður en launa­kerfin eru formlega tekin í notkun. Slíkt samkomulag skal kynnt samningsaðilum.

14.2.3.          
Við upptöku ákvæðis- eða bónusvinnu skal atvinnurekandi hafa samráð við viðkomandi stéttarfélag og um þann lág­marks­tíma, sem slík tilhögun skal standa.

14.2.4.           Málmiðnaðarmenn

Málmiðnaðarmenn sem vinna í beinum tengslum við tíma­mælda ákvæðisvinnu, sbr. leiðbeiningar um undirbúning og framkvæmd vinnurannsókna sem samþykktar voru af ASÍ, VSÍ og VMS 29. janúar 1972, þar sem hún stjórnar vinnu­hraðanum, skulu eiga rétt á launauppbót, sem tekur mið af bónustekjum í viðkomandi framleiðslulínu og af vinnuálagi viðkomandi starfs.

14.2.5.           Bílgreinar

Þegar erlend staðaltímakerfi eru notuð sem grundvöllur bónus­vinnu, skulu aðilar (Samiðn og viðkomandi verkstæði) koma sér saman um leiðréttingar á þeim. En meginreglan verði sú að þeir séu aðhæfðir viðkomandi verkstæði að fenginni reynslu.

Þegar ný launakerfi eru tekin í notkun, skulu þau hafa ákveð­inn umsaminn reynslutíma og sæta endurskoðun að honum loknum. Þetta gildir einnig um endurskoðun þeirra launakerfa, sem nú gilda á bifreiðaverkstæðum.

14.2.6.          
Aðilar eru sammála um að beita sér fyrir því að bæði fyrir­tækjum í iðngreinum og starfsmönnum þeirra verði kynntir þeir ýmsu möguleikar, sem fyrir hendi eru, til uppbyggingar launakerfa, og stuðla þannig að aukinni þekkingu á þeim.