2.1.1.
Dagvinna skal vera 40 klst. á viku (virkur vinnutími 37 klst. og 5 mínútur) á tímabilinu frá kl. 07:00 til kl. 18:00.
2.1.2.
Dagvinna skal unnin 5 daga vikunnar, frá og með mánudegi til og með föstudegi, og skal dagvinnutími á hverjum degi vera jafn langur eða 8 klst. á degi hverjum. Dagvinna skal hefjast á tímabilinu 07:00 til 08:00.
2.1.3.
Heimilt er með samkomulagi meirihluta starfsmanna og fyrirtækis að haga dagvinnutíma með öðrum hætti. Yfirvinna hefst þó aldrei síðar en kl. 18:00. Dagvinna skal ávallt unnin með samfelldri vinnuskipan á degi hverjum. Upphaf dagvinnu hvers starfsmanns skv. slíku samkomulagi verður ekki breytt nema að undangenginni uppsögn eða með nýju samkomulagi.
2.2.1.
Yfirvinna telst frá því dagvinnu lýkur á mánudögum til og með föstudögum þar til dagvinna hefst að morgni. Á laugardögum, sunnudögum og helgidögum greiðist yfirvinnukaup, sbr. gr. 1.4.
2.2.2.
Hafi verið unnin reglubundin yfirvinna í tvo mánuði eða meira ber að tilkynna fyrirhugaðar breytingar þar á með minnst tveggja vikna fyrirvara. Fyrirvari er háður því að ekki sé um óviðráðanlegar orsakir að ræða. Efnisskortur telst í þessu sambandi ekki til óviðráðanlegra orsaka.
2.3.1.
Komi starfsmaður of seint til vinnu, á hann ekki kröfu til kaups fyrir þann tíma sem áður var liðinn.
2.3.2.
Yfirvinnu skal ekki greiða fyrr en samningsbundnum dagvinnustundum dag hvern hefur verið skilað. Þetta frestar þó aldrei upphafi yfirvinnu meira en sem nemur tveimur klst. eftir að hefðbundinni dagvinnu lýkur og ekki eftir kl. 18:00.
Þetta á þó ekki við þar sem viðhaft er annað fyrirkomulag um launaskerðingu vegna mætinga, eða þegar starfsmaður kemur of seint af óviðráðanlegum ástæðum að mati beggja aðila.
2.3.3.
Á sama hátt er heimilt að gera samkomulag um frávik frá umsömdum upphafstíma vinnu.
2.4. Helgidaga- og stórhátíðavinna
2.4.1. Helgidagar eru:
Skírdagur
Annar í páskum
Sumardagurinn fyrsti
1. maí
Uppstigningardagur
Annar í hvítasunnu
Frídagur verslunarmanna
Annar í jólum
2.4.2. Stórhátíðadagar eru:
Nýársdagur
Föstudagurinn langi
Páskadagur
Hvítasunnudagur
17. júní
Aðfangadagur jóla eftir kl. 12:00
Jóladagur
Gamlársdagur eftir kl. 12:00
2.4.3.
Aðfangadag jóla og gamlársdag reiknast dagvinnutími til kl. 12:00 á hádegi.
2.5.1.
Heimilt er að samræma upphafsvinnutíma og neyslutíma þeirra starfshópa sem vinna á sama vinnustað, ef samkomulag verður um það milli atvinnurekanda og starfsmanna, enda sé það borið undir starfsmenn sameiginlega.
2.5.2.
Þar sem þess er óskað að tímaskráning fari fram eftir stimpilklukku er starfsmönnum skylt að stimpla viðverutíma sinn, enda taki það til allra starfsmanna fyrirtækisins.
2.6. Falli vinna niður af óviðráðanlegum orsökum
2.6.1.
Falli vinna niður vegna óhagstæðs veðurs eða annarra orsaka, sem starfsmaður á ekki sök á, greiðist fullt dagvinnukaup. Sjá þó lög nr. 19/1979. Heimilt er, þegar þannig stendur á, að fela starfsmanni önnur störf.
2.7. Frí í stað yfirvinnukaups
2.7.1.
Tvenns konar fyrirkomulag kemur til greina þegar frídögum vegna yfirvinnu er safnað. Með samkomulagi starfsmanns og atvinnurekanda er annað hvort hægt að safna vinnustundum í yfirvinnu og greiða yfirvinnuálagið (gr. 2.7.2.) eða safna yfirvinnustundum og umreikna yfir í dagvinnustundir (gr. 2.7.3.). Samkomulag skal vera um frítöku og hún skipulögð þannig að sem minnst röskun verði á starfsemi.
2.7.2.
Dæmi: Tímalaun starfsmanns eru t.d. 500 kr/klst. í dagvinnu og 900 kr/ klst. í yfirvinnu. Samkomulag er um að næstkomandi átta yfirvinnutímar greiðist þannig að yfirvinnuálagið sé greitt út (900 – 500 = 400 kr/klst.) en yfirvinnutímar komi til uppsöfnunar. Þegar starfsmaðurinn tekur út fríið, heldur hann dagvinnulaunum sínum (500 kr/klst.) í átta tíma.
2.7.3.
Breyta má unnum yfirvinnutímum í frí á dagvinnutímabili á þann hátt að ein klukkustund í yfirvinnu jafngildir 1,8 klst. í dagvinnu (4,44 klukkustundir í yfirvinnu jafngilda 8 klukkustundum í dagvinnu).
2.8.1. Daglegur hvíldartími
Vinnutíma skal haga þannig að á hverjum sólarhring, reiknað frá byrjun vinnudags, fái starfsmaður a.m.k. 11 klst. samfellda hvíld. Verði því við komið skal dagleg hvíld ná til tímabilsins milli kl. 23:00 til 06:00.
Óheimilt er að skipuleggja vinnu þannig að vinnutími fari umfram 13 klst.
2.8.2. Frávik og frítökuréttur
Við sérstakar aðstæður má lengja vinnulotu í allt að 16 klst. Verði því við komið skal starfsmaður fá 11 klst. hvíld í beinu framhaldi af vinnunni án skerðingar á rétti til fastra launa.
Fái starfsmaður ekki 11 klst. hvíld á sólarhring m.v. venjubundið upphaf vinnudags (vinnusólarhringinn) skal veita uppbótarhvíld sem hér segir: Sé starfsmaður sérstaklega beðinn að mæta til vinnu áður en 11 klst. hvíld er náð ber honum uppbótarhvíld sem nemur 1½ klst. (dagvinna) fyrir hverja klst. sem hvíldin skerðist. Heimilt er að greiða út ½ klst. (dagvinna) af frítökuréttinum.
Vinni starfsmaður það lengi á undan hvíldardegi að ekki náist 11 stunda hvíld miðað við venjubundið upphaf vinnudags reiknast frítökuréttur skv. 2. mgr. Komi starfsmaður til vinnu á hvíldardegi er greitt fyrir unninn tíma auk þess sem frítökuréttur reiknast skv. 2. mgr.
Framangreind ákvæði eiga þó ekki við á skipulegum vaktaskiptum en þá er heimilt að stytta hvíldartíma í allt að átta klst.
Heildarfrítökuréttur vegna vinnu á sama sólarhring getur þó aldrei orðið meiri en sem nemur tíu dagvinnutímum.
Uppsafnaður frítökuréttur skv. framangreindu skal koma fram á launaseðli og veittur í hálfum og heilum dögum utan annatíma í starfsemi fyrirtækis í samráði við starfsmenn. Við starfslok skal ónýttur frítökuréttur starfsmanns gerður upp og teljast hluti ráðningartíma.
Útköll
Ef starfsmaður er kallaður til vinnu eftir að venjulegum vinnudegi er lokið skal fara með eins og hér segir:
Ljúki útkalli fyrir kl. 00:00 myndast ekki frítökuréttur ef starfsmaður nær samanlagt 11 klst. hvíld frá upphafi reglulegs vinnudags til upphafs þess næsta (vinnusólarhringur). Ef samfelld hvíld fer niður fyrir 8 klst. gildir grein 2.8.3.
Ef útkalli lýkur á tímabilinu kl. 00:00 – 06:00 reiknast ekki frítökuréttur ef 11 klst. samfelld hvíld næst fyrir eða eftir útkallið. Að öðrum kosti skal frítökuréttur miðast við muninn á lengstu hvíld og 11 klst.
2.8.3. Hvíld undir 8 klst.
Komi upp sérstakar aðstæður vegna nauðsynlegs viðhalds eða verði truflun á starfsemi vegna ytri aðstæðna svo sem vegna veðurs eða annarra náttúruafla, slysa, orkuskorts, bilana í vélum, tækjum eða öðrum búnaði eða annarra ófyrirséðra atburða og koma verður í veg fyrir verulegt tjón, er heimilt að stytta hvíld niður fyrir 8 klst.
Fái starfsmaður ekki 8 klst. hvíld á vinnusólarhringnum skal hann, auk frítökuréttar skv. gr. 2.8.2., fá greidda 1 klst. í yfirvinnu fyrir hverja klst. sem hvíldin fer niður fyrir 8 klst.
2.8.4. Vikulegur frídagur
Á hverju sjö daga tímabili skal starfsmaður hafa a.m.k. einn vikulegan frídag sem tengist beint daglegum hvíldartíma og skal við það miðað að vikan hefjist á mánudegi.
2.8.5. Frestun á vikulegum frídegi
Þegar ekki er unnið í vaktavinnu skal almennt miða við að vikulegur frídagur sé á sunnudegi og að allir þeir sem starfa hjá sama fyrirtæki eða á sama fasta vinnustað fá frí á þeim degi.
Heimilt er með samkomulagi við starfsmann að fresta vikulegum frídegi þannig að í stað vikulegs frídags komi tveir samfelldir frídagar á tveim vikum. Töku frídaga má haga þannig að þeir séu teknir aðra hverja helgi (laugardag og sunnudag). Í sérstökum tilvikum má fresta vikulegum frídegi lengur þannig að starfsmaður fái samsvarandi hvíld innan 14 daga.
Falli frídagar á virka daga vegna ófyrirséðra orsaka skerðir það ekki rétt starfsmanns til fastra launa og vaktaálags.
2.8.6. Hlé
Starfsmaður á rétt á a.m.k. 15 mínútna hléi ef daglegur vinnutími hans er lengri en sex klst. Kaffi- og matarhlé teljast hlé í þessu sambandi.
Hvað varðar gildissvið, hvíldartíma, vinnuhlé og fleira vísast til samnings ASÍ og VSÍ frá 30. desember 1996 um ákveðna þætti er varða skipulag vinnutíma og fylgir samningi þessum sem fylgiskjal og telst hluti hans, sem og samhljóða samnings ASÍ og VMS (sjá bls. 65). Framangreind ákvæði eru til fyllingar 13. gr. þess samnings.
2.9.1.
Heimilt er með samkomulagi við starfsmenn að setja á bakvaktir sem ná til hluta eða allra starfsmanna fyrirtækisins.
2.9.2.
Á bakvakt skal viðkomandi vera reiðubúinn að sinna útkalli.
2.9.3.
Fyrir útkall á bakvakt skal starfsmaður fá greitt fyrir unnin tíma þó að lágmarki þrjár klst., nema dagvinna hefjist innan tveggja stunda frá því að hann kom til vinnu, þó fari aldrei saman bakvaktagreiðslur og yfirvinnugreiðslur.
2.9.4.
Fyrir hverja klukkustund á bakvakt þar sem vakthafandi starfsmaður er bundinn heima við síma fær hann greitt sem svarar 33% dagvinnustundar.
2.9.5.
Fyrir bakvakt þar sem starfsmaður er bundinn með símboða eða svipuðu tæki og er tilbúinn til vinnu strax og til hans næst, þá greiðist 16,5% af dagvinnukaupi fyrir hverja klst. á bakvakt.
2.9.6.
Við það er miðað að bakvaktir séu ekki settar á í skemmri tíma en 4 klst. á virkum dögum og 8 klst. um helgar.
2.9.7.
Fyrir upphaf bakvaktar skal ganga þannig frá búnaði, að lágmarks möguleikar verði á því að til útkalls komi á eftirfarandi bakvakt.
2.10.1.
Heimilt er að vinna á vöktum þannig að vaktavinna nái til hluta eða allra starfsmanna fyrirtækisins.
2.10.2. Vaktavinnutímabil / Fyrirvari / Uppsögn
Við upptöku vakta ber að hafa samráð við hlutaðeigandi starfsmenn um útfærslu vaktanna og tilkynna viðkomandi stéttarfélagi um fyrirkomulag.
Sé fyrirhugað að taka upp vaktavinnu í fyrirtæki, þarf að tilkynna starfsmönnum þá fyrirætlan með fyrirvara, sem er háður lengd væntanlegs vaktavinnutímabils. Sama gildir um uppsögn vaktavinnufyrirkomulags:
I II III
Lengd vaktavinnu
tímabils 7 d. 1) – 1 mán. 1 – 6 mán. 6 mán. og lengur
Fyrirvari
vaktupptöku 3 dagar 14 dagar 21 dagur
Uppsögn vakta Samtímis 1 vika 2) 1 mán.
1) Ef sérstakar ástæður krefja má að höfðu samráði við starfsmenn taka upp styttra vaktavinnutímabil.
2) Þó skal getið um áætluð vaktavinnulok.
2.10.3. Lengd vakta og neysluhlé
Gr. tími Neysluhlé
A 8 klst. 35 mín. (1 hlé)
B 9 – 40 – (2 hlé)
C 10 – 45 – (2 hlé)
D 11 – 50 (2 -3 hlé)
E 12 – 65 (2-3 hlé)
Starfsmaður í vaktavinnu hefur ekki matartíma skv. gr. 3.1.1. og 3.3.1., nema um það hafi verið samið.
2.10.4. Vaktaálag fyrir vaktavinnu
Tímabil Álag
kl. 08:00 – kl. 16:00 mán.- föstud. 0%
kl. 16:00 – kl. 24:00 mán. – föstud. 35%
kl. 08:00 – kl. 24:00 laugard. – sunnud. 55%
kl. 00:00 – kl. 08:00 alla daga 60%
2.10.5. Yfirvinna
Öll vinna vaktavinnumanna umfram 40 klst. á viku að meðaltali skal greidd með yfirvinnukaupi. Vinna á stórhátíðum greiðist þó með yfirvinnukaupi auk fastra launa.
2.10.6. Vaktaskipta-/fataskipta-/þvottagjald
Greiða skal 15 mínútur í yfirvinnu fyrir hverja unna vakt fyrir þann tíma er fer til fataskipta, þvotta starfsmanna, svo og vaktaskipta á vinnustað (verkstæði), enda skiptast starfsmenn á nauðsynlegum upplýsingum við vaktaskipti og vinna stöðvist ekki á meðan.
2.10.7. Sérstakt gjald fyrir skammtímavaktir
2.10.7.1.
Greiða skal 10 mínútur í yfirvinnu fyrir hverja unna vakt, þegar vaktavinna stendur yfir skemur en 1 mánuð. (Hér er ekki átt við lengd verka).
2.10.7.2.
Hafi vaktavinnutímabil verið áætlað skemmra en einn mánuður, en lengist síðan einhverra hluta vegna, skal þó eigi greiða þetta skammtímavaktaálag lengur en í einn mánuð.
2.10.7.3.
Hafi vaktavinnutímabil hins vegar verið áætlað lengra en einn mánuður, en lýkur þó innan mánaðar skal greiða skammtímavaktaálag á þær vaktir, sem unnar voru.
2.10.7.4.
Samkomulag þetta um vaktavinnu breytir ekki þeim vakta-vinnusamningum sem í gildi eru.
Bókun um upptöku vaktavinnu
Vaktavinna verður ekki tekin upp hjá þeim starfsmönnum sem eru í starfi hjá fyrirtæki við undirritun samnings þessa árið 2004 nema með samþykki þeirra.
*Sjá einnig dæmi um útfærslu frítökuréttar á bls.92.