Félagsgjöld, sjúkrasjóða-, orlofssjóða- og lífeyrissjóðaiðgjöld

10.1.      Félagsgjöld

10.1.1.         
Atvinnurekandi tekur að sér að halda eftir af kaupi hvers starfsmanns félagsgjaldi því sem honum ber að greiða til félaganna, sem og öðrum gjöldum er félögin ákveða og afhenda til þeirra eftir nánara samkomulagi.

10.1.2.         
Aðilar eru sammála um að verkalýðsfélögin fái aðstöðu til þess að taka félagsgjöld með hundraðshluta af kaupi t.d. með innheimtu samhliða lífeyrissjóðsgreiðslu og af sama gjaldstofni.

10.2.      Iðgjöld í sjúkra- og orlofssjóði

10.2.1.         
Greiða skal 1% á allt kaup starfsmanna til að standa straum af veikindum og sjúkrakostnaði og renni þær greiðslur í sjúkrasjóð viðkomandi félags.

10.2.2.         
Greiða skal 0,25% á allt kaup starfsmanna í orlofsheimilasjóð viðkomandi félags.

10.3.      Iðgjöld í lífeyrissjóð

10.3.1.         
Iðgjöld til lífeyrissjóðs viðkomandi starfsgreinar eða starfshóps greiðist af öllu starfsfólki 16 ára til 70, sem tekur laun samkvæmt samningi þessum.

10.3.2.                    
Iðgjöld af öllum launum og að viðbættu orlofi er 10%. Starfsmaður greiðir 4% en atvinnurekandi 6%.

Frá 1. janúar 2005 hækkar framlag atvinnurekenda í samtryggingarlífeyrissjóð í 7,0% og á sama tíma fellur niður skylda til að greiða 1,0% fast í séreignasjóð óháð framlagi starfsmanns. Frá 1. janúar 2007 hækkar iðgjald atvinnurekenda til samtryggingarlífeyrissjóðs í 8,0% samhliða 0,45% lækkun almenns tryggingagjalds.

10.3.3.         
Leggi starfsmaður a.m.k. 2% viðbótarframlag í séreignarsjóð skal mótframlag vinnuveitanda vera 2%.

10.4.       Skilagreinar

10.4.1.         
Til að greiða fyrir innheimtu gjalda láta innheimtuaðilar (lífeyrissjóðir, sveinafélög) í té sérstök eyðublöð (skilagrein), sem launagreiðendur útfylla og skila til innheimtuaðila, ásamt greiðslu.

10.4.2.         
Í stað skilagreina samkvæmt 10.4.1. er atvinnurekendum heimilt að nota tölvuunnar skilagreinar, enda uppfylli þær þau skilyrði, sem krafist er varðandi eintakafjölda, fullnægjandi upplýsingar og uppsetningu.

10.5.     Starfsmenntagjöld

10.5.1.         
Skv. samkomulagi Bíliðnafélagsins, Samiðnar, Bílgreinasambandsins og VSÍ um fræðslu og starfsmenntun í bílgreinum frá 7. júlí 1995 ber öllum fyrirtækjum og stofnunum, sem hafa félagsmenn innan Bíliðnafélagsins og aðildarfélaga Samiðnar er starfa í bílgreinum, að greiða fagmenntagjald til Fræðsluráðs bílgreina. Starfsmenn greiða á sama hátt í fagmenntasjóð.

10.5.2.         
Á hverju 12 mánaða tímabili á sveinn rétt til 32 stunda námsleyfis til endurmenntunar hjá Fræðslumiðstöð bílgreina eða aðra sambærilega endurmenntun í bílgreininni. Helmingur tímans er til námskeiða að vali starfsmanns, hinn helmingur að vali fyrirtækis. Starfsmaður skal halda reglubundnum launum meðan á námsleyfi stendur.

10.6.     Skil á iðgjöldum

10.6.1.         
Félags- sjúkra- og orlofsheimilasjóðsgjaldi skal skila mánaðarlega til viðkomandi aðildarfélags Samiðnar. Aðildarfélagi er heimilt að semja við lífeyrissjóði um innheimtu þessara gjalda. Gjalddagi iðgjalda hvers mánaðar er 10. næsta mánaðar.

10.6.2.         
Atvinnurekanda ber að halda iðgjöldum starfsmanns eftir af launum hans og standa viðkomandi sjóðum skil á þeim mánaðarlega ásamt eigin iðgjaldahluta, nema sérstaklega sé um annað samið og skal þeim skilað á nafn viðkomandi starfsmanns.

10.6.3.         
Um skil á iðgjöldum til lífeyrissjóða vísast til samnings ASÍ og VSÍ um lífeyrismál frá 12. desember 1995, samnings ASÍ og VMS um lífeyrissjóði frá 19. maí 1969, ásamt síðari breytingum og reglugerða viðkomandi lífeyrissjóða.

10.6.4.         
Um skil á starfsmenntagjöldum vísast til viðkomandi laga og samninga.