11.1.1. Uppsagnarfrestur er sem hér segir:
Fyrstu 3 mánuði í sama fyrirtæki:
1 vika m.v. vikumót
Eftir 3 mánuði í sama fyrirtæki:
1 mánuður m.v. mánaðamót
Eftir 3 ára samfellt starf í sama fyrirtæki:
2 mánuðir m.v. mánaðamót
Eftir 5 ára samfellt starf í sama fyrirtæki:
3 mánuðir m.v. mánaðamót
Eftir þriggja mánaða starf telst starfsmaður vera fastráðinn. Þeir sem stunda sína vinnu svo að ekki er hægt að skoða þá sem fasta starfsmenn, skulu skoðast lausráðnir starfsmenn.
11.1.2. Uppsagnarfrestur er gagnkvæmur og allar uppsagnir skulu vera skriflegar og miðast við mánaðamót eða vikumót sbr. gr. 11.1.1.
11.1.3. Sé starfsmanni sagt upp, eftir a.m.k. 10 ára samfellt starf hjá sama fyrirtæki, er uppsagnarfrestur 4 mánuðir, ef starfsmaður er orðinn 55 ára, 5 mánuðir, ef hann er orðinn 60 ára og 6 mánuðir, þegar hann er orðinn 63 ára. Starfsmaður getur hins vegar sagt upp starfi sínu með 3ja mánaða fyrirvara.
11.2. Áunnin réttindi og endurráðning
Áunnin réttindi launþega skulu haldast við endurráðningu innan eins árs. Á sama hátt skulu áunnin réttindi taka gildi á ný eftir eins mánaðar starf, ef endurráðning verður eftir meira en eitt ár, en innan þriggja ára.
11.3. Samkomulag um hópuppsagnir
Samningsaðilar eru sammála um að æskilegt sé að uppsagnir beinist einungis að þeim starfsmönnum, sem ætlunin er að láti af störfum, en ekki öllum starfsmönnum eða hópum starfsmanna. Í ljósi þessa hafa aðilar gert með sér eftirfarandi samkomulag:
1. Gildissvið
Samkomulag þetta tekur einungis til hópuppsagna fastráðinna starfsmanna þegar fjöldi þeirra sem segja á upp á þrjátíu daga tímabili er:
A.m.k. 5 manns í fyrirtækjum með 16-100 starfsmenn.
A.m.k. 10% starfsmanna í fyrirtækjum með 100 – 300 starfsmenn.
A.m.k. 30 manns í fyrirtækjum með 300 starfsmenn eða fleiri.
Það telst ekki til hópuppsagna þegar starfslok verða samkvæmt ráðningarsamningum sem gerðir eru til ákveðins tíma eða vegna sérstakra verkefna. Samkomulag þetta gildir ekki um uppsagnir einstakra starfsmanna, um uppsagnir til breytinga á ráðningarkjörum án þess að starfslok séu fyrirhuguð, né um uppsagnir áhafna skipa.
2. Samráð
Íhugi vinnuveitandi hópuppsagnir skal, áður en til uppsagna kemur, hafa samráð við trúnaðarmenn viðkomandi stéttarfélaga til að leita leiða til að komast hjá uppsögnum að svo miklu leyti sem mögulegt er og draga úr afleiðingum þeirra. Þar sem trúnaðarmenn eru ekki til staðar skal hafa samráð við fulltrúa starfsmanna.
Trúnaðarmenn skulu þá eiga rétt á að fá upplýsingar, sem máli skipta um fyrirhugaðar uppsagnir, einkum ástæður uppsagna, fjölda starfsmanna sem til stendur að segja upp og hvenær uppsagnir komi til framkvæmda.
3. Framkvæmd hópuppsagna
Verði, að mati vinnuveitanda, ekki komist hjá hópuppsögnum, þó að stefnt sé að endurráðningu hluta starfsmanna án þess að komi til starfsloka, skal miða við að ákvörðun um það hvaða starfsmönnum bjóðist endurráðning liggi fyrir eins fljótt og mögulegt er.
Hafi ákvörðun um endurráðningar ekki verið tekin og starfsmanni tilkynnt að ekki geti orðið af endurráðningu, það tímanlega að eftir standi a.m.k. 2/3 hlutar uppsagnarfrests viðkomandi starfsmanns, framlengist uppsagnarfrestur hans um einn mánuð ef uppsagnarfrestur er þrír mánuðir, um þrjár vikur ef uppsagnarfrestur er tveir mánuðir og um tvær vikur ef uppsagnarfresturinn er einn mánuður.
Þetta ákvæði tekur til starfsmanna sem áunnið hafa sér a.m.k. 1 mánaðar uppsagnarfrest.
Þrátt fyrir ákvæði þessarar greinar er heimilt vegna utanaðkomandi atvika sem vinnuveitandi ræður ekki við, að skilorðsbinda tilkynningu um endurráðningu því að vinnuveitandinn geti haldið áfram þeirri starfsemi sem starfsmaðurinn er ráðinn til án þess það leiði til lengingar uppsagnarfrests.