Veikinda- og slysatilfelli, vinnuslys og atvinnusjúkdóma- og slysatryggingar

8.1.1.             Starfsmenn skulu á hverju 12 mánaða tímabili halda launum í veikinda- og slysaforföllum sem hér greinir:

Fyrstu sex mánuðina hjá sama atvinnurekanda, tveir dagar á fullum launum fyrir hvern unninn mánuð.

Eftir sex mánaða samfellt starf hjá sama atvinnurekanda, einn mánuður á fullum launum.

Eftir tveggja ára samfellt starf hjá sama atvinnurekanda, einn mánuður á fullum launum og einn á dagvinnulaunum.

Eftir þriggja ára samfellt starf hjá sama atvinnurekanda, einn mánuður á fullum launum og tveir á dagvinnulaunum.

Starfsmaður sem öðlast hefur þriggja mánaða veikindarétt eftir þriggja ára samfellt starf hjá sama atvinnurekanda og ræður sig innan 12 mánaða hjá öðrum atvinnurekanda heldur rétti til fullra launa í einn mánuð enda hafi starfslok hjá fyrri atvinnurekanda verið með eðlilegum hætti og rétturinn sann­reyndur. Betri rétt öðlast starfsmaður eftir tveggja ára samfellt starf hjá nýjum atvinnurekanda.

8.1.2.             Heildarréttur á 12 mánaða tímabili

Réttur til launa vegna veikinda- og slysaforfalla skv. gr. 8.1.1. er heiladarréttur á 12 mánaða tímabili án tillits til tegundar veikinda.

8.2.       Laun vegna vinnuslysa og atvinnusjúkdóma

Forfallist starfsmaður af völdum slyss við vinnuna eða slasast á beinni leið til eða frá vinnustað og eins ef starfsmaður veikist af atvinnusjúkdómi, skal hann halda dagvinnulaunum í þrjá mánuði umfram það sem um er getið í gr. 8.1.

Réttur til launa vegna vinnuslysa- og atvinnusjúkdóma er sjálfstæður réttur og gengur ekki á veikindarétt launamanns. Samningsaðilar eru sammála um að með framangreindum breytingum á 8. kafla kjarasamnings sé ekki verið að þrengja rétt launþega frá því sem gilt hefur varðandi vinnuslys og atvinnusjúkdóma.

Við vinnuslys kostar vinnuveitandinn flutning hins slasaða til heimilis eða sjúkrahúss og greiðir síðan eðlilegan sjúkrakostn­að meðan hann nýtur launa annan en  þann sem sjúkrasamlag og almannatryggingar greiða. Hinn slasaði skilar kvittunum fyrir útlögðum kostnaði  til vinnuveitandans og skal greiðsla fara fram  jafnhliða launagreiðslu.

8.3.       Launahugtök

Full laun

Full laun miðast við þau laun sem starfsmaður hefði sannan­lega haft ef hann hefði ekki forfallast frá vinnu vegna sjúk­dóms eða slyss  (staðgengilslaun).

Full laun starfsmanna í prósentulaunakerfi

Ef starfsmaður veikist eða slasast og fjarvistir vara lengur en eina viku samfellt, skal reikna full laun hans sem meðaltal síðustu fjögurra mánuða fram að upphafi veikinda. Ef um skemmri starfstíma er að ræða hjá viðkomandi fyrirtæki skal telja frá upphafi starfs. Ef breyting hefur orðið á starfshlutfalli á viðmiðunartímabilinu skal miða við það starfshlutfall sem starfsmaður er ráðinn í við upphaf veikinda.

Dagvinnulaun

Með dagvinnulaunum er hér átt við föst laun fyrir vinnu á dagvinnutímabili, ásamt föstum aukagreiðslum öðrum en kostnaðargreiðslum

8.4.       Læknisvottorð

8.4.1.             Nú vill starfsmaður leita réttar síns samkvæmt 8. kafla, og skal hann þá, ef atvinnurekandi óskar þess, afhenda honum vottorð læknis um veikindin eða slysið, er sýni að hann hafi verið óvinnufær vegna veikinda eða slyss.

8.4.2.             Atvinnurekandi greiðir læknisvottorð og kostnað við öflun þess að því tilskildu að veikindi séu tilkynnt á fyrsta veikindadegi.

Greiðslur í veikinda- og slysatilfellum skulu greiddar með sama hætti og á sama tíma og aðrar vinnulaunagreiðslur, enda hafi læknisvottorð borist í tæka tíð vegna launaútreikninga.

8.5.       Veikindi barna og leyfi af óviðráðanlegum ástæðum

8.5.1.             Foreldri skal, eftir fyrsta starfsmánuð, heimilt að verja samtals 7 vinnudögum á hverju 12 mánaða tímabili, til aðhlynningar sjúkum börnum sínum undir 13 ára aldri, enda verði annarri umönnun ekki við komið. Eftir eins árs starf hjá sama vinnuveitanda er foreldrum með sama hætti heimilt að verja samtals 10 vinnudögum til aðhlynningar börnum sínum undir 13 ára aldri. Foreldri skal halda dagvinnulaunum sínum, svo og vaktaálagi þar sem það á við.

Með foreldri í 1. mgr. er einnig átt við fósturforeldri eða forráðamann, sem er framfærandi barns og komi þá í stað foreldris.

8.5.2.             Starfsmaður á rétt á leyfi frá störfum þegar um óviðráðan­legar (force majeure) og brýnar fjölskylduástæður er að ræða vegna sjúkdóms eða slyss sem krefjast tafarlausrar nærveru starfsmanns.

Starfsmaður á ekki rétt á launum frá atvinnurekanda í framan­greindum tilfellum, samanber þó gr. 8.5.1.

8.6.       Slysatrygging launþega

Samningsaðilar eru sammála um að fara í endurskoðun á slysatryggingarákvæðum kjarasamnings með það að mark­miði að auka tryggingavernd starfsmanna og koma þá ný ákvæði í stað þeirra sem í kafla þessum greinir.

Upphæðir í kafla þessum miðast við 1. júlí 2004.

8.6.1.             Skylt er atvinnurekanda að tryggja starfsmenn þá, sem samningur þessi tekur til, fyrir dauða, varanlegri örorku eða tímabundinni örorku af völdum slyss í starfi eða á eðlilegri leið til vinnustaðar og frá vinnustað til heimilis starfsmanns.

8.6.2.             Ef starfsmaður hefur, vegna starfs síns, viðlegustað utan heimilis, kemur viðlegustaður í stað heimilis, en tryggingin tekur þá einnig til eðlilegra ferða milli heimilis og viðlegustaðar.

8.6.3.             Dánarslysabætur verða frá 1. júlí 2004

1.  Ef hinn látni var ógift/ókvæntur og lætur ekki eftir sig barn og hefur ekki séð fyrir öldruðu foreldri (67 ára eða eldri) kr. 568.178.

2.  Ef hinn látni var ógift/ókvæntur en lætur eftir sig barn (börn) undir 17 ára aldri og/eða hefur sannanlega séð fyrir foreldri eða foreldrum (67 ára og eldri) kr. 2.593.558.

3.  Ef hinn látni var gift/kvæntur eru bætur til maka kr. 3.541.927.

4.  Ef hinn látni lætur eftir sig barn (kjörbarn, fósturbarn) innan 17 ára aldurs, fyrir hvert barn kr. 681.746.

   Bætur greiðast einungis samkvæmt einum af töluliðum nr. 1, 2 eða 3. Til viðbótar með töluliðum 2 og 3 geta komið bætur samkvæmt tölulið 4.

8.6.4.             Rétthafar dánarbóta eru:

1)  Lögerfingjar

2)  Viðkomandi aðilar að jöfnu

3)  Eftirlifandi maki

4)  Viðkomandi börn, en greiðist til eftirlifandi maka ef hann er annað foreldri, ella til skiptaráðanda og/eða fjárhaldsmanns.

Með maka í skilningi greinar 8.6. er eins átt við einstakling í staðfestri samvist eða í skráðri óvígðri sambúð.

8.6.5.             Bætur vegna varanlegrar örorku

Bætur vegna varanlegrar örorku greiðast í hlutfalli við vátrygg­ingarfjárhæðina kr. 6.198.306 þó þannig að hvert örorkustig 26-50% verkar tvöfalt og hvert örorkustig frá 51-100% verkar fjórfalt. Bætur fyrir 100% örorku eru því kr. 17.045.344.

8.6.6.             Bætur vegna tímabundinnar örorku

                     Dagpeningar kr. 14.085 á viku, greiðist fjórum vikum frá því slys átti sér stað og þar til hinn slasaði verður vinnufær eftir slysið, en þó ekki lengur en í 48 vikur. Við dagpeninga þessa bætast kr. 1.879 á viku fyrir hvert barn undir 17 ára aldri, sem er á framfæri hins slasaða.

8.6.7.             Endurskoðun tryggingafjárhæða

8.6.7.1.          Tryggingafjárhæðir endurskoðast tvisvar á ári, 1. janúar og 1. júlí og hækki þá sem nemur breytingum á vísi­tölu neyslu­verðs m.v. maí og nóvember ár hvert.

8.6.7.2.          Fjárhæðir miðast við vísitölu neysluverðs í maí 2004.

8.6.8.             Skilmálar og gildistími trygginga

Skilmálar séu almennir skilmálar, sem í gildi eru fyrir atvinnu­slysatryggingar launþega hjá Sambandi íslenskra trygginga­félaga, þegar þetta samkomulag er gert.

Hlutaðeigandi samtök atvinnurekenda lýsa því yfir að þau muni beita sér fyrir að félagsmenn þeirra tryggi alla starfs­menn sína og haldi tryggingunni í gildi.

Ákvæði þessi valda í engu skerðingu á áður umsömdum hagstæðari tryggingarétti launþega.

Tryggingin tekur gildi um leið og tryggingaskyldur starfsmaður hefur störf (kemur á launaskrá), en fellur úr gildi um leið og hann hættir störfum (fellur af launaskrá).

8.6.9.             Slysatrygging launþega greiðir ekki bætur til starfsmanns þegar tjón hans fæst bætt úr lögboðinni ökutækjatryggingu, þ.e. hvort heldur er úr ábyrgðartryggingu eða slysatryggingu ökumanns og eiganda.

8.6.10.           Réttur atvinnurekanda til tryggingafjárhæða

Verði atvinnurekandi skaðabótaskyldur gagnvart starfsmanni, sem slysatryggður er samkvæmt samningi þessum, skulu slysabætur og dagpeningar, sem greiddir kunna að vera til launþega samkvæmt ákvæðum samnings þessa, koma að fullu til frádráttar þeim skaðabótum, er atvinnurekanda kann að vera gert að greiða.

Dagpeningar eru greiddir til atvinnurekanda meðan kaup-greiðsla varir samkvæmt samningi.

8.7.       Fæðingarorlof og mæðraskoðun

Samkvæmt lögum um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 skal fæðingarorlof reiknast til starfstíma við mat á starfs­tengdum réttindum, svo sem rétti til orlofstöku og lengingar orlofs samkvæmt kjarasamningum, starfsaldurshækkana, veikindaréttar og uppsagnarfrests. Sama gildir ef kona þarf að öryggisásæðum að leggja niður störf á meðgöngutíma, sbr. reglugerð um ráðstafanir til þess að auka öryggi og heilbrigði á vinnustöðum fyrir konur sem eru þungaðar, hafa nýlega alið barn eða hafa barn á brjósti.

Fæðingarorlof telst til unnins tíma við útreikning orlofsréttar, þ.e. réttar til frítöku en ekki orlofslauna.

Barnshafandi konur eiga rétt til nauðsynlegra fjarvista frá vinnu vegna mæðraskoðunar án frádráttar á föstum launum þurfi slík skoðun að fara fram í vinnutíma.