6.1.1. Fylgja skal reglum Brunamálastofnunar um brunavarnir.
6.1.2. Í alla svefnskála skal setja upp viðvörunarkerfi, sem samþykkt er af viðkomandi eldvarnareftirliti.
6.1.3. Kynna skal starfsfólki meðferð eldvarnartækja og halda skal að jafnaði á hálfs árs fresti, vor og haust, námskeið í hjálp í viðlögum og almennum brunavörnum fyrir verkstjóra og trúnaðarmenn.
6.2.1. Öryggisbúnaður á vinnusvæðinu sé svo fullkominn sem kostur er á og fyllsta öryggis sé gætt í samræmi við opinberar reglur.
6.2.2. Vinnuaðstaða í eldhúsi skal vera í samræmi við reglur heilbrigðisyfirvalda.
6.2.3. Á vinnustað skal vera fyrir hendi, til afnota fyrir starfsmenn, sá öryggisútbúnaður, sem Vinnueftirlit ríkisins telur nauðsynlegan vegna eðlis vinnunnar, eða sem tiltekinn er í kjarasamningi, svo sem eyrnahlífar, hlífðargleraugu, rykgrímur og öryggisbelti. Öryggishjálmar og öryggisskór/eða öryggisstígvél skulu afhent starfsmönnum, þegar þeir hefja störf og skal nota þau undantekningarlaust, sbr. þó grein 8.2.5. Að öðru leyti vísast til reglna nr. 497/1994 um notkun persónuhlífa.
6.2.4. Starfsmönnum er skylt að nota þann öryggisútbúnað, sem getið er um í almennum kjarasamningum og reglugerðum, og skulu verkstjórar og trúnaðarmenn sjá um að hann sé notaður. Ef starfsmenn nota ekki öryggisbúnað, sem þeim er lagður til á vinnustað, er heimilt að vísa þeim fyrirvaralaust úr starfi eftir að hafa aðvarað þá skriflega. Yfirtrúnaðarmaður skal tafarlaust ganga úr skugga um að tilefni uppsagnar hafi verið fyrir hendi og skal honum gefinn kostur á að kynna sér alla málavexti. Sé hann ekki samþykkur tilefni uppsagnar skal hann mótmæla uppsögninni skriflega og kemur hún þá eigi til framkvæmda.
6.2.5. Brot á öryggisreglum, sem valda því að öryggi starfsmanna er stefnt í voða, skal varða brottvikningu án undangenginnar áminningar, ef yfirtrúnaðarmaður og forsvarsmenn fyrirtækis eru sammála um það.
6.2.6. Ef öryggisbúnaður sá, sem tiltekinn er í kjarasamningum og Vinnueftirlit ríkisins hefur gefið fyrirmæli um að notaður skuli, er ekki fyrir hendi á vinnustað, er hverjum þeim starfsmanni er ekki fær slíkan búnað, heimilt að neita að vinna störf þar sem slíks búnaðar er krafist. Sé ekki um annað starf að ræða fyrir viðkomandi starfsmann, skal hann halda óskertum launum.
6.2.7. Komi til ágreinings vegna ákvæða 6.2.4. – 6.2.6. skal vísa málinu til öryggisnefndar, samanber grein 6.4.
6.3.1. Þegar starfsmaður hefur störf, skal gerð skrá yfir afhenta muni og starfsmaður skal kvitta fyrir móttöku þeirra og bera ábyrgð á þeim skv. grein 6.3.2.
6.3.2. Sé hinu afhenta ekki skilað við starfslok (eða færðar sönnur á eðlilegan forgang þess) greiði starfsmaður andvirði hinna afhentu muna af ógreiddum launum sínum.
6.4. Öryggisnefnd
6.4.1 Á virkjunarstað skal starfa öryggisnefnd er hafi eftirlit með öryggisútbúnaði og framkvæmd á öryggismálum almennt. Trúnaðarmönnum er heimilt að snúa sér til öryggisnefndar með hvers konar kvartanir og ábendingar um útbúnað og annað er varðar öryggi starfsmanna og á sama hátt er vinnuveitanda heimilt að gera athugasemdir og kvartanir um notkun öryggisbúnaðar.
6.4.2. Öryggisnefnd skal skipuð staðarverkfræðingi eftirlits, yfirtrúnaðarmanni, öryggistrúnaðarmanni og öryggisstjóra/öryggisverði frá atvinnurekanda.
Öryggisnefnd er heimilt að boða fulltrúa Vinnueftirlits ríkisins og heilbrigðiseftirlits á fund öryggisnefndar, auk sérstakra öryggistrúnaðarmanna sem ráðnir hafa verið til að hafa eftirlit með öryggis-, heilsu-, og umhverfismálum. Einstakir nefndarmenn skulu koma óskum sínum um boðun framangreindra aðila á framfæri við formann nefndar.
Heimilt er að boða fulltrúa einstakra verktaka á fund öryggisnefndar ef mál eru þeim tengd.
Heimilt er að skipa fleiri en eina öryggisnefnd ef umfang virkjanaframkvæmda kallar á það.
6.5. Þvottaaðstaða fyrir vinnuvélar og bifreiðar
6.5.1. Til að skapa öryggi skal komið upp viðunandi aðstöðu til þvotta á vinnuvélum og bifreiðum.
6.6. Hjúkrunargögn og hjúkrunaraðstaða
6.6.1. Landsvirkjun sér um að algengustu og nauðsynlegustu sjúkragögn og lyf séu fyrir hendi á virkjunarsvæðinu, svo og hjúkrunarkona eða þjálfaður sjúkraliði fáist hjúkrunarkona ekki, til aðstoðar við minni háttar sjúkdóma og slys, ef um er að ræða 100 starfsmenn eða fleiri. Sjúkrabifreið skal vera á staðnum, sem búin er til almennra sjúkraflutninga og með viðeigandi útbúnaði og annan útbúnað, sem bestur þekkist til ferðalaga í snjó og annarri ófærð.
6.6.2. Hjúkrunarfræðingur skal hafa eftirlit með hreinlæti og hollustuháttum, og telji hún eitthvað ekki í fullkomnu lagi þar að lútandi, skal hún gera kvörtun um það til atvinnurekanda og/eða trúnaðarmanna. Læknir verði til viðtals og minniháttar aðgerða minnst tvisvar í mánuði og verði honum séð fyrir viðunandi aðstöðu.
6.6.3. Hjúkrunarfræðingur skal fá góða og örugga aðstöðu fyrir apótek og sjúkrastofu.
6.6.4. Á staðbundnum vinnusvæðum, í bifreiðum verkstjóra og vinnuskúrum skal vera sjúkrakassi, sem inniheldur venjuleg sjúkragögn til aðgerða við slys. Sjúkrabörur, spelkur og annað slíkt skal vera á helstu vinnusvæðum. Sjúkrakassar skulu vera í vörslu og á ábyrgð verkstjóra og trúnaðarmanns og undir eftirliti hjúkrunarkonu.
6.6.5. Heimilt er að semja í fastanefnd um aðra útfærslu.