17.1.1. Starfsmenn við virkjunarframkvæmdir skv. samningi þessum skulu hafa frítt fæði á virkjunarstað. Með fæði er átt við mat í matartímum og kaffi og brauð eða annað meðlæti í kaffihléum.
17.2. Frítt húsnæði – aðbúnaður
17.2.1. Allir starfsmenn á samningssvæðinu skulu hafa frítt húsnæði, sem er vel upphitað, með góðri loftræstingu og daglegri góðri ræstingu. Að jafnaði skal vista starfsmenn í eins manns herbergjum.
17.2.2. Heimilt er þó að vista starfsmenn, sem ráðnir eru til að vinna á tímabilinu 1. maí til 31. október, í tveggja manna herbergjum. Herbergi þessi skulu vera nægilega rúmgóð og tryggt að starfsmenn sem deila herbergi þurfi ekki að sofa þar á sama tíma. (Sjá bókun með samningnum).
Í íbúðarskálum skal vera setustofa útbúin sjónvarpstæki og sætum fyrir íbúana. Ofangreind ákvæði eru stefnumarkandi fyrir allar nýbyggingar starfsmannabúða.
Þar sem settar eru upp skammtíma starfsmannabúðir til skemmri tíma en sex mánaða dvalar, má víkja frá framangreindum ákvæðum um búnað starfsmannabúða samkvæmt samkomulagi aðila.
17.2.3. Hver starfsmaður skal hafa læsta geymslu fyrir föt og aðra persónulega muni. Herbergi skulu vera læsanleg. Skipta skal á sængurfatnaði eigi sjaldnar en á 2 vikna fresti.
17.2.4. Í hverju herbergi skulu vera svefnstæði, borð og stólar, í samræmi við leyfðan fjölda í herbergi. Einnig skal vera lesljós yfir svefnstæði. Jafnframt skulu vera hillur fyrir bækur og blöð, dökk gluggatjöld fyrir gluggum, dýna í rúmstæði og ábreiða.
17.2.5. Í hverjum íbúðaskála skal vera nægileg bað- og hreinlætisaðstaða þ.e. ekki fleiri en 10 menn um hverja sturtu, svo og nægilega stór hlífðarfatageymsla og aðstaða til þurrkunar á vinnufatnaði.
17.2.6. Aðbúnaður skal að öðru leyti vera í samræmi við kröfur heilbrigðisyfirvalda, sbr. reglugerð nr. 941/2002 um hollustuhætti og lög nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.
17.2.7. Við matsali (aðalmötuneyti og matarskála á vinnusvæðum) sé nægjanleg aðstaða til almenns hreinlætis. Fjöldi handlauga og salerna skal við það miðast, að ekki séu fleiri en 30 starfsmenn um eina handlaug og eitt salerni.
17.2.8. Ef verktaki hefur ekki tök á því að láta aka starfsmönnum á föstum vinnustað í mötuneyti í kaffihléum (séu þau tekin) skal hann setja upp kaffiaðstöðu úti á vinnusvæðum. Starfsmenn skulu hafa aðgang að hreinlætisaðstöðu/salerni úti á vinnusvæðum.
Dagleg ræsting skal vera í matarskálum, kaffistofum og salernum.
17.3.1. Umferð bifreiða og annarra vélknúinna farartækja sé bönnuð í námunda við svefnskála.
17.4. Bilanir og ófyrirséð óhöpp
17.4.1. Nú verður rafmagnslaust, eða önnur ófyrirsjáanleg óhöpp henda, þannig að ekki er hægt að halda 10° C hita í íbúðarskálum og/eða jafnframt nauðsynlegri matseld og ekki er séð fyrir að lausn fáist næstu 8 klst., og skal þá skylt að sjá starfsmönnum fyrir fari til upphitaðra híbýla og aftur á virkjunarstað, þegar eðlilegt ástand hefur skapast. Starfsmenn haldi dagvinnulaunum í þessum tilfellum. Fastanefnd setji reglur um framkvæmd þessarar greinar.