Sjúkra- og orlofssjóðs­iðgjöld og lífeyrissjóðir

9.1.       Sjúkrasjóður

Vinnuveitendur skulu greiða í sjúkrasjóð viðkomandi félaga eða sambanda sem svarar til 1% af útborguðu kaupi starfs­manna, til að standa straum af veikindum og sjúkrakostnaði.

9.2.       Orlofssjóður

Vinnuveitendur greiði sérstakt gjald í orlofssjóði viðkomandi félaga er nemi 0,25% af útborguðu kaupi á sama hátt og gert er varðandi greiðslur til sjúkrasjóða. Vinnuveitendur greiði gjald þetta samhliða sjúkrasjóðsiðgjaldi.

9.3.       Lífeyrissjóðir

9.3.1.             Iðgjöld til lífeyrissjóða greiðist af öllum starfsmönnum 16 ára og eldri, sem taka laun samkvæmt samningi þessum eða í hlutfalli af honum, og verði iðgjöldin 10% og skiptast þannig að vinnuveitendur greiði 6% og starfsmenn 4%.

Frá 1. janúar 2005 hækkar framlag atvinnurekenda í samtryggingarlífeyrissjóð í 7,0% og á sama tíma fellur niður skylda til að greiða 1,0% fast í séreignasjóð óháð framlagi starfsmanns, sbr. gr. 9.3.2.2.

Frá 1. janúar 2007 hækkar iðgjald atvinnurekenda til samtryggingarlífeyrissjóðs í 8,0% samhliða 0,45% lækkun almenns tryggingagjalds.

9.3.2.             Viðbótarframlög til lífeyrissparnaðar

9.3.2.1.          Starfsmaður leggur til viðbótarframlag

Leggi starfsmaður a.m.k. 2% viðbótarframlag í lífeyrissjóð (séreignar- eða sameignarsjóð) skal mótframlag vinnuveitanda vera 2%.

9.3.2.2.          Ekki viðbótarframlag af hálfu starfsmanns

Leggi starfsmaður ekki viðbótarframlag í séreignarsjóð greiðir vinnuveitandi 1% í séreignarsjóð hans.

Framlag þetta greiðist til séreignardeildar þess lífeyrissjóðs sem viðkomandi starfsmaður á aðild að, nema starfsmaður ákveði annað. Breyting þessi gildir þó ekki í þeim tilvikum þar sem lög- og samningsbundin lífeyrisframlög vinnuveitanda eru samtals 7% eða hærri.

Viðbótarframlag þetta í séreignarsjóð fellur niður 1. janúar 2005 samhliða hækkun framlags atvinnurekenda í samtryggingarlífeyrissjóð í 7,0%, sbr. gr. 9.3.2.

9.3.2.3.          Framlag á grundvelli laga nr. 113/1990 um tryggingagjald telst ekki hluti greiðslna skv. gr. 9.3.2.

9.3.3.            Að öðru leyti vísast til samnings ASÍ og samtaka vinnu­veitenda um lífeyrissjóði dags. 19. maí 1969, ásamt síðari breytingum, svo og samnings ASÍ og VSÍ um lífeyrismál frá 12. desember 1995.