Verkfæri og vinnuföt

8.1.       Um verkfæri og vinnutæki

8.1.1.             Verkamönnum og öðrum þeim sem venja hefur verið, skulu lögð til verkfæri og vinnutæki þeim að kostnaðarlausu. Iðnaðarmenn sem leggja sé til handverkfæri eftir þeim reglum sem almennt gilda, skulu fá greitt verkfæragjald samkvæmt viðkomandi kauptaxta iðnaðarmanna.

8.1.2.             Leggi starfsmaður sér til rafknúin handverkfæri skal samið sérstaklega um greiðslur fyrir þau.

8.1.3.             Sett skal upp viðunandi aðstaða fyrir starfsmenn til geymslu á verkfærum og vinnufatnaði. Ef geymslur undir vinnufatnað eru settar upp úti á vinnusvæðum skulu þær þannig búnar að vinnufatnaður starfsmanna sé þurr í upphafi vinnudags. 

8.1.4.             Handverkfæri starfsmanna skulu tryggð þeim að kostnaðar­lausu. Hér er átt við verkfæri í eigu starfsmanna, er nota eigin verkfæri. Verkstjóri skal gera lista yfir verkfæraeign viðkom­andi og tryggingarupphæð ákveðin með samkomulagi sam­kvæmt því.

8.1.5.             Vinnuveitandi skal sjá svo um, að allur útbúnaður og áhöld lögð til af honum séu í góðu lagi, þannig að ekki stafi hætta af eða öryggi starfsmanna sé á annan hátt stefnt í hættu.

8.1.6.             Verktakar bera alla ábyrgð á ástandi og búnaði vinnutækja á þeirra vegum. Starfsmönnum skal skylt að tilkynna strax allar bilanir tækja þeirra, sem þeir vinna við.

8.2.       Vinnufatnaður

8.2.1.             Á tveggja vikna fresti skal starfsmönnum lagður til hreinn og heill ytri vinnufatnaður af viðeigandi stærð, þeim að kostn­aðarlausu (sjá þó 6.3.1. og 6.3.2). Tegund vinnufatnaðar ákvarðast með tilliti til þeirra starfa, sem unnin eru, og skal valið milli samfestings með eða án hettu og vinnuslopps. Séð skal um hreinsun þeirra á kostnað vinnuveitanda. Vinnuföt eru eign vinnuveitanda.

Við aðstæður sem krefjast sérstaks hlífðar- eða öryggis­fatn­aðar skal hann tiltækur til afnota fyrir starfsmann. Hér er m.a. átt við vinnu þar sem unnið er með málningu og sérstök efni, á óþrifalegum stöðum, við útivinnu í kulda eða vatns­veðrum. Vinnuveitandi á þennan fatnað og er heimilt að merkja hann.

8.2.2.             Í óþrifatilfellum, þar sem verkefni eða vinnustaður, orsaka óvenjulega óhreinkun eða slit vinnufata, skulu starfsmenn fá vinnufatnað oftar en tilgreint er í 8.2.1., þannig að þeir séu þokkalega til fara miðað við starf og klæðist óskemmdum vinnufatnaði m.a. til að minnka slysahættu.

8.2.3.             Starfsmönnum sem vinna við rafsuðu, grófgerð járniðnaðar­störf, bergborun, víraskiptingar og í allri vinnu, skal leggja til vinnuvettlinga og/eða skinnhanska eftir því sem þörf krefur. Við rafsuðu skulu starfsmenn auk þess sem að ofan greinir fá skinnsvuntu til hlífðar.

8.2.4.             Starfsmenn í bergborun, steypuvinnu, við hreinsun steypu­móta, járnabindingar og tjöruvinnu skulu auk þess sem að ofan greinir fá til afnota regnföt (stakk og buxur). Starfsmönnum í steypuvinnu og tjöruvinnu skal leggja til gúmmístígvél.

8.2.5.             Starfsmenn sem vinna við bergborun, byggingavinnu, málm- og rafiðnaðarstörf skulu lagðir til öryggisskór eða öryggis­stígvél eftir því sem við á þeim að kostnaðarlausu. Starfsmenn við önnur störf, svo sem í mötuneyti og íbúðarskálum, bílstjórar, tækjamenn og skrifstofumenn teljast almennt ekki hafa þörf fyrir þennan öryggisbúnað, nema Vinnueftirlit ríkisins telji nauðsyn á því.

8.2.6.             Með vísun til ofanritaðra ákvæða um vinnufatnað greiðist ekki sérstakt vinnufatagjald.

8.3.       Klæðnaður starfsmanna í mötuneyti og við ræstingu

8.3.1.             Starfsmenn í mötuneyti og við ræstingar skulu ávallt vera snyrtilegir og nota eingöngu við starf sitt sérstök föt, sem ekki eru notuð til annars. Við eldhússtörf skulu þeir jafnan klæðast sérstökum ljósum fötum og ávallt nota höfuðskýlur, enda leggi vinnuveitandi til slík föt. Starfsmönnumskal séð fyrir svuntum, gúmmíhönskum og skóm eftir þörfum.

8.4.       Trygging fatnaðar og muna

8.4.1.             Vinnuveitandi skal brunatryggja fatnað og nauðsynlegan bún­að starfsmanna á vinnustað. Verði starfsmenn fyrir tjóni á fatnaði og munum við vinnu, svo sem gleraugum og úrum, skal það bætt að fullu samkvæmt mati. Sama gildir um tjón af völdum bruna eða kemiskra efna. Þó eru peningar ekki tryggðir. Ofangreind tjón verða einungis bætt ef þau verða vegna óhappa á vinnustað. Eigi skal bæta tjón ef það verður vegna gáleysis eða hirðuleysis starfsmanns.