Vinnutími

2.1.       Virkur vinnutími

2.1.1.             Virkur vinnutími starfsmanna í dagvinnu á viku skal vera 37 klst. og 5 mín. og skal vinnutíma hagað sem hér segir:

a)    kl. 07:55 – 17:00 mánudaga til föstudaga

b)    kl. 07:30 – 16:35 mánudaga til föstudaga

c)    kl. 07:00 – 16:05 mánudaga til föstudaga

2.1.2.             Heimilt er að haga vinnutíma með öðrum hætti, ef vinnu­veitandi og meirihluti starfsmanna koma sér saman um það. Þó skal dagvinna ávallt unnin með samfelldri vinnuskipan á degi hverjum og aldrei hefjast fyrr en kl. 07:00.

2.1.3              Vinna skal skipulögð með þeim hætti að ekki sé unnið meira en átta daga í senn, nema með samþykki yfirtrúnaðarmanns og starfsmanns. Sjá þó samning frá 15. nóvember 2002 um framkvæmdir á Austurlandi, bls. 74-81.

2.2.       Yfirvinna

2.2.1.             Öll vinna utan reglulegs dagvinnutíma telst yfirvinna. Ef unnið er í matar- og kaffitíma á dagvinnutímabili, skal það greitt sem yfirvinna.

2.3.       Frídagar

2.3.1.             Greiddir helgidagar skulu vera venjulegir helgidagar Þjóð­kirkjunnar svo og sumardagurinn fyrsti, 1. maí, 17. júní, fyrsti mánudagur í ágúst, aðfangadagur jóla og gamlársdagur eftir hádegi.

2.3.2.             Liggja skal fyrir með þriggja mánaða fyrirvara hvort unnið verði um jól eða páska. Hvað aðra frídaga varðar skal það koma fram á vakta- eða úthaldstöflu hverju sinni.

2.3.3.             Sé fyrirhugað að vinna á degi sem er frídagur starfsmanns skv. skráðu vinnufyrirkomulagi, skal það skipulagt með minnst þriggja daga fyrirvara nema sérstaklega brýna nauðsyn beri til annars.  Starfsmaður skal á engan hátt gjalda þess þótt hann vilji ekki vinna á frídegi sínum.

2.3.4.             Nú hefur starfsmaður verið beðinn að vinna helgi, en ekkert verður af vinnunni og skal hann þá halda kaupi til viðbótar venjulegri tímaskrift síðasta vinnudag vinnutímabils þannig að heildargreiðsla sé 12 klst. þann dag, en úr því allt að 12 klst. á dag talið frá byrjunartíma að morgni eða þar til honum hefur verið séð fyrir heimferð eða falin störf.

2.4.       Lágmarkshvíld

2.4.1.             Daglegur hvíldartími

Vinnutíma skal haga þannig að á hverjum sólarhring, reiknað frá byrjun vinnudags, fái starfsmaður a.m.k. 11 klst. samfellda hvíld.  Verði því við komið skal dagleg hvíld ná til tímabilsins milli kl. 23:00 til kl. 06:00.

Óheimilt er að skipuleggja vinnu þannig að vinnutími fari um­fram 13 klst.

2.4.2.             Frávik og frítökuréttur

Við sérstakar aðstæður má lengja vinnulotu í allt að 16 klst. Verði því við komið skal starfsmaður fá 11 klst. hvíld í beinu framhaldi af vinnunni án skerðingar á rétti til fastra launa.

Fái starfsmaður ekki 11 klst. hvíld á sólarhring m.v. venju­bundið upphaf vinnudags (vinnusólarhringinn) skal veita uppbótarhvíld sem hér segir: Sé starfsmaður sérstaklega beðinn að mæta til vinnu áður en 11 klst. hvíld er náð ber honum uppbótarhvíld sem nemur 1½ klst. (dagvinna) fyrir hverja klst. sem hvíldin skerðist. Heimilt er að greiða út ½ klst. (dagvinna) af frítökuréttinum.

Vinni starfsmaður það lengi á undan hvíldardegi að ekki náist 11 stunda hvíld miðað við venjubundið upphaf vinnudags reiknast frítökuréttur skv. 2. mgr. Komi starfsmaður til vinnu á hvíldardegi er greitt fyrir unninn tíma auk þess sem frítökuréttur reiknast skv. 2. mgr.

Framangreind ákvæði eiga þó ekki við á skipulegum vakta­skiptum en þá er heimilt að stytta hvíldartíma í allt að átta klst.

Heildarfrítökuréttur vegna vinnu á sama sólarhring getur þó aldrei orðið meiri en sem nemur tíu dagvinnutímum.

Uppsafnaður frítökuréttur skv. framangreindu skal koma fram á launaseðli og veittur í hálfum og heilum dögum utan anna­tíma í starfsemi fyrirtækis í samráði við starfsmenn. Við starfslok skal ónýttur frítökuréttur starfsmanns gerður upp og teljast hluti ráðningartíma. 
 

Útköll

Ef starfsmaður er kallaður til vinnu eftir að venjulegum vinnudegi er lokið skal fara með eins og hér segir:

Ljúki útkalli fyrir kl. 00:00 myndast ekki frítökuréttur ef starfsmaður nær samanlagt 11 klst. hvíld frá upphafi reglulegs vinnudags til upphafs þess næsta (vinnusólarhringur). Ef samfelld hvíld fer niður fyrir 8 klst. gildir grein 2.4.3.

Ef útkalli lýkur á tímabilinu kl. 00:00 – kl. 06:00 reiknast ekki frítökuréttur ef 11 klst. samfelld hvíld næst fyrir eða eftir útkallið. Að öðrum kosti skal frítökuréttur miðast við muninn á lengstu hvíld og 11 klst.

2.4.3.             Hvíld undir 8 klst.

Komi upp sérstakar aðstæður vegna nauðsynlegs viðhalds eða verði truflun á starfsemi vegna ytri aðstæðna svo sem vegna veðurs eða annarra náttúruafla, slysa, orkuskorts, bilana í vélum, tækjum eða öðrum búnaði eða annarra ófyrirséðra atburða og koma verður í veg fyrir verulegt tjón, er heimilt að stytta hvíld niður fyrir 8 klst. 

Fái starfsmaður ekki 8 klst. hvíld á vinnusólarhringnum skal hann, auk frítökuréttar skv. gr. 2.4.2., fá greidda 1 klst. í yfirvinnu fyrir hverja klst. sem hvíldin fer niður fyrir 8 klst.

2.4.4.             Vikulegur frídagur

Á hverju sjö daga tímabili skal starfsmaður hafa a.m.k. einn vikulegan frídag sem tengist beint daglegum hvíldartíma og skal við það miðað að vikan hefjist á mánudegi.

2.4.5.             Frestun á vikulegum frídegi

Þegar ekki er unnið í vaktavinnu skal almennt miða við að vikulegur frídagur sé á sunnudegi og að allir þeir sem starfa hjá sama fyrirtæki eða á sama fasta vinnustað fá frí á þeim degi.

Heimilt er með samkomulagi við starfsmann að fresta viku­legum frídegi  þannig að í stað vikulegs frídags komi tveir samfelldir frídagar á tveim vikum. Töku frídaga má haga þannig að þeir séu teknir aðra hverja helgi (laugardag og sunnudag). Í sérstökum tilvikum má fresta vikulegum frídegi lengur þannig að starfsmaður fái samsvarandi hvíld innan 14 daga.

Falli frídagar á virka daga vegna ófyrirséðra orsaka skerðir það ekki rétt starfsmanns til fastra launa og vaktaálags.

2.4.6.             Hlé

Starfsmaður á rétt á a.m.k. 15 mínútna hléi ef daglegur vinnutími hans er lengri en sex klst. Kaffi- og matarhlé teljast hlé í þessu sambandi.

Hvað varðar gildissvið, hvíldartíma, vinnuhlé og fleira vísast til samnings ASÍ og VSÍ frá 30. desember 1996 um ákveðna þætti er varða skipulag vinnutíma og fylgir samningi þessum sem fylgiskjal og telst hluti hans sem og samhljóða samnings ASÍ og VMS. Framangreind ákvæði eru til fyllingar 13. gr. þess samnings.

2.5.       Skráning vinnutíma o.fl.

2.5.1.             Vinnutími telst frá því að starfsmaður kemur til vinnu skv. kvaðningu verkstjóra og þar til hann hættir vinnu að frád­regnum hádegismatartíma (sbr. þó grein 3.2.2). Við upphaf vinnutíma skulu starfsmenn vera mættir vinnuklæddir í flutn­ingstæki við mötuneyti eða á vinnustað við mötuneyti, enda sé mötuneyti í næsta nágrenni við svefnskála.

2.5.2.             Kvaðning telst liggja fyrir um mætingu á venjulegum byrj­unartíma, geri verkstjóri ekki athugasemd um það áður en vinnu lýkur að kvöldi eða nóttu. Sbr. þó grein 2.4.

2.5.3.             Komi starfsmaður of seint til vinnu, á hann ekki kröfu til kaups fyrir þann stundarfjórðung, sem hann mætir í, né þann tíma, sem áður er liðinn.

2.5.4.             Vinnuskýrslur skulu færðar daglega og undirritaðar. Vinnu­skýrslum skal ekki breytt án samráðs við viðkomandi trúnað­armann, eftir að þær hafa verið undirritaðar. Sé þess óskað, er verkstjóra skylt að gera starfsmönnum grein fyrir tímaskrift hverju sinni.

2.5.5.             Óheimilt er að afskrá starfsmann úr vinnu þegar komið er að kaffi- eða matartímum í yfirvinnu á tímabilinu frá kl. 22:30 (eða fyrsta neysluhlé eftir kvöldmatarhlé) til kl. 07:00.  Þeir greiðast til viðbótar hinum unnu tímum.

2.6.       Réttindi þeirra sem vinna hluta úr degi

2.6.1.             Starfsmenn sem vinna reglubundið hlutastarf (fyrirfram umsamið starf/starfshlutfall), hvort sem er hluta úr degi eða hlutastarf með öðrum hætti, skulu njóta sama réttar til greiðslu samningsbundinna og lögbundinna áunninna réttinda, svo sem um frídaga, veikinda- og slysadaga, uppsagnarfrests, starfsaldurshækkana, o.fl, og þeir sem vinna fullan vinnudag og skulu greiðslur miðaðar við starfshlutfall og venjulegan vinnudag viðkomandi starfsmanns.

2.7.       Bakvaktir og gæsluvaktir

2.7.1.             Sé nauðsynlegt að mati vinnuveitanda að viðhafa bakvaktir og/eða gæsluvaktir, skal það gert með samkomulagi við viðkomandi starfsmann. Þeir starfsmenn sem eru á bakvakt eða gæsluvakt mega ekki yfirgefa viðkomandi starfsmanna­búðir eða gæslusvæði.

2.7.2.             Bakvaktir skulu framkvæmdar á eftirfarandi hátt:

a.  Frá því vinnu lýkur að kvöldi þar til vinna hefst aftur að morgni næsta dags. Fyrir bakvakt greiðist dagvinnutími fyrir hverja þrjá bakvaktartíma.

b.  Sé starfsmaður á bakvakt kallaður til starfa, ber honum yfirvinnukaup fyrir þann tíma, sem unninn er, þó aldrei minna en þrjár klst. fyrir útkall.

2.7.3.             Gæsluvaktir á helgum og helgidögum

Starfsmenn á gæsluvakt skulu ekki vinna að beinum fram­eiðslutörfum, en þeim ber að sinna eftirlits- og umsýslu­störfum svo sem með búðum, vinnustöðum, tækjum, vatns­ælum, steypuvökvum, og/eða upphitun steypu og steypuefnis, veðurathugunum og öðrum tilfallandi smáverkefnum og viðhaldi. Fyrir þessar vaktir greiðist 15 yfirvinnutímar á sólar­hring, enda greiðist ekki sérstaklega fyrir unna tíma. Þó greið­ist fyrir heimferðardag í samræmi við grein 2.3.3.

2.8.       Flutningur starfsmanna

2.8.1.             Vinnuveitandi skal, þar sem þörf er talin á, sjá um flutning starfsmanna að og frá vinnusvæðum í öruggum og nægilega rúmgóðum farartækjum. Ef starfsmenn komast ekki af vinnu­stað þegar að vinnu lokinni sökum vöntunar á farartækjum eða af öðrum ástæðum, sem þeim er ekki um að kenna, skulu þeir halda fullu kaupi, meðan á biðtíma stendur og þar til þeir hafa verið fluttir á ákvörðunarstað sinn. Framkvæmd þessarar greinar skal vera í samráði við yfirtrúnaðarmann.

2.9.       Vinnutilhögun

Um lengd úthalda og frestun á vikulegum frídegi vísast til gr. 2.1.3., 2.4.5 og kafla 16.