Við sögðum frá því í síðasta Samiðnarblaði að Sameinaði lífeyrissjóðurinn hefði tekið frumkvæði að því að koma á fót nýju endurhæfingarúrræði fyrir sjóðfélaga sem lent hafa í vinnuslysum og orðið öryrkjar. Nú er þessi starfsemi hafin og fyrsti skjólstæðingurinn reyndar „útskrifaður“ – með láði – og á leið aftur út í atvinnulífið sem virtist hafa hafnað honum.
Endurhæfingin er til húsa í Vörðuskóla sem er hluti af Iðnskólanum en þar fer einmitt stærstur hluti starfsþjálfunarinnar fram. Í fyrrverandi húsvarðaríbúð hefur starfsfólk Janusar endurhæfingar ehf. komið sér fyrir en þetta félag var stofnað utan um tilraunaverkefnið sem hófst 18. janúar.
Verkefnisstjóri Janusar er Kristín Siggeirsdóttir og hún segir að fólkið sem til þeirra hefur komið sé flest félagsmenn Sameinaða lífeyrissjóðsins og Lífiðnar sem hafa lent í vinnuslysum og orðið öryrkjar. Kristín er iðjuþjálfi en auk hennar eru iðjuþjálfar í tveim stöðugildum auk félagsráðgjafa. „Svo erum við með lækni. sjúkraþjálfara og sálfræðing á okkar snærum sem veita okkur aðstoð og ráðgjöf. Verklegi þátturinn fer fram í Iðnskólanum þar sem kennarar skólans hjálpa okkur,“ segir hún.
Fellt að þörfum hvers og eins
Markmið endurhæfingarinnar eru að auðvelda atvinnuþátttöku öryrkja, virkja einstaklinginn til aukinnar þátttöku í þjóðfélaginu, tómstundum og fjölskyldulífi, auka lífsgæði hans og minnka á þann hátt sameiginleg útgjöld þjóðfélagsins. En hvaða aðferðum er beitt?
„Meginaðferðin sem við beitum er svokölluð skjólstæðingsmiðuð nálgun. Það merkir að endurhæfingin er löguð að þörfum hvers og eins. Oft er það þannig í endurhæfingarstofnunum að þar er sett upp dagskrá sem einstaklingarnir verða að laga sig að en hér er farin hin leiðin. Við reynum að hjálpa hverjum og einum að ná þeim markmiðum sem hann setur sér í samráði við fagfólk.
Þegar þátttakandi kemur inn fer hann í viðtal hjá starfsfólki og lækni og út frá því er gerð endurhæfingaráætlun í samráði við hann. Þá tekur við starfsmat í Iðnskólanum samhliða starfsþjálfuninni. Þátttakendum er veitt margs konar fræðsla um vinnuvernd, vinnumarkaðinn, bætta heilsu, sjálfsstyrkingu og fleira.
Starfsþjálfunin tekur mið af því hverju þátttakandinn hefur áhuga á að endurhæfa sig í. Flestir hafa valið að læra á tölvur en þeim stendur einnig til boða að spreyta sig á málmsmíði, trésmíði eða öðrum greinum. Við reynum að koma til móts við óskir allra með liðsstyrk kennara skólans en iðjuþjálfar og félagsráðgjafi styðja við bakið á þátttakendunum allan tímann.
Félagsráðgjafinn aðstoðar fólk við að rata um „kerfið“ og við atvinnuleit ásamt ráðgjöf. Hann hefur samband við fyrirtækin eða leiðbeinir fólki við að setja sig í samband við þau.“
Starfsnám samhliða endurhæfingu
– En hvað er nýtt við þessa endurhæfingu?
„Það er nýlunda hvernig við reynum að koma á samvinnu mennta- og heilbrigðiskerfisins um endurhæfinguna. Við vonumst til að það geri okkur kleift að koma betur til móts við fólk en áður hefur gerst vegna þess að það getur verið að mennta sig um leið og endurhæfingin fer fram undir faglegri leiðsögn. Þess ber þó að geta að þetta er ekki hefðbundin menntun, það eru engin próf og hver og einn fer í gegnum námið á sínum hraða. Hjá sumum gengur þetta mjög hratt en hjá öðrum getur þetta tekið lengri tíma. Það er mikilvægt að veita fólki tækifæri til þess.“
Það er of snemmt að spyrja um reynsluna af þessari tilraun enda á hún að standa yfir í nærri tvö ár. En hvernig hafa viðtökur þátttakenda verið?
„Þær hafa verið mjög góðar. Fólkið er duglegt því þetta er stórt skref fyrir marga. Hingað hefur komið fólk sem er með allt að ellefu ára gamalt örorkumat. Fólk sýnir ótrúlega þrautseigju og dugnað. Allir eru með verki og þess eru dæmi að fólk hafi orðið að auka lyfjanotkun sína til þess að geta sótt endurhæfinguna. En það setur það ekki fyrir sig.
Fyrsti hópurinn er búinn í starfsmati, annar hópurinn er kominn af stað og sá þriðji fer af stað í september. Við höfðum sjö í fyrsta hópnum og sex í þeim næsta. Það er ákjósanleg stærð, bæði vegna þess að fræðsluherbergið hjá okkur er lítið og auk þess er betra að ná utan um hóp sem er ekki of stór,“ segir Kristín.
Það fer ekki milli mála að í gömlu húsvarðaríbúðinni í Vörðuskóla (sem hét reyndar Gagnfræðaskóli Austurbæjar á sokkabandsárum blaðamanns) er unnið hið jákvæðasta starf þótt plássið sé takmarkað. Og ef reynslan heldur áfram að vera góð má búast við að þessari aðferð verði beitt um allt samfélagið.
Kom mér gersamlega á óvart
– segir Kristján Guðbjartsson húsamálari sem var í fyrsta hópnum
Fyrsti skjólstæðingur Janusar endurhæfingar sem „útskrifaðist“ eftir tæpa þrjá mánuði heitir Kristján Guðbjartsson og er húsamálari. Hann varð fyrir því að þurfa að fara í bakspengingu sem gekk ekki nógu vel og að henni lokinni neyddist hann til þess að leggja pensilinn á hilluna ef svo má segja.
„Ég heyrði af þessu tilboði og ákvað að slá til. Satt að segja var ég ekki ýkja vongóður um árangur en komst að þeirri niðurstöðu að ég gerði í það minnsta ekkert af mér á meðan. En þetta kom mér gersamlega á óvart. Ég get ekki séð nokkurn mínus við þetta starf hér.“
– Hvað hefur þú fengið út úr þessu?
„Ég hef fengið nýja sýn og nýjan tilgang í lífinu. Nú er ég á leiðinni aftur út á vinnumarkaðinn og það þakka ég starfsfólkinu hér. Ég byrja á því að reyna fyrir mér í símsvörun og sé svo til. Ég efast ekki lengur um að ég hafi ýmsa hæfileika og merki það meðal annars á því að ég fór í þrjú viðtöl vegna atvinnuumsóknar og var alls staðar tekið mjög vel.
En að sjálfsögðu var ekki dreginn fram rauður dregill daginn sem ég mætti. Ég hef þurft að hafa fyrir því að ná árangri. Ég var einn af þessum neikvæðu sem enginn gat gert til hæfis en þetta hefur breytt viðhorfum mínum,“ segir Kristján og á greinilega ekki nógu sterk orð til að lýsa ánægju sinni með þetta framtak. Það er helst á honum að heyra að hann ætli að panta viðtal við Orðunefnd og leggja til að starfsfólkið verði allt kallað suður á Bessastaði 17. júní!