Frjálst markaðskerfi getur ekki verið án verkalýðshreyfingar

Fyrir nokkrum mánuðum stefndi í óðaverðbólgu og hríðversnandi lífskjör hér á landi og stjórn efnahagsmála var að sigla í strand. Það var við þessar aðstæður sem Alþýðusambandið greip í samstarfi við landssamböndin inn í atburðarásina og nú blasir árangurinn við. Allt bendir til að hér komist á stöðugleiki og að verðbólgan verði hliðstæð og í samkeppnislöndunum í árslok. Þessum árangri er full ástæða til að fagna en ekki síður er ástæða til að fagna þeim styrk sem birtist í aðgerðum verkalýðshreyfingarinnar. Atburðarás síðustu missera hefur sýnt okkur mikilvægi þess að hafa sterka verkalýðshreyfingu við hliðina á hinu frjálsa markaðskerfi. Sterk hreyfing og virkt verðlagseftirlit eru ásamt öflugri samkeppnislöggjöf forsenda þess að samkeppni þrífist.

Andstæðingar hinna félagslegu sjónarmiða hafa haldið því fram að verkalýðshreyfing heyri fortíðinni til, hinn frjálsi markaður hafi tekið við og mikilvægt sé að hann fái að njóta sín án félagslegra inngripa. Frjálst markaðskerfi hefur marga kosti en einnig augljósa ókosti. Það hefur engin félagsleg markmið og tekur ekkert tillit til mismunandi þarfa fólks. Sá sem ekki getur spjarað sig á hinum frjálsa markaði hefur litla möguleika. Frjálst markaðskerfi án sterkrar verkalýðshreyfingar sem tryggir framgang félagslegra sjónarmiða er ekki sú framtíð sem stærsti hluti þjóðarinnar vill. Hlutverk verkalýðshreyfingarinnar í framtíðinni er því ekki síður mikilvægt og það er undir styrk hennar komið í hvernig samfélagi við búum í náinni framtíð.

Slíku hlutverki fylgir mikil ábyrgð og það gerir kröfur um vel upplýsta hreyfingu og góð tengsl út í samfélagið.

Sá árangur sem tekist hefur á síðustu mánuðum gefur tækifæri til nýrrar sóknar á fleiri sviðum. Tímabært er að fram fari gagnrýnin endurskoðun á velferðarkerfinu og þar hefur verkalýðshreyfingin mikilvægu hlutverki að gegna. Í okkar litla samfélagi er margt gott og flestir njóta þokkalegra  kjara og tryggrar afkomu. Þrátt fyrir það búa nokkrir hópar við erfið kjör og hluti af þeim við sára fátækt. Stærsti hluti þeirra sem búa við erfiðar fjárhagslegar aðstæður eru ellilífeyrisþegar, öryrkjar og ungar einstæðar mæður. Það er ljóst að ekki er til nein ein lausn fyrir þessa hópa. Það er pólitísk ákvörðun með hvaða hætti við búum að ellilífeyrisþegum hverju sinni. Þeir hafa ekki mikla möguleika á því að bæta stöðu sína á vinnumarkaði þegar á eftirlaunaaldur er komið. Lausnir fyrir einstæðar mæður þurfa meðal annars að hafa það að markmiði að styrkja stöðu þeirra á vinnumarkaði. Þar skiptir til dæmis menntun miklu máli. Bundnar eru miklar vonir við hugmynd aðila vinnumarkaðarins um sameiginlegt átak til að auka og bæta starfsmenntun. Hér þarf einnig að huga að fjárhagslegri afkomu fólks á meðan það stundar nám því námslán henta tæplega fátæku einstæðu foreldri.

Mikilvægt er að tekið verði á þessum málum á næstu mánuðum og sköpuð sátt um þau í samfélaginu. Mikill meirihluti Íslendinga vill ekki samfélag þar sem óbrúanleg gjá er á milli þegnanna og það ræðst af efnahag hvorum megin fólk býr.

Verkalýðshreyfingin á að nýta sér þá sterku stöðu sem hún hefur og taka forystu í þessum málum eins og hún hefur svo oft gert áður. Fólkið krefst þess og treystir á forystu hennar til að finna lausnir sem einkennast af sanngirni og jöfnuði.

Fari ójöfnuður vaxandi hlýtur samfélagið að leita nýrra lausna og hafna ríkjandi ástandi. Íslendingar meta frelsi ekki eingöngu út frá möguleikanum til að velja og hafna, þeir horfa einnig til félagslegs öryggis og jafnaðar.