Hlutafélag ekur við rekstri Fræðslumiðstöðvar

Hlutafélag ekur við rekstri Fræðslumiðstöðvar bílgreina

 

Hlutafélagið Fræðslumiðstöð bílgreina tók til starfa 1. október í haust og er félagið í eigu Bílgreinasambandsins og Bíliðnafélagsins að jöfnu. Tilgangur þess er að annast alhliða fræðslustarf í þágu bílgreinarinnar.

Með stofnun hlutafélagsins eru eigendurnir að auka áherslu sína á þjónustu FMB við fyrirtæki og einstaklinga í bílgreinum, að sögn Snorra Konráðssonar framkvæmdastjóra FMB.

Með FMB hafa tvö hagsmunafélög, annarsvegar samtök atvinnurekenda í bílgreinum og hinsvegar félag launþega, sameinast í atvinnustarfsemi til þess að mæta örri tækniþróun í bílgreininni með því að bæta þekkingu viðgerðarmanna. Fræðslumiðstöðinni er einnig ætlað að sinna fræðslustarfi alls staðar þar sem fengist er við bíla.

Starfar óháð

 

Hlutafélagið starfar óháð samtökunum sem eiga það þannig að komi til hagsmunaárekstra milli þeirra á öðrum sviðum getur félagið starfað óhindrað samkvæmt tilgangi sínum. „Það er mál manna að BGS og BIF hafi sýnt mikla framsýni og frumkvæði með stofnun hlutafélagsins,“ segir Snorri Konráðsson, „og þannig búið FMB undir harðnandi samkeppni í fræðslustarfsemi sem er ört vaxandi atvinnugrein hérlendis.“

Snorri segir nauðsynlegt að skilja að starfsemi sem nýtur styrkja og þeirrar sem rekin er á grundvelli samkeppni. Fyrr eða síðar verð horft á löggjöf hvað varðar samkeppni í fræðslustarfsemi og þar hljóti sömu siðalögmál að gilda og í annarri atvinnustarfsemi.

„Hlutafélagsformið gerir auknar kröfur til starfsmanna FMB um hagkvæmni í     rekstri,“ segir Snorri. „Hlutafélagið getur ekki teygt sig í sjóði annarra eftir styrkjum og framlögum heldur verður að bjóða þjónustu sem uppfyllir kröfur viðskiptavina sinna. Fræðsla er atvinnustarfsemi sem aðeins ánægðir viðskiptavinir halda við. Rekstur félagsins er í senn ögrandi og spennandi þar sem tækifærin myndast á grunni góðrar þjónustu.“

Á milli FMB og Fræðsluráðs bílgreina er samningur sem kveður á um að ráðið styrki félagsmenn í bílgreinum sem greiða til fræðslusjóðs til náms á vegum FMB. Snorri bendir á að önnur starfsemi skólans njóti engra styrkja og verði því sjálf að standa undir sér.