Hversu vel ertu tryggður?

Kristján Örn Sigurðsson hjá Sameinaði lífeyrissjóðurinn skrifar

Gott er að staldra við og skoða hversu vel maður sjálfur og fjölskyldan eru tryggð. Allskyns tilboð eru í gangi um sparnað og tryggingar. Oft eru ákveðnar tryggingar innifaldar í þjónustu sem flest heimili nýta sér, t.d. frá bönkum, sparisjóðum og í tryggingapökkum tryggingafélaganna. En ekkert af þessu er ókeypis og því er mikilvægt að gera sér grein fyrir tryggingaþörfinni og taka ákvarðanir í framhaldinu. Vera má að lífeyrissjóðurinn gleymist í þessu öllu en í greininni verður reynt að varpa ljósi á hversu vel einstaklingar eru tryggðir í Sameinaða lífeyrissjóðnum.

Örorkulífeyrir

Örorkulífeyrir er mánaðarlegar greiðslur sem sjóðfélagi fær verði hann fyrir alvarlegum veikindum eða slysi. Um 80% af örorkugreiðslum sjóðsins eru vegna veikinda en 20% vegna slysa. Með veikindum er átt við krabbamein, hjartasjúkdóma, geðsjúkdóma, stoðkerfissjúkdóma o.s.frv. Mismunandi er hversu háan örorkulífeyri einstaklingar fá en það tekur mið af þeim launum sem greitt er af. Ef laun sveiflast eftir árstíðum á slíkt ekki að skipta máli því við útreikning örorkulífeyris er tekið mið af meðaltalslaunum síðustu þriggja ára. Til að gera sér grein fyrir upphæð þessara örorkulífeyrisgreiðslna er nærtækast að skoða dæmi um einstakling sem er 25 ára og hefur að meðaltali 200.000 kr. í laun á mánuði yfir árið og hóf fyrst greiðslur til sjóðsins þegar hann var 22 ára og hefur því greitt til hans í full 3 ár. Þessi einstaklingur mundi fá rúmar 100.000 krónur frá lífeyrissjóðnum á mánuði ævilangt yrði hann fyrir alvarlegu slysi eða veikindum. Þótt ekki sé um sömu fjárráð að ræða og áður eru þessar greiðslur oft meginforsenda þess að einstaklingar geti staðið við fjárhagslegar skuldbindingar.

 

Fjölskyldubætur, eingreiðsla við fráfall

Falli sjóðfélagar frá er ákveðin trygging innifalin í greiðslum til Sameinaða lífeyrissjóðsins, og skilur hann frá sambærilegum sjóðum. Tryggingin felur í sér að eftirlifandi maki og börn eiga rétt á sérstökum eingreiðslum hafi iðgjöld borist til lífeyrissjóðsins. Greiðslunum má skipta í tvennt: barnagreiðslu og makagreiðslu, en tilgangurinn með þeim er að létta fjárhagslega undir með eftirlifandi maka og börnum sjóðfélaga og er algerlega aðskilin frá öðrum greiðslum sjóðsins. Upphæð eingreiðslunnar tekur mið af þeim launum sem sjóðfélaginn hafði síðasta árið fyrir veikindi eða andlát. Þetta þýðir að maki sjóðfélaga sem hefur haft 200.000 á mánuði fær 2.400.000 krónur í eingreiðslu. Eigi sjóðfélaginn þessu til viðbótar tvö börn greiðist til hvors þeirra fjárhæð sem nemur 12 mánaða barnalífeyri. Það gerir á núverandi verðlagi um 130.000 kr. á hvort barn. Þannig fær fjölskyldan um 2,7 milljónir í eingreiðslu falli sjóðfélaginn frá.

 

Samspil séreignarsparnaðar og fjölskyldubóta

Sífellt fleiri nýta sér þann valkost að leggja í séreignarsparnað og fá þannig umsamið mótframlag samkvæmt kjarasamningum frá launagreiðanda og ríki. Sparnaðurinn erfist að fullu og þannig getur sjóðfélaginn byggt upp eigin líftryggingu á löngum tíma. Því skiptir miklu máli að byrjað sé snemma og sparnaður hafinn meðan sjóðfélaginn nýtur réttar til fjölskyldubóta. Á myndinni að neðan sést dæmi um 30 ára sjóðfélaga hjá Sameinaða lífeyrissjóðum sem greiðir í séreignarsparnað og hefur 200.000 kr. í mánaðarlaun. Greiðsla við fráfall er sýnd miðað við 6% ávöxtun sparnaðarins. Af  línuritinu má sjá að sjóðfélaginn er búinn að vinna sér rétt til eingreiðslu við 42 ára aldur upp á um 5 milljónir kr. sem skiptast þannig að 2,4 milljónir koma frá fjölskyldubótagreiðslum og 2,6 milljónir frá séreignarsparnaði. Þegar hann er orðinn 52 ára á hann rétt á eingreiðslu upp á rúmar 8 milljónir og við 62 ára aldur á hann rétt á eingreiðslu upp á tæpar 15 milljónir. Af þessu sést að mikilvægt er að hefja séreignarsparnað snemma á ævinni og vera þannig einnig tryggður þegar líða tekur á ævina. Fjölskyldubætur í lífeyrissjóðunum veita tryggingu framan af starfsævinni en þegar líða tekur á hana hefur séreignarsparnaður safnast upp og tekur við þegar réttur til fjölskyldubóta rýrist.