Könnun á heilsu og vellíðan iðnaðarmanna

Menn bera sig vel en einkenni  um álag og streitu eru algeng

 

Könnun sem gerð var meðal byggingarmanna og málmiðnaðarmanna nú á haustdögum leiðir í ljós að íslenskum iðnaðarmönnum líður almennt vel í vinnunni. Þegar betur er að gáð hvílir þó skuggi á þessari mynd því að stór hluti þeirra sem spurðir voru kvaðst ekki fá nógu mikinn svefn og margskonar álagseinkenni reyndust vera útbreidd. Hins vegar eru íslenskir iðnaðarmenn ákaflega tregir til að leita sér aðstoðar eða meðferðar við líkamlegri eða andlegri vanlíðan.

Könnunina sem hér um ræðir gerði ráðgjafarfyrirtækið Solarplexus ehf. að ósk Samiðnar og Samtaka iðnaðarins. Er hún hugsuð sem liður í heilsueflingu og forvörnum gegn slysum meðal iðnaðarmanna en hvortveggju samtökin hafa áhyggjur af því að slysatíðni er meiri hjá starfsmönnum í byggingar- og málmiðnaði en í öðrum greinum. Lovísa Ólafsdóttir iðjuþjálfi hafði veg og vanda af könnuninni sem var í því fólgin að 51 málmiðnaðarmaður og 64 starfsmenn í byggingariðnaði svöruðu fyrirspurnum hennar um líðan sína en þeir starfa hjá fjórum fyrirtækjum: Slippstöðinni á Akureyri, Héðni, Íslenskum aðalverktökum og Sigurði Sigurðssyni ehf. Svarhlutfall var 100% því enginn skarst úr leik og er það einsdæmi að sögn Lovísu.

Spurningarnar snerust um að kanna vellíðan og heilsufar þátttakenda með tilliti til andlegra, líkamlegra og efnislegra áhættuþátta innan byggingar- og málmiðnaðarins. Markmiðið var að draga fram styrkleika og veikleika vinnustaðanna og áhrif þeirra þátta á hugsanlegar orsakir slysa. Spyrjendur ákváðu að bæta við spurningum um svefnvenjur og gæði hvíldar sem þátttakendur njóta en þeir þættir hafa að sjálfsögðu mikil áhrif á daglega líðan fólks.

 

Tveir þriðju með bakverk

 

Niðurstöður könnunarinnar eru afar athyglisverðar því auk þess að lýsa yfir almennri vellíðan á vinnustað lýstu þátttakendur töluvert vandamálum sem þeir eiga við að etja. Nefna má sem dæmi að bakverkir eru ótrúlega útbreiddir og sögðust 67% málmiðnaðarmanna og 62% byggingarmanna eiga við bakvandamál að stríða. 66% málmiðnaðarmanna og 48% byggingarmanna finna fyrir álagseinkennum í hnjám og um 53% í hvorri grein eru með verki frá hálsi og öxlum.

Sex af hverjum tíu þátttakendum í könnuninni segjast upplifa töluverða þreytu í daglegum störfum. 46% byggingarmanna segjast ekki vakna úthvíldir á morgnana og 33% málmiðnaðarmanna og um 30% þátttakenda segjast vera syfjaðir að degi til. 65% byggingarmanna og 45% málmiðnaðarmanna finna fyrir stirðleika eftir svefn.

Reykingar eru algengar í báðum hópum, einkum þó meðal byggingarmanna, 40% þeirra reykja á móti 28% í málmiðnaði. Tæplega helmingur þátttakenda stundar enga líkamsrækt og er mjög jafnt á komið með starfsgreinum hvað það varðar. Og þrátt fyrir þá vanlíðan sem fram kemur hjá þátttakendum eru þeir afar tregir til að leita sér meðferðar. 81% byggingarmanna og 86% málmiðnaðarmanna hafa ekki sótt meðferð hjá sjúkraþjálfara, nuddara eða lækni síðustu sex mánuði.

 

Vítahringur álags og streitu

 

Áhrifavaldar andlegrar streitu eru þættir á borð við einhæf verkefni, óöryggi í starfi, óskýra verkaskiptingu og breytingar á starfsumhverfi. Jafnvægisleysi í þessum þáttum leiðir til þess að einstaklingurinn þarf að vera á stöðugu varðbergi gagnvart væntingum og forgangsröðun og vinnur auk þess undir tímapressu. Fái einstaklingurinn í þessari stöðu ekki endurgjöf eða hrós frá yfirmönnum og samstarfsmönnum eykur þetta enn frekar á andlegt álag. Útbreitt viðhorf er að menn telja sig hafa ýmislegt fram að færa um vinnuna og vinnuumhverfið en að ekki sé hlustað á þá. Þeim er ekki hrósað ef vel gengur, álagstoppar eru of tíðir og þeir eru ekki hvattir til að leggja sitt af mörkum til að skapa gott andrúmsloft á vinnustað.

Greinilegt er að margir þátttakenda hafa lent í vítahring sem á sér orsakir í streitu og álagi á vinnustað. Þetta er mun meira áberandi í byggingariðnaði en málmiðnaði. Í lok vinnudags er spennustigið hátt sem veldur því að menn hvílast ekki nógu vel, þeir sofa illa og verða stressaðir sem getur birst í þunglyndi og kvíða. Líkamlega erfið og einhæf störf ásamt því að vinna undir mikilli tímapressu hefur þau áhrif að menn þreytast fyrr en ella, sem dregur úr viðbragðsflýti. Fyrir vikið verða menn kærulausir og hættan á slysum eykst.

Þegar spurt var um orsakir slysa nefndu flestir hraða,  streitu, kæruleysi, gáleysi annars starfsmanns og klaufaskap. Stór hluti starfsmanna telur að yfirmenn geti gert betur við að stuðla að því að öryggisreglum og -ráðstöfunum á vinnustaðnum sé framfylgt. Þegar slysin eru skoðuð kemur í ljós að það eru fyrst og fremst yngri mennirnir sem lenda í þeim. Ástæðan fyrir því er einkum sögð vera sú að þeir fá ekki næga aðlögun, þeim er ekki kennt nógu vel á tól og tæki eða brýnt fyrir þeim að gæta öryggis. Hugsanleg skýring á því gæti verið sú staðreynd að flest slys í báðum iðngreinum verða á tímabilinu frá mars og fram í júní, á sama tíma og afleysingamenn og nýliðar koma til starfa.

 

Starfsmat lítið, starfsmannasamtöl fátíð

 

Lovísa segir að henni hafi komið mest á óvart hversu lélega hvíld menn fái og hversu tregir þeir séu að leita sér meðferðar við vanlíðan sinni.

„Þegar allt kemur til alls bera menn ábyrgð á eigin   heilsu en könnunin bendir til þess að iðnaðarmenn axli ekki þá ábyrgð. Almennt eru menn stoltir af starfi sínu í þessum iðngreinum en þeim finnst þeir ekki nýtast vel. Þeim er ekki hrósað og þeir eru ekki hvattir til að taka þátt í að skapa góðan vinnustað. Starfsmannaviðtöl eru fátíð og starfsmat ekki mikið notað en yfir 80% þátttakenda segjast gjarnan vilja fá slík viðtöl. Þeir kvarta undan því að þótt þeir séu duglegir að segja skoðun sína þá sé virk hlustun atvinnurekenda ákaflega lítil. Þetta hefur áhrif á sjálfstraust manna á vinnustað og dregur úr vellíðan í vinnunni,“ segir Lovísa.

Hún bætir því við að þeir sem til var leitað hafi sýnt könnuninni mikinn áhuga eins og sjá megi af svarhlutfallinu. „Við höfðum nokkrar efasemdir um sumar spurningarnar sem okkur þóttu ganga ansi nærri mönnum en þátttakendur svöruðu þeim afar samviskusamlega. Þessi könnun ætti að geta nýst í forvarnarstarfi en það er á valdi samtakanna sem báðu um hana hvernig hún verður notuð. Við sáum hins vegar ýmislegt sem vert væri að kanna betur. Til dæmis var ekki spurt um það hvort menn ynnu fleiri störf eða væru í aukavinnu eftir að þeir fara úr vinnunni. Sé það algengt getur það skýrt ýmislegt sem fram kemur í þessari könnun.“